Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2014, Page 57

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2014, Page 57
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 2. tbl. 90. árg. 2014 53 Ritrýnd fræðigrein SCIENTIFIC PAPER aldursskiptingu þjóða leiða til þess að hlutfallslega færri verða til að afla tekna fyrir velferðarþjónustuna og hver aldraður einstaklingur nýtir þjónustuna í lengri tíma (Glendinning, 2003). Jafnframt eru fjölskyldur eldri borgara vanbúnari til að veita þeim þá aðstoð sem venja hefur verið. Fjölskyldur eru minni í kjölfar færri barneigna, konur stunda launavinnu utan heimilis og búferlaflutningar hafa aukist. Því eru líkur á að aldraðir fái minni aðstoð frá ættingjum og vinum og finni jafnvel fyrir félagslegri einangrun. Þörfin fyrir opinbera aðstoð mun því aukast (Alaszewski o.fl., 2004; Hébert o.fl., 2003a, 2003b). Þrátt fyrir þær þjóðfélagsbreytingar er það stefna stjórnvalda víðast hvar í heiminum að styðja beri aldraða til að búa sem lengst á heimilum sínum. Hér á landi kom þessi stefna þegar fram í lögum um málefni aldraðra frá árinu 1999 og hefur verið leitast við að útfæra hana síðan (Lög um málefni aldraðra nr. 125/1999). Á liðnum árum hafa ríki og sveitarfélög lagt áherslu á að auka heimaþjónustu, bæði heimahjúkrun og félagsþjónustu, til að gera öldruðum fært að búa áfram heima (Heilbrigðis­ og tryggingamálaráðuneytið, 2003, 2006; Hlíf Guðmundsdóttir, 2008; Sigurveig H. Sigurðardóttir, 2010). Til að styrkja þá stefnu var tekin ákvörðun um að flytja ábyrgð á málefnum aldraðra til sveitarfélaganna fyrir lok árs 2012, líkt og gert var með málefni fatlaðra (Velferðarráðuneytið, 2008), en nokkur töf hefur þó orðið á þeirri framkvæmd. Þrátt fyrir að stór hluti aldraðra þurfi litla sem enga opinbera aðstoð vegna heilsumissis er það staðreynd að heilsufarserfiðleikar, eins og hjartasjúkdómar, lungnasjúkdómar, gigt, slag, heilabilun og sykursýki, gera í auknum mæli vart við sig samfara hækkandi aldri (Kodner, 2009; Mur­Veeman o.fl., 2003). Aldraðir eru einnig viðkvæmari fyrir áföllum og veikindum, svo sem föllum og inflúensu, og þeir eru lengur að ná sér. Undir lok tuttugustu aldar varð það sjónarmið ríkjandi að dvöl á bráðasjúkrahúsum væri einungis réttlætanleg þegar um alvarleg veikindi væri að ræða sem krefðust tafarlausra úrlausna. Þetta sjónarmið hefur ýtt undir þá stefnu að heimaþjónusta fyrir aldraða verði efld og jafnframt samþætt annarri þjónustu. Með því móti má sinna eldri borgurum heima þegar bráðaástand er liðið hjá (Alaszewski o.fl., 2004; Billings o.fl., 2004). Umönnun aldraðra heima fellur að hluta til undir skilgreind verkefni heilbrigðisþjónustu og að hluta til undir félagslega þjónustu (Kodner, 2006). Þarfir þeirra eru fjölbreyttar og meðferð við sjúkdómum getur verið mjög flókin. Margar starfsstéttir, eins og læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og félagsliðar, taka þátt í þjónustunni í mismunandi mæli en þurfa í öllum tilvikum að vinna saman til að stuðla að vellíðan skjólstæðingsins (Hébert o.fl., 2003b; Mur­Veeman o.fl., 2003). Eftir því sem þjónustan verður umfangsmeiri og flóknari og skiptist á fleiri aðila er hætt við að samfellan í þjónustunni verði minni, upplýsingaflæði tregara, þörfum einstaklingsins sé ekki sinnt, þeir falli á milli þjónustukerfa eða að tvíverknaður eigi sér stað (Alaszewski o.fl., 2004; Hébert o.fl., 2003a; Hébert o.fl., 2008b). Því hefur á liðnum árum verið hvatt til þess að samræma þjónustuna við þessa einstaklinga þar sem horft er á þarfir þeirra í heild sinni. Til þess þarf að samþætta alla þætti þjónustunnar (Kodner, 2006). Í þessari grein verður athyglinni beint að rannsóknum sem fjalla um samþættingu heilbrigðis­ og félagsþjónustu fyrir aldraða sem búa á heimilum sínum. Þetta er mikilvæg þekking fyrir hjúkrun. Stjórn og skipulagning heimahjúkrunar er yfirleitt í höndum hjúkrunarfræðinga, útskriftaráætlanir af sjúkrahúsum eru settar upp af hjúkrunarfræðingum og þjónustustjórar í samþættingarverkefnum um allan heim eru yfirleitt hjúkrunarfræðingar eða félagsráðgjafar (Leichsenring, 2004a; Somme o.fl., 2007; Weiner o.fl., 2003). Orðið samþætting er þýðing á enska orðinu integration, komið af latneska orðinu integrare sem þýðir að gera heilt eða fullkomna, fella saman í eina heild (Örn og Örlygur, 1984). Margar og mismunandi skilgreiningar hafa verið settar fram varðandi hugtakið samþætt heilbrigðis­ og félagsþjónusta en hingað til hefur engin ein skilgreining náð fótfestu (Bravo o.fl., 2008; Kodner, 2009; Kodner og Spreeuwenberg, 2002; Vondeling, 2004). Skortur á sameiginlegri skilgreiningu og sameiginlegri hugtakanotkun gerir hins vegar allar rannsóknir og þróun á samþættri þjónustu erfiðari og mat getur orðið snúið og samanburður óraunhæfur (Kodner, 2009; Stein og Rieder, 2009). Í þessari grein tökum við mið af lýsingu Leutz (1999) en nánar verður sagt frá henni er aðferð verður lýst. Tilgangur og rannsóknarspurningar Tilgangur okkar í þessari grein er að varpa ljósi á það hvernig samþættingu heilbrigðis­ og félagsþjónustu fyrir eldri borgara er best fyrir komið. Við munum leita svara við eftirfarandi rannsóknarspurningum: 1. Hver eru markmið samþættrar heilbrigðis­ og félagsþjónustu fyrir aldraða? 2. Hvað einkennir árangursrík verkefni á sviði samþættingar heilbrigðis­ og félagsþjónustu fyrir aldraða? AÐFERÐ Til að svara rannsóknarspurningunum var framkvæmd ítarleg leit að fræðilegu efni um skilgreiningu, markmið og útfærslu samþættingar heilbrigðis­ og félagsþjónustu og rannsóknum á árangri samþættingarverkefna. Gagnasöfnunin var að mörgu leyti flókin þar sem samþætt þjónusta er mjög víðtækt hugtak. Leitarorð voru: Integrated care, integration, elderly, health care, social care og models of care og voru þau notuð í ýmsum samsetningum. Leitað var í gagnasöfnunum PubMed, Scopus, Chinal og Gegni og miðað var við árin 2000­2010. Jafnframt takmarkaðist leitin við alþjóðlegar greinar á ensku og við verkefni sem beindust að samþættingu heilbrigðis­ og félagsþjónustu. Hins vegar voru rannsóknir sem beindust að samþættingu ólíkra þjónustueininga innan heilbrigðiskerfisins, svo sem milli bráðasjúkrahúsa og heilsugæslu, útilokaðar. Rannsóknirnar, sem til greina komu voru einnig takmarkaðar við eldra fólk og Evrópu, og Norður­Ameríku þar sem heilbrigðiskerfi og hefðir eru svipaðar því sem við þekkjum hér á landi. Lögð var áhersla á greinar

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.