Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2014, Page 40
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 2. tbl. 90. árg. 201436
í augum sjúklingsins er svo miklu meira
í húfi. Einstaklingarnir eru með slæma
verki, þeir eru haldnir kvíða og með skerta
líkamsímynd og svo hafa þeir takmarkaða
þekkingu á því hvernig hægt er að stuðla
að heilbrigði húðar. Þeim finnst þeir þurfa
meiri upplýsingar, fræðslu og stuðning frá
heilbrigðisstarfsfólki (Carter o.fl., 2007).
Erlendis hefur áherslan verið svipuð, á
sýklalyf og hálegu, og gleymst hefur að
meðhöndla raunverulegar orsakir, eins og
sveppasýkingar og bjúg. Aukin áhersla
er nú á meðhöndlun þessara þátta til
að koma í veg fyrir endurteknar sýkingar
(Napierkowski, 2013).
Hjúkrunarstýrð þjónusta
Vegna skorts á mannafla og plássum
lenda sjúklingar á hvaða deild sem er nú
til dags og því aldrei meiri þörf en nú fyrir
sérfræðinga í hjúkrun. Þeir eru hreyfanlegir
og koma með sérfræðiþekkinguna
á staðinn, veita sjúklingum, ættingjum
og starfsmönnum ráðgjöf og fræðslu.
Haustið 2011 byrjaði ég í starfsnámi til
sérfræðiviðurkenningar í hjúkrunarfræði.
Markmiðið með því námi var að koma á fót
nýrri hjúkrunarþjónustu og strax í upphafi
varð eitt aðalmarkmiðið að efla gæði
þjónustu við einstaklinga með húðsýkingar
(tafla 2). Markvissari hjúkrunarmeðferð
var innleidd fyrir þessa sjúklinga, eins
og staðbundin húðmeðferð, fræðsla og
forvarnir. Áhersla er lögð á hálegu eins og
áður en auk þess er reynt að komast fyrir
orsakirnar. Erlendis er lögð aukin áhersla
á meðhöndlun orsaka, aukið hreinlæti hjá
sjúklingum, rakameðferð vegna þurrks og
markvissari sárameðferð (Beasley, 2011).
Til eru nokkrar klínískar leiðbeiningar um
húðnetjubólgu en rannsóknir á einstökum
gerðum hjúkrunarmeðferðar eru mjög
takmarkaðar.
Staðbundin meðferð
Í bráðafasanum er húðin í fyrstu
glansandi, slétt og strekkt vegna
bólgunnar. Fljótlega eftir hálegu og
frekari meðferð við bjúg og bólgu fer
húðin að dragast saman og þurrkur
myndast. Við tekur fasi húðflögnunar.
Því skiptir miklu máli að byrja snemma
með rakameðferð og er bæði hægt
að nota ýmiss konar krem eða olíur.
Það er mjög einstaklingsbundið hvað
virkar best. Exem og sveppasýkingar
þarf að meðhöndla með viðeigandi kremi
eða lyfjum (Wingfield, 2009). Hjá þeim
sem fá heimakomu myndast stundum
vökvafylltar blöðrur og er misjafnt hvort
mælt er með því að tæma þær eða láta
þær vera og leyfa þeim að springa. Oft
lekur töluverður vessi úr fótleggjunum í
þessu ástandi og er talað um grátandi
fætur. Þörf er á undirbreiðslum og þegar
sár myndast eftir að blöðrur rofna er
þörf á sárameðferð með viðeigandi
umbúðum. Graftrarkýli þarf að opna
og er í höndum lækna að framkvæma
það en stundum myndast graftrarpollar
ofarlega í húðlögunum og er þörf á að
hreinsa þá burt með agntöng, skærum
eða hníf. Það er eins með þetta og
almenna sárameðferð að dauðan vef þarf
að fjarlægja svo gróandi geti átt sér stað.
Ef fætur eru illa hirtir getur verið gott að
setja viðkomandi í fótabað og stundum
hefur kalíumpermanganat verið notað til
að hreinsa og þurrka upp fætur.
Aukin umræða er um gagnsemi
þrýstings meðferðar og teygjusokka í
tengslum við húðsýkingar (Gunderson,
2011). Ekki er ráðlagt að beita þeim í
bráðafasanum vegna þess hve viðkvæm
húðin er og sjúklingar oft með verki
og aumir viðkomu (Wingfield, 2012).
Þrýstingsmeðferð hefur verið tekin upp
á Landspítala hjá þeim sem hana þola
og er farið mjög varlega í hana. Hjá
einstaklingum með stóra og mikla fætur
hefur þrýstingsmeðferð oft hjálpað til og
létt á verk við framúrferð. Lífeðlisfræðin
bendir til að með því að minnka bjúg eða
millifrumuvökvann aukist blóðflæðið niður
í fætur og auðveldi næringarefnum og
sýklalyfjum að komast til sýktu húðarinnar
(Stevens og Eron, 2009). Eins er það
þannig að með minni bjúg minnka verkir.
Þess er gætt að engar frábendingar
séu fyrir þrýstingsmeðferðinni og er
mældur ökklahandleggsþrýstingur (e.
ABPI=ankle brachial pressure index)
áður en meðferð er hafin til að útiloka
slagæðasjúkdóm (Stalbow, 2004).
Í kjölfar útskriftar af spítalanum hafa
hjúkrunarfræðingar á göngudeildum eða
heilsugæslunni og heimahjúkrun tekið
við meðferðinni. Hjá þeim sem þjást af
kláða og exemi getur verið gott að nota
sinkvafninga undir þrýstingsmeðferðinni
(Wingfield, 2011). Oftast hjálpar að
nota teygjuhólk, til dæmis Tubifast, ef
viðkomandi þolir ekki vafninga. Sá hólkur
veitir stuðning gagnvart bólgunni og
bjúgnum. Á háskólasjúkrahúsinu í Norfolk
og Norwich í Bretlandi er starfrækt
göngudeild fyrir húðnetjubólgu sjúklinga
og stuðla sérfræðingar í hjúkrun þar að
teygjusokkanotkun hjá einstaklingunum í
lok bráðafasans. Það er gert með góðum
árangri til þess að vinna gegn bjúgnum
sem er bæði undanfari sýkingarinnar og
afleiðing hennar. Eins er þar gífurlega mikil
áhersla lögð á heilleika húðar og viðhald
hans með rakameðferð (Wingfield, 2011).
Fræðsla og forvarnir
Aukin áhersla er á að meðhöndla orsaka
og áhættuþætti. Þessa þætti er byrjað
að meðhöndla á spítalanum en svo
þarf að halda því áfram þegar heim
er komið. Í raun er hér um að ræða
lífstílsbreytingar. Mikilvægt er að veita
góða fræðslu og leggja áherslu á forvarnir
og sjálfsbjörg. Fræðslubæklingurinn
Húðsýking: upplýsingar fyrir sjúklinga og
aðstandendur gaf ég út í júní 2013 og
tekur hann á flestum áhættuþáttunum.
Hann má finna á vef Landspítalans.
Ítreka þarf almennt hreinlæti. Fólk með
offitu þarf aðstoð við slíkt. Rætt er
um mikilvægi naglhirðu og að forðast
klór. Bent er á krem, kláðameðferð
og bómullarhanska með tilliti til þess
(Wingfield, 2011). Eins getur verið þörf á
reglulegu eftirliti hjá fótaaðgerðafræðingi
til að eiga við erfiðar neglur og sigg.
Hvatt er til meðhöndlunar á þurrk og
exemi með margs konar þar til gerðu
kremi. Hjá þeim sem stunda sund og
heita potta er sérstaklega rætt um
sveppi, hreinlæti og að nota sundskó
eða sandala. Ekki er mælt með því
að fólk gangi um berfætt vegna hættu
á óhreinindum og oddhvössum hlutum
sem geta stungist upp í fæturna. Hjá
Tafla 2. Markmið hjúkrunarstýrðrar þjónstu.
• Að efla fræðslu
• Að efla lífsgæði
• Að bæta líðan
• Að auka öryggi
• Að efla sjálfsumönnun
• Að stuðla að forvörnum
• Að minnka líkur á endurtekinni sýkingu.