Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2014, Qupperneq 62
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 2. tbl. 90. árg. 201458
félagsþjónustunnar fullsamþætt sem og þjónustan á einni
þjónustumiðstöð og áform voru um að ljúka samþættingu að fullu
innan tíðar (Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, 2012). Það verkefni
hefur leitt til þess að hjá heimaþjónustu Reykjavíkur er nú ein
þjónustugátt fyrir fjölbreytta þjónustu sem stendur einstaklingum,
sem búa á heimilum sínum, til boða. Þjónustustjórnun á
sér stað í gegnum móttökuteymi (Heimaþjónusta Reykjavíkur,
2009). Teymisstjórar heimahjúkrunar sjá um að framkvæma
fyrsta mat á sjúklingi sem síðan er sinnt af sjúkraliðum og
hjúkrunarfræðingum sem starfa saman í teymi. Á margan hátt
starfa teymisstjórarnir eins og þjónustustjórar þó að starfssvið
teymisstjóranna sé umfangsmeira (Kristín Björnsdóttir, 2011).
Í rannsókn á starfsháttum í heimahjúkrun hjá heimaþjónustu
Reykjavíkur kom fram að innra starf einkenndist af ríkri samvinnu
og upplýsingastreymi bæði innan hjúkrunarteyma og milli
heilbrigðis og félagsþjónustu. Hins vegar var samstarf við
lækna í sumum tilvikum flókið þar sem erfitt var að ná sambandi
við þá og margir aðilar tóku þátt í læknisfræðilegri meðferð
sjúklinga (Kristín Björnsdóttir, 2011). Því gat verið erfitt að tryggja
heildstæða þjónustu og bregðast við breytingum á líðan við
þessar aðstæður.
Í verkefni heimaþjónustu Reykjavíkur hafa komið fram ýmsar
hindranir fyrir fullri samþættingu. Má þar nefna takmarkanir á
rafrænum samskiptum milli heimaþjónustunnar og Landspítala
og ósamræmd tölvukerfi, annars vegar Sögukerfið og hins vegar
upplýsingakerfi velferðarsviðs Reykjavíkur (Heimaþjónusta
Reykjavíkur, 2010, 2011). Hér á landi hefur átt sér stað
heilmikil þróunarvinna við útfærslu á rafrænni skráningu í
heilbrigðisþjónustunni en sameiginlegur hugbúnaður og
aðgangur er mikilvæg forsenda samþættingar. Sú vinna hefur
ekki verið tengd öðrum sviðum velferðarþjónustu, eins og
félagsþjónustunni, og því er hætt við að fram komi erfiðleikar
vegna ólíkra rafrænna upplýsingakerfa í framtíðinni. Annað
mikilvægt atriði, sem hefur háð samþættingu, eru ólíkar
aðferðir við gjaldtöku þar sem greitt er fyrir félagsþjónustu en
ekki fyrir heimahjúkrun. Tekist hefur verið á við það vandamál
með því að fella niður gjald fyrir félagsþjónustu hjá sjúklingum
sem þarfnast heilbrigðisþjónustu heima.
Aðstæður á hverjum stað eru ólíkar og áríðandi er að taka
mið af þeim er ákvarðanir eru teknar um útfærslu samþættrar
þjónustu (Kodner, 2009; Stewart o.fl., 2003). Þetta kom skýrt
fram í nýlegri fræðilegri samantekt á samþættingarverkefnum
á sviði heilbrigðis og félagsþjónustu fyrir aldraða (Williams
o.fl., 2009). Þar kom fram að margt hefur áhrif á möguleika
til árangurs, svo sem fjármagn, stjórnskipulag, úrræði í
sveitarfélaginu, skipulag þjónustunnar, hlutverk og hugmyndir
fagfólks en ekki síður hugmyndir og gildi í samfélaginu,
uppbygging fjölskyldna, aðbúnaður aldraðra og margt fleira.
Þar kom einnig fram að tíminn skiptir miklu máli. Umfangsmiklar
breytingar á þjónustu við aldraða, þar sem samþætt þjónusta
var markmiðið, var nokkurn tíma að festast í sessi og skila
tilætluðum árangri (Williams o.fl., 2009).
Það er ýmislegt sem hafa þarf í huga þegar sameina á þjónustu
úr mismunandi kerfum eins og heilbrigðis og félagsþjónustu.
Í því sambandi hefur meðal annars oft verið bent á að saga
heilbrigðisþjónustunnar er mun lengri og á sér sterkari hefðir en
saga félagsþjónustunnar. Innan heilbrigðiskerfisins er menntun
starfsfólks meiri og almennari og þar er mun sterkari alþjóðleg
rannsóknarhefð. Því er áríðandi að taka mið af þessum ólíku
hefðum við samþættingu til að bæði kerfin fái að njóta sín
og að annað kerfið gleypi ekki hitt (Lára Björnsdóttir, 2006;
Leichsenring, 2004a).
En hvað getur þessi samantekt kennt okkur? Eins og fram kom
í fræðilegu umfjölluninni hefur samþætting á heilbrigðis og
félagsþjónustu rutt sér til rúms á Íslandi síðastliðin ár og er sú
vinna langt komin á höfuðborgarsvæðinu. Á Ísafirði, sem var
tilefni þess að vinna við þessa grein hófst, hafði lítil samvinna
verið á milli þjónustukerfa. Þó skal þess getið að stjórn
heimaþjónustunnar fluttist í sama húsnæði og heimahjúkrunin
árið 2011. Áhugavert verður að vita hvort það mun auka
samvinnu á milli kerfanna. Leiða má að því líkum að aðstæður í
litlum samfélögum eins og á Ísafirði séu góðar til að samþætta
heilbrigðis og félagsþjónustu. Í lítilli rýnihóparannsókn, gerðri
vorið 2010, þar sem viðmælendur voru það fólk sem stendur
fremst í þessum málaflokkum á Ísafirði, kom bersýnilega í ljós
mikill vilji til að samþætta þessa þjónustu. Mikill hugur var hjá
viðmælendum til að vinna vel saman að aukinni samþættingu
þannig að aldraðir í Ísafjarðarbæ fengju góða heilbrigðis og
félagsþjónustu (Hildur Elísabet Pétursdóttir, 2010).
Takmörkun verkefnis
Í þessu verkefni var byggt á hugmyndafræði Leutz (1999) um
stig samþættingar og mótaði það niðurstöðurnar á tiltekinn
hátt. Valið var að taka aðallega mið af samþættingarverkefnum
á stigi 2 og 3 í umfjöllun um árangursrík verkefni. Mörgum
litlum samvinnuverkefnum á stigi 1 hefur verið lýst þar sem
aukinni samvinnu milli ákveðinna þátta í kerfunum er komið
á. Þessum verkefnum var hins vegar lítill gaumur gefinn hér
enda var áherslan á þætti sem tengjast flutningi málaflokksins
yfir til sveitarfélaganna og þá eru samþættingarverkefni á stigi
2 og 3 líkari því sem koma skal. Annað atriði, sem ekki var
gert að umræðuefni, er sú staðreynd að í mörgum löndum
hefur orðið algengara að einkafyrirtæki reki ákveðna þætti
þessarar þjónustu. Slíkt fyrirkomulag getur aukið á erfiðleika
við samþættingu þar sem kerfin verða sundurlausari og
samvinna milli þeirra er oft erfið af fjárhagsástæðum. Þessi
þróun hefur einnig átt sér stað hér á landi og því er nauðsynlegt
að skoða áhrif hennar í frekari rannsóknum.
Ályktun
Áherslu heilbrigðisyfirvalda á samþættingu ólíkra
þjónustueininga á sviði heilbrigðis og félagsþjónustu má
rekja til fjölgunar einstaklinga sem búa við flókin og langvinn
heilsufarsvandamál í samfélaginu. Samþættingu er ætlað
að samhæfa hina fjölbreyttu starfsemi sem miðar að því að
hjálpa þessum einstaklingum til að búa á heimilum sínum
við sem best lífsskilyrði. Af þessari samantekt má ráða að
árangursrík samþætting miði að því að einfalda aðgang
einstaklinga að þjónustu og efla samvinnu starfshópa, meðal
annars með teymisvinnu. Greið samskipti og miðlun upplýsinga