Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2014, Blaðsíða 31

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2014, Blaðsíða 31
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 90. árg. 2014 27 fjallað um hlífðarsloppa en nota skal einn slopp fyrir hvern sjúkling og skipta daglega og einnig ef sloppurinn er sýnilega óhreinn. Svuntur eru einnota og skal hent strax eftir notkun. Þessar leiðbeiningar hafa það markmið að minnka hættu á sýkingu af vinnufatnaði og auðvelda heilbrigðisstarfsmönnum handhreinsun (Folkehelseinstituttet, 2004; Socialstyrelsen, 2006; Statens Serum Institut, 2013). Mengun á vinnufatnaði Margar rannsóknir hafa farið fram á mengun vinnufatnaðar heilbrigðis starfsmanna og sýna að langerma sloppar og vinnufatnaður mengast af örverum. Í mörgum tilfellum eru þessar örverur húðbakteríur af þeim sem klæðast fatnaðinum en ónæmar bakteríur finnast einnig á vinnu fatnaði heilbrigðisstarfsmanna og langerma­ sloppum (Osawa o.fl., 2003; Perry o.fl., 2001). Gaspard o.fl. (2009) komust að því að mittissvæðið og vasarnir eru þau svæði sem oftast eru menguð og er það í samræmi við niðurstöður rannsóknar Loh o.fl. (2000). Ransjö og Åneman (2006) túlka rannsóknarniðurstöður þannig að mengaður vinnufatnaður og langermasloppar skapi sýkingarhættu fyrir sjúklinga. Að sögn þeirra eru mittissvæðið, brjóstsvæðið og vasarnir menguðustu svæðin. Rannsókn á mengun á vinnufatnaði starfsmanna á þremur hjúkrunarheimilum, þar sem einstaklingar með MÓSA (metisillín­ónæmar Staphylococcus aureus) búa ásamt öðrum einstaklingum, sýndi að ónæmar bakteríur finnast á vinnu fatnaðinum. Niður staða rannsóknar­ innar er að mengaður vinnu fatnaður geti verið upp spretta MÓSA og stuðlað að dreifingu bakteríunnar milli sjúklinga (Gaspard o.fl., 2009). Þversniðsrannsókn framkvæmd á stóru kennslusjúkrahúsi í Bandaríkjunum sýndi að 23% langermalæknasloppa eru mengaðir af S. aureus og MÓSA. Alls voru tekin sýni til ræktunar af 149 sloppum og S. aureus óx í 23% sýnanna (N=34). Af þeim reyndust 6 vera MÓSA en VÓE (vankómýsín­ónæmar enterococcus­ bakteríur) fundust ekki á neinum sloppi (Treakle o.fl., 2009). Leiðbeiningar um vinnufatnað á Landspítala • Við vinnu mengast fötin mest á miðjum líkamanum (mittissvæði, vasar og langar ermar) en axlir og efsti hluti handleggja mengast minna. Allt starfsfólk, sem sinnir sjúklingum hvar sem er á LSH, skal: • Klæðast vinnufatnaði (þ.e. buxum, aðhnepptum stuttermajakka eða skyrtu og e.t.v. langermaslopp) sem LSH leggur til og er þveginn í þvottahúsi stofnunarinnar. • Vera í skóm sem eingöngu eru notaðir á stofnuninni. • Geyma hreinan vinnufatnað í lokuðum fataskáp, aðskilinn frá öðrum fatnaði, t.d. í plastpoka. • Fara í hrein föt daglega og eftir þörfum (ef þau óhreinkast eða blotna). Nota skal hlífðarsloppa og svuntur skv. grundvallarsmitgát og viðbótarsmitgát. • Ekki vera í eigin fötum yst klæða í vinnu sinni. Þurfi starfsmaður að nota langermaflíkur, t.d. vegna kulda, skal nota langermajakka sem spítalinn leggur til og setja þá í þvott eftir hverja vakt. • Setja óhreinan fatnað strax í þvott. • Setja líkamsvessamenguð eða blóð­ menguð föt í vatnsupp leysan lega poka samkvæmt leiðbeiningum. Ljósmæður og læknar á fæðingar­ gangi skulu að auki: • Skipta um föt eftir hverja fæðingu ef ekki er notaður hlífðarsloppur þegar fæðandi konu er sinnt. Starfsfólk á skurðdeild (skurðstofu): • Skal fara eftir reglum sem gilda um fatnað á skurðstofum. Aðrir starfsmenn LSH, sem ekki sinna sjúklingum, skulu: • Klæðast fatnaði sem hæfir starfi þeirra. • Klæðast viðeigandi vinnufötum sinni þeir starfi þar sem föt geta mengast. • Að auki eiga starfsmenn, sem sinna sjúklingum, ekki að vera með úr eða skart á höndum, langar neglur, gervineglur eða naglalakk. Hins vegar fullyrða Dancer (2010), Loveday o.fl. (2007) og Wilson o.fl. (2007) í sínum greinum að birtar rannsóknir um örverumengun á vinnufatnaði heilbrigðisstarfsmanna séu litlar og engar sannanir fyrir dreifingu örveranna frá vinnufatnaðinum til sjúklinga. Treakle o.fl. (2009) komust að því í sinni rannsókn að margir læknar klæðast langermasloppum sem ekki hafa verið þvegnir í langan tíma. 17% læknanna klæddust sama sloppinum í meira en fjórar vikur 28 daga og 64% læknanna klæddust sama sloppnum í meira en viku. Þá sýndi önnur rannsókn að læknanemar fara sjaldan í hreinan slopp (Loh o.fl., 2000). Rannsókn Gaspard o.fl. (2009) sýndi hins vegar að nær allir heilbrigðisstarfsmenn (80­100%) fara í hrein vinnuföt í byrjun vaktar. Magnusson (2007) bendir á mikilvægi þess að vinnufatnaðurinn sé þægilegur og að auðvelt sé að þvo hann og Dancer (2010) bendir á að sjúkrahús þurfi að leggja til nægilega mikið af líni, vinnufatnaði og sloppum til að starfsmenn og aðrir sem þurfa geti farið í hrein föt daglega og eftir þörfum. Í nýjum leiðbeiningum frá The Society for Healthcare Epidemiology of America (SHEA) kemur meðal annars fram að starfsmenn, sem sinna sjúklingum, eigi ekki að hafa skart á höndum. Þeir skuli klæðast vinnufatnaði með stuttum ermum og fara í hrein föt daglega (Bearman o.fl., 2014). Hlífðarsloppar og svuntur Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á mengun á hlífðarsloppum og svuntum og gagnsemi þeirra til að draga úr mengun á vinnufatnaði. Hlífðarsloppar mengast af VÓE í 4­20% tilfella eftir að sjúklingum með VÓE er sinnt á göngudeild eða svipaðri einingu en í 30% tilfella eftir að sjúklingi með VÓE er sinnt á blóðskilunardeild (Grabsch o.fl., 2006). Rannsókn á mengun hlífðarsloppa og hanska heilbrigðisstarfsmanna, sem sinna sjúklingum með MÓSA eða VÓE, sýndi að af 137 heilbrigðisstarfsmönnum höfðu 18% þeirra mengað sloppinn, hanskana eða hvorutveggja eftir að hafa sinnt sjúklingunum (Snyder o.fl., 2008).

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.