Iðjuþjálfinn - 01.06.2015, Qupperneq 12
12
Allt þetta í 100 % starfi! Eins og gefur
að skilja eru áherslur allt aðrar en ég
vandist á Droplaugarstöðum. Hér felst
starfið mikið í mati á hjálpartækjaþörf
og að prófa og skrifa út hjálpartæki.
Einstaka ADL mat er gert og þá yfirleitt
á skammtímadeildinni. Matstækið sem
notað er við færnimat er FIM (Functional
Independence Measure). Þeir sem eru
á skammtímadeildinni hafa verið inni á
sjúkrahúsinu og sjúkrahúsið hefur gert sitt
en einstaklingurinn er samt ekki tilbúinn
til að útskrifast heim. Ástæðurnar geta
verið af ýmsum toga, en oft er um að ræða
einstaklinga sem kannski áttu erfitt með að
hugsa um sig sjálfir áður en þeir veiktust
og eftir veikindin gengur það alls ekki.
Einnig eru dæmi um að einstaklingar,
sem geta ekki hugsað um sig sjálfir,
komi inn þar sem makinn, sem fram
að þessu var einnig umönnunaraðilinn,
veikist skyndilega. Auk þess eru nokkur
rými notuð fyrir hvíldarinnlagnir
og einstaklinga, sem bíða eftir að
komast inn á hjúkrunarheimili. Á
skammtímadeildinni er endurhæfing
í boði, þar sem sjúkra og iðjuþjálfi
koma reglulega auk þess sem allt
starfsfólk stuðlar að endurhæfingu og
er meðvitað um mikilvægi þess að fólk
fái að gera sjálft það sem það getur í
endurhæfingarskyni. Einnig eru fundir
þar sem þjónustan við heimkomu er
skipulögð. Þar mætast einstaklingurinn,
teymið kringum hann og aðstandendur
og meta stöðuna saman. Svo er
ákveðinn heimferðardagur. Svona
fundur getur líka leitt til umsóknar um
hjúkrunarheimili, allt eftir því hver þörfin
er. Að öllu öðru jöfnu hafa iðjuþjálfi og
sjúkraþjálfari gert heimilisathugun fyrir
fundinn. Einstaklingur, sem ekki sækir
um hjúkrunarheimili, á rétt á styrk til
breytingar á eigin húsnæði til að geta
búið áfram heima. Þessar breytingar geta
verið allt frá því að fjarlægja þröskulda
til þess að fá lyftu milli hæða, allt eftir
því hver þörfin er. Ef einstaklingurinn
velur að sækja um breytingu á húsnæði
er það iðjuþjálfinn sem metur færni
einstaklingins og skerð inguna sem um-
hverfið veldur. Iðju þjálfinn skrifar
vottorð sem ein stakl ingurinn send ir með
umsókninni til sveitar félagsins. Svona
ferli getur tekið tíma og þá er mögu-
leiki á að fá framlengda dvöl á skamm-
tímadeildinni þangað til aðstæður heima
eru viðunandi.
Þann tíma sem ég hef búið í Svíþjóð
hef ég verið virk í iðjuþjálfafélaginu hér
í Blekinge. Fyrst meðstjórnandi félagsins
í Blekinge og svo vara formaður í fjögur
ár. Sænska iðjuþjálfafélagið FSA eru
landssamtök með um það bil 10.200
félagsmenn, þar af um 8.500 úti á
vinnumarkaðinum. FSA skiptist niður í
minni félög, eitt í hverju léni eða alls 24
félög. Um 95% félagsmanna eru konur
en 5% karlar. Blekingefélagið er það
þriðja minnsta í Svíþjóð með um 150
félagsmenn. Það er ekki skylda að vera í
stéttarfélagi og algengt er að fólk gangi úr
félaginu þegar það nálgast eftirlaunaaldur.
Skýringin er oftast sú að viðkomandi telur
sig ekki þurfa á félaginu að halda lengur
og vill frekar nota peningana í annað.
Starfið í félaginu hefur verið spennandi
og lærdómsríkt. Þrátt fyrir að vera ekki
lengur í stjórn þá er ég virkur félagsmaður
og hef tvisvar sinnum farið sem fulltrúi
Blekinge á landsfund iðjuþjálfa í Svíþjóð.
Það var stórt skref að flytja til Svíþjóðar
á sínum tíma en ég verð að viðurkenna
að fyrir mig var þetta rétt ákvörðun.
Ronneby er fallegur staður, veturinn er
stuttur og sumrin ljúf. Mannfólkið er
viðkunnanlegt og börnunum líður hér
vel. Ég er svo heppin að eiga frábæra
vinnufélaga og það er alltaf eitthvað
nýtt að gerast á vinnustaðnum. Það eru
auðvitað bæði kostir og gallar við að búa
og starfa erlendis. Ég er og verð alltaf
Íslendingur þrátt fyrir að vera farin að
borða „Lussekatter” fyrir jólin og þurfa
stundum að hugsa tvisvar áður en ég
segi eitthvað á íslensku. Ég starfa sem
arbetsterapeut en í hjartanu verð ég alltaf
iðjuþjálfi.
Jóhanna Rósa Kolbeins
Iðjuþjálfi frá Hälsohögskolan i Jönköping
1994
B.Sc. í iðjuþjálfun frá Háskólanum á
Akureyri 2005
Starfar sem iðjuþjálfi hjá Ronneby
Kommun í Svíþjóð frá haustinu 2005.
Sérverkefni:
Árin 2007–2008 Endurhæfing –
samstarfsverkefni milli Ronneby kommun
og Landstinget Blekinge.
20102011 Undirbúningur að yfirtöku
sveitarfélagsins af heimaþjónustu og
heimahjúkrun. Samstarfsverkefni milli
Ronneby kommun og Landstinget
Blekinge.
Nóvember 2014 – júní 2016 (áætlað)
Gæðaþróun öldrunarþjónustu Ronneby
kommun.