Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2014, Blaðsíða 26

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2014, Blaðsíða 26
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 90. árg. 201422 Innan breska hjúkrunarfélagsins starfar sögufélag og hugmyndin að bókinni fæddist hjá félagsmönnum þess á Norður­ Írlandi. Fyrst voru uppi efasemdir um að hjúkrunarfræðingar myndu yfirhöfuð vilja tjá sig um þessa atburði eða að hægt yrði að hafa uppi á hjúkrunarfræðingum sem margir voru komnir á eftirlaun. En þegar kallað var til fyrsta fundar í Belfast mættu strax 60 manns. Viðtöl voru tekin við eldri hjúkrunarfræðinga og félagsmenn voru hvattir til að skrifa hjá sér minningar frá þessu tímabili. Mörgum reyndist það erfitt en sumum fannst það einnig léttir að geta tjáð sig um þessa atburði. Ekki voru þó allir tilbúnir til þess að taka þátt í gerð bókarinnar þó að þeim fyndist gott að hún skyldi skrifuð. Í bókinni eru kaflar þar sem sagan er rakin að mestu í tímaröð en einnig kaflar um ákveðin málefni. Einnig eru nokkrir kaflar í inngangi og viðauka þar sem sagan er rakin í aðalatriðum og sagt er frá helstu viðburðum. Í upphafi fólst ofbeldið í handalögmálum milli hópa og milli almennra borgara og lögreglu, eins og í okkar búsáhaldabyltingu, en eftir að breski herinn reyndi að skakka leikinn fóru bæði aðskilnaðarsinnar og sambandssinnar að vígbúnast. Stundum slösuðust samtímis menn í báðum fylkingum ásamt breskum hermönnum. Þeir sem hafa unnið á bráðamóttöku hafa stöku sinnum þurft að taka á móti sjúklingum sem hefur lent saman úti í bæ. Þá getur þurft að halda stríðandi fylkingum aðskildum. Á sjúkrahúsum á Norður­Írlandi var það daglegt brauð á þessum árum. Eftir því sem á leið fór að bera meira á sprengjuárásum og gagngerum morðárásum þar sem einn hópur drap óvopnað fólk úr hinum hópnum. Áverkarnir, sem hjúkrunarfræðingarnir þurftu að takast á við, urðu svæsnari. Ein mjög sérstök tegund af ofbeldi var refsingar gagnvart fólki í eigin liði fyrir að fylgja ekki einhverjum reglum um hvernig átti að haga sér innan hópsins. Þá var fólki gjarnan fyrst misþyrmt og svo var hellt yfir það tjöru og fiðri en þetta er gömul aðferð til þess að niðurlægja fólk. Í bókinni er sagt frá hversu erfitt gat verið að ná fiðri og tjöru af aftur. Önnur aðferð, sem var mikið notuð, var að skjóta eða höggva fólk í hnéð. Það gekk svo langt að læknar á Norður­Írlandi fundu upp sérstaka skurðtækni til þess að reyna að meðhöndla slíka áverka. Borgaraleg uppreisn eins og á Norður­ Írlandi veldur ekki bara nýjum líkams­ áverkum sem tekur tíma að sinna heldur lendir allt daglegt heilbrigðisstarf í uppnámi. Menn mæta ekki á göngudeild, komast ekki í apótek og svo framvegis. Þetta er mikilvægur lærdómur fyrir þá sem skipuleggja viðbrögð við hóp slysum og hamförum. Jafnvel við slíkar aðstæður þarf að halda áfram að fylgjast með blóðþynningarmeðferð, gefa krabba­ meinslyf og sinna heimahjúkrun. Fyrsta færanlega hjartastuðtækið var búið til á Royal Victoria­sjúkrahúsinu í Belfast 1965. Það var sett í sjúkrabíl og í honum var einnig læknir og hjúkrunarfræðingur. Undir lok 1969 varð æ erfiðara að starfrækja bílinn þar sem erfitt var að komast fram hjá vegatálmum. Starfsmenn bílsins þurftu einnig að nota hjálma til að verjast skotárásum. Í bókinni er sagt frá atviki þar sem bíllinn var stöðvaður í neyðarútkalli af vopnuðum uppreisnarmönnum. Eftir miklar rökræður fékk starfsfólkið að halda áfram en einn af uppreisnarmönnunum tók sér stöðu á stigbretti bílsins. Hann neitaði svo í fyrstu starfsfólkinu inngöngu hjá sjúklingnum og vildi ekki heldur leyfa því að fara með sjúklinginn á sjúkrahús. Það tókst þó um síðir og sjúklingurinn reyndist vera með hjartaöng á háu stigi. Mörg atvik áttu sér stað á bráðamóttökum og legudeildum því stríðandi fylkingar báru litla virðingu fyrir friðhelgi sjúkrahússins. Einu sinni gengu vopnaðir sambandssinnar inn á legudeild, skutu í allar áttir, drápu þekktan stjórnmálamann úr röðum aðskilnaðarsinna og særðu tvo aðra sjúklinga. Einnig kom fyrir að aðskilnaðarsinnar reyndu að frelsa liðsmenn í haldi breska hersins sem höfðu þurft að fara á sjúkrahús og þá kom stundum til skotbardaga. Nokkrir hjúkrunarfræðingar lýsa hvernig var að halda áfram að sinna hjúkrun þó að á deildinni væri fjöldi hermanna að vakta fanga og allir viðbúnir árás vígamanna. Hjúkrunarfræðingar gátu líka fengið að heyra frá sjúklingum ýmislegt sem gat komið þeim í siðfræðilega klemmu og jafnvel valdið lagalegum vandamálum. Fyrst og fremst á að virða einkalíf sjúklingsins og hugsa um velferð hans, en hvað gerir hjúkrunarfræðingur sem kemst að því að sjúklingurinn hefur framið afbrot eða heyrir heimsóknargesti skipuleggja árás? Það er merkilegt að lesa í bókinni um hversu illa mannaðar margar bráðamóttökur voru. Á einum stað er sagt frá móttöku þar sem var einn hjúkrunarfræðingur og einn nemi þegar alvarlega slasaðir sjúklingar fóru að koma úr sprengjutilræði. Smám saman þurftu hins vegar sjúkrahúsin að laga sig að þessum nýju aðstæðum. Hópslysaáætlanir, hópslysastjórnir og útkallsskipulag tóku miklum breytingum á þessum árum. Mest mæddi á Royal Victoria­sjúkrahúsinu. Hér urðu miklar framfarir í hópslysaskipulagi og flokkun sjúklinga og mörg sjúkrahús á Bretlandseyjum tóku síðar upp þessar nýjungar. Sumir hjúkrunarfræðingar sáu aðstand­ endur verða fyrir barðinu á ofbeldinu. Einn hjúkrunar fræðingur var giftur lögreglu­ manni sem var skotinn til bana og þurfti hún að sinna sjúklingum sem gátu vel átt sök á drápinu. Annar hjúkrunar fræðingur mætti á vakt á bráða móttöku og hitti þar tvær systur sínar, aðra þeirra með alvarlegan kviðáverka. Margir hjúkrunarfræðingar frá Norður­ Írlandi hafa átt erfitt með að vinna úr reynslunni. Suma dreymir enn um eða muna skyndilega eftir hræðilegum atburðum. Fæstir vissu mikið um sálræna skyndihjálp og margir töldu sig ekki þurfa aðstoð. Hún stóð heldur ekki til boða og menn héldu bara áfram að vinna. Reyndar settust hjúkrunarfræðingar oft niður á óformlegum tefundum í vinnu eða heima hjá einhverjum eftir erfiða reynslu. Einnig fundu menn sér tilefni til að fagna til að hressa upp á vinnuandann. Sjúklingar og aðstandendur fengu ekki heldur mikið af sálrænni skyndihjálp eða áfallahjálp. Einn sjúklingur, sem missti báða fætur í sprengjuárás, sagði tuttugu

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.