Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2014, Page 25
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 2. tbl. 90. árg. 2014 21
í að mynda tengsl við sjúklingana sína.
Þeim verður annt um velferð sjúklinganna
og standa við bakið á þeim við erfiðar
aðstæður. Jafnvel mætti ganga svo langt
að kalla hjúkrunarfræðinga vini í neyð með
haldgóða og fræðilega þekkingu á bakinu.
Hjúkrun: hvorki kvenleg né
karlmannleg
Gunnar Pétursson útskrifaðist sem
hjúkrunarfræðingur úr Háskóla Íslands
árið 2010. Hann hefur starfað bæði
á lungnadeild og bráðadeild og er
nú í meistaranámi í bráðahjúkrun við
háskólann í Sydney. Ég ræddi við Gunnar
um hvernig það er að vera karlmaður í
hjúkrun, hér og erlendis.
„Í Ástralíu, þar sem ég er úti í sérnámi, eru
um 3045% bekkjarins karlar. Þar kippir
enginn sér upp við það að karlmenn séu
í hjúkrun. Fjöldi karla í starfinu virðist vera
menningartengdur að miklu leyti. Fáir
karlmenn eru í hjúkrun hér á landi og þar
af leiðandi færri fyrirmyndir fyrir þá sem
hafa áhuga.“
Að hans mati er hjúkrun kynlaust starf.
„Hvað er karlmannlegt eða kvenlegt við
það að hjálpa einstaklingi að komast í
gegnum erfiðustu tíma lífs síns? Að geta
sest niður hjá sjúklingi, komið með lélega
brandara til að dreifa huga hans og laðað
fram örlítið bros á meðan sársaukinn
líður hjá? Hvað er karlmannlegt eða
kvenlegt við það að koma í veg fyrir
að einstaklingur deyi með því að beita
endurlífgun eða gera sitt ýtrasta til að
koma í veg fyrir gjörgæsluvist?“
Gunnar segir að almenningur þurfi að
gera sér grein fyrir því að hjúkrun sé
ekki bara kvennastarf sem felist í því að
skipta á bleium og gefa pillur. „Hjúkrun er
starf sem felur í sér að auka vellíðan og
bæta heilsu og byggist á mikilli menntun,
kröfum um manngæsku í starfi og
fagmennsku. Þetta er starf sem felur í sér
að vera til staðar hvenær sem er og hvar
sem er. Það er ekki hægt að fara úr því
þó að farið sé úr vinnugallanum. Þannig
að ég spyr: Þarf starf hjúkrunarfræðinga
að vera kvenlegt? Eða karlmannlegt?
Hvað með: mannlegt?“
Samantekt
Ljóst er að fjölga þarf hjúkrunarfræðingum
á næstu árum. Til að auka aðsókn
karla í hjúkrun þarf að breyta þeirri
ímynd sem nú loðir við starfið og
karlkynsfyrirmyndir þurfa að vera
sýnilegri. Að mínu mati snýst hjúkrun
um að mætast á jafningjagrundvelli.
Mikilvægt er að komið sé fram við
notendur heilbrigðisþjónustunnar af
virðingu. Sinna þarf þörfum sjúklinga á
einstaklingsbundinn hátt en ekki fella
alla í sama mót. Jafnara kynjahlutfall í
hjúkrun myndi því auka fjölbreytni og efla
þjónustuna og um leið gæði hennar. Einnig
þarf að leggja aukna áherslu á að hér séu
miklir fagmenn að verki. Hvað ímyndina
varðar mega hjúkrunarfræðingar ekki
gera lítið úr sínu starfi. Við þurfum sjálf
að bera virðingu fyrir starfinu til þess að
öðlast virðingu annarra. Oft heyrist sagt:
„Nei, ég er bara hjúkrunarfræðingur. Ekki
segja það. Segjum frekar: „Nei, ég er
hjúkrunarfræðingur.
Inga María Árnadóttir er 2. árs nemi
í hjúkrun og formaður Curators,
nemendafélags hjúkrunar nema við HÍ.
Í haust verður í boði námskeið um að skrifa grein í Tímarit
hjúkrunarfræðinga. Námsefnið verður á vef tímaritsins og
hægt er að taka námskeiðið hvenær sem er og á hraða hvers
og eins. Þegar nógu margir hafa skráð sig verða einnig í boði
námskeiðsfundir þar sem þátttakendum gefst tækifæri til að
ræða saman og fá þjálfun í greinaskrifum.
Valfrjálst er hvort þátttakendur koma með grein í smíðum, hafa
í hyggju að skrifa seinna eða vilja bara læra meira um að tjá
sig í rituðu máli. Námskeiðið er sérstaklega ætlað þeim sem
hafa í hyggju að skrifa klínískar greinar en einnig verður fjallað
um að skrifa fréttapistla, umræðugreinar, fræðslugreinar og
bókakynningar.
Námskeiðið er ókeypis og mun hefjast í október nk. Hægt er að
skrá sig á netfangið christer@hjukrun.is eða í síma 540 6405.
Námskeið um
greinaskrif