Morgunblaðið - 12.08.2015, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 12.08.2015, Blaðsíða 31
MENNING 31 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 12. ÁGÚST 2015 Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Jazzhátíð Reykjavíkur hefst í dag kl. 17 með djassgöngu niður Laugaveg að Hörpu þar sem hátíðin verður haldin fram á sunnudag, 16. ágúst. Gangan hefst við plötuverslunina Lucky Records við Hlemm og eru all- ir sem hljóðfæri geta valdið hvattir til að mæta og spila með, eins og segir í tilkynningu frá skipuleggjendum. Hátíðin er sú 26. í röðinni og í ár er lögð áhersla á nýsköpun, íslenska út- gáfu og samstarfsverkefni innlendra og erlendra djasstónlistarmanna. Sérstök áhersla er auk þess lögð á konur í djasstónlist í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að konur hlutu kosningarétt hér á landi. Af þeim tón- listarkonum sem fram koma á hátíð- inni í ár má nefna, úr hópi innlendra, píanóleikarana Sunnu Gunnlaugs- dóttur og Önnu Grétu Sigurðar- dóttur, sellóleikarann Þórdísi Gerði Jónsdóttur, fiðluleikarann Kristínu Þóru Haraldsdóttur, söngkonurnar Ingridi Örk Kjartansdóttur, Stínu Ágústsdóttur, Heiðu Árnadóttur, Stefaníu Svavarsdóttur og Ragnheiði Gröndal og á meðal erlendra tónlist- arkvenna eru þýski saxófónleikarinn Angelika Niescier, bandaríski trommuleikarinn Allison Miller, pía- nóleikarinn Carmen Staaf og fiðlu- leikarinn Jenny Scheinman. Lokatónleikar hátíðarinnar, haldn- ir á sunnudaginn kl. 16, eru tileink- aðir Louis Armstrong, í tilefni af því að í ár eru 50 ár liðin frá því að Arms- trong hélt tónleika í Háskólabíói. Á lokatónleikunum verða leikin mörg af þekktustu lögum Armstrongs og efni frá upphafi ferils hans og mun djass- spekingurinn og -rýnirinn Vern- harður Linnet fræða tónleikagesti um djassgoðsögnina miklu. Hátt í 100 listamenn 20 tónleikar eru á dagskrá hátíðar- innar og fara þeir fram í Norður- ljósum og í Silfurbergi. Hátt í 100 listamenn koma fram á þeim, þar af um þriðjungur erlendur, og einnig verða haldnir opnir fjölskyldutón- leikar og daglegar gleðistundir kl. 17 á Budvarsviðinu á efstu hæðum Hörpu. Gleðistundirnar felast í kynn- ingum á dagskrárliðum og spuna- stundir verða einnig haldnar daglega í dagskrárlok, kl. 23. Á þeim munu flytjendur leika af fingrum fram og er aðgangur ókeypis eins og á gleði- stundirnar og fjölskyldutónleikana. Í heildina eru viðburðir hátíðarinnar því 29 talsins og ljóst að mikil djass- veisla er framundan í Hörpu. Átta útgáfutónleikar verða haldnir á hátíðinni, á þeim frumflutt nýtt efni sem innlendir og erlendir tónlistar- menn hafa unnið í sameiningu. Tríó Sunnu Gunnlaugsdóttur, Mógil, Scott McLemore ásamt Hilmari Jenssyni og Angeliku Niescier, Jónsson&- More, Sigurður Flosason, Leifur Gunnarsson, Ásgeir Ásgeirsson og Tómas R. Einarsson ásamt Ómari Guðjónssyni munu öll kynna nýjar út- gáfur sem bera mikilli grósku í ís- lenskum djassi vitni. Ari Daníelsson situr í stjórn hátíð- arinnar og segist aðspurður ekki vita til þess að jafnmargir útgáfutónleikar hafi verið haldnir áður á djasshátíð- inni. „Ég get ekki fullyrt það en ég held að þetta sé óvenjumikið,“ segir hann. Spurður að því hvort djass- tónlistarmenn reyni að halda útgáfu- tónleika sína á hátíðinni segist Ari telja svo vera. Hátíðin sé kjörinn vett- vangur til að kynna nýja tónlist. Forvitnileg samstarfsverkefni -Samstarfsverkefni innlendra og erlendra tónlistarmanna eru mikil- vægur hluti af hátíðinni. Getur þú nefnt mér nokkur slík forvitnileg á þessari hátíð? „Já, ég get t.d. nefnt samstarf Sig- urðar Flosasonar og Hans Olding, sem er sænskur gítarleikari. Þeir deila ástríðu fyrir brasilískri tónlist, verkefni þeirra er tileinkað rytmískri brasilískri tónlist. Þýski saxófónleik- arinn Angelika Niescier kannar landamæri djassins með rytmíska gítarleikaranum Hilmari Jenssyni og bandaríska trommuleikaranum Scott McLemore sem er búsettur hér á landi. Svo er Árni Heiðar Karlsson píanóleikari í mjög áhugaverðu sam- starfi með tveimur Finnum; Joakim Berghall sem er geysiþekktur, ungur saxófónleikari og píanóleikaranum Joona Toivanen. Þeir spila tríó með tveimur píanóum sem er óvenjuleg hljóðfærasamsetning,“ segir Ari og nefnir einnig bassaleikarann Frey- stein Gíslason sem leiðir kvartettinn Sons of Gíslason. -Þetta verður fjölbreytt hátíð? „Já, mjög fjölbreytileg. Við erum í rauninni að skoða allt frá gömlum djassi, frá fyrstu árum Louis Arm- strong á þriðja áratugnum, svona gamaldags gítar „swing“ í anda Django Reinhardt, hefðbundinn meg- instraumsdjass og norrænan djass til framúrstefnulegs nútímadjass. Þetta er því tónlistarlega breið hátíð.“ Duglegir Íslendingar Jazzhátíð Reykjavíkur stendur fyr- ir komu erlendra hljómsveita og í ár leika á hátíðinni djasstónlistarmenn frá Noregi, Ítalíu og Bandaríkjunum. Bandaríski trommuleikarinn Allison Miller kemur fram ásamt hljómsveit sinni Boom Tic Boom, ítalski píanó- leikarinn Kekko Fornarelli kemur fram með tríói sínu og trompetleikar- inn Mathias Eick, ein skærasta djass- stjarna Noregs, heldur tónleika með kvintetti sínum. „Miller er mjög þekktur trommu- leikari og með henni eru þrír tón- listarmenn, þar af tvær konur. Mathi- as Eick er ein af stóru stjörnunum í evrópskum djassi. Hann er mjög þekktur og gefur út hjá ECM sem er afar þekkt þýskt djassútgáfufyrir- tæki. Fornarelli er ungur píanóleikari sem kemur með tríóið sitt,“ segir Ari, beðinn um frekari upplýsingar um tónlistarmennina þrjá. Hann segir aðra erlenda tónlistarmenn hátíðar- innar koma á vegum íslenskra tónlist- armanna sem þeir eigi í samstarfi við. „Það má segja að innlendu djass- tónlistarmennirnir geri framkvæmd og skipulag svona hátíðar mun auð- veldara en ella með því að vera jafn- duglegir og þeir eru,“ segir Ari að lokum. Allt frá Louis Armstrong yfir í framúrstefnulegan nútímadjass  Jazzhátíð Reykjavíkur, sú 26. í röðinni, hefst í dag  Sérstök áhersla lögð á konur í djasstónlist  Djasstónlistarmennirnir Allison Miller, Kekko Fornarelli og Mathias Eick meðal erlendra gesta Trommuleikari Allison Miller er þekktur bandarískur trommuleikari. Hún leikur í Norðurljósum, föstudagskvöldið 14. ágúst kl. 21, með hljómsveit sinni Boom Tick Boom. Hljómsveitina skipa þrjár konur og einn karl. Stjarna Trompetleikarinn Mathias Eick er ein af stóru stjörnunum í evr- ópskum djassi og er á samningi hjá hinu virta djassútgáfufyrirtæki ECM. Projeto Brazil Sigurður Flosason, Hans Olding, Þorgrímur Jónsson, Þórdís Gerður Jónsdóttir og Ola Bothzén leika rytmíska, brasilíska tónlist. Frekari upplýsingar um hátíðina má finna á vefsíðu hennar, reykjavikjazz.is.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.