Iðjuþjálfinn - 01.06.2015, Blaðsíða 46
46
vinnubrögð er því sérlega mikilvægt að
vera alltaf að leita eftir nýjustu og bestu
þekkingu á faginu og því sem skilar
bestum árangri fyrir skjólstæðingana.
Námið í iðjuþjálfun hefur auðvitað
snúist um að gera úr okkur gott fagfólk
og vett vangsnámið verið til þess að
leyfa okkur að spreyta okkur í faglegum
vinnubrögðum. Við höfum fengið
mörg tækifæri til að þjálfa okkur í að
nota matstæki, setja markmið, gera
íhlutunaráætlanir, skrifa skýrslur, vera
með fræðslu og kynningar þannig að
við erum orðin nokkuð góð í þessu
sem er mjög mikilvægt. Það er þó
kannski mikilvægast að vera stöðugt
á tánum við að rökleiða og þjálfa sig
í að finna út nýjar leiðir til að feta við
síbreytilegar aðstæður með ólíkum
skjólstæðingum. Þess vegna hlýtur
þekkingarleitin og stöðug viðleitni
til að læra, að vera grunnurinn að
fagmennskunni. Og þess vegna hefur
verið sérstaklega lærdómsríkt og gefandi
í vettvangsnáminu að fá stöðug tækifæri
til að kynnast nýjum hlutum, hitta fólk
með ólíka reynslu og fá að sjá hvernig
það vinnur. Þegar sést hvað iðjuþjálfar
eru að gera margt merkilegt vekur það
umhugsun um hve mikilvægt það er að
þeir komi sér á framfæri og sýni framá
mikilvægi starfsins. Það gerum við
náttúrulega best með því að láta verkin
tala, reyna að sýna að iðjuþjálfun skili
árangri og vinna faglega. Sveitarfélögin
virðast hafi mismikinn áhuga á að ráða
til sín fagmenntað fólk og kannski er
það af hræðslu við að þurfa að borga
fagfólki hærra kaup. Gæti það ekki
líka stafað af þekkingarleysi? Að fólk
viti kannski ekki nógu vel fyrir hvað
iðjuþjálfar standa og hverju þeir geta
komið til leiðar? Best gæti ég trúað því
og þar þurfum við innan stéttarinnar að
vera dugleg að breiða út boðskapinn og
koma okkur á framfæri á jákvæðan og
uppbyggilegan hátt.
Fordómaleysi
Öll viljum við geta sagt og segjum
gjarnan að við séum fordómalaus. Við
erum fordómalaus gagnvart fólki sem
hefur annan litarhátt, aðra trú, er af öðru
þjóðerni, er feitt, mjótt, fatlað eða sjúkt.
Samt er það þannig í raunveruleikanum
að fólkið sem talið er upp hér að framan
verður fyrir umtalsverðum fordómum í
samfélaginu og þá er spurningin hvort
við hin fordómalausu séum búin að
skoða hug okkar nægjanlega vel? Líklega
ekki, og eftir því sem ég hugsa meira um
það, þá er ég viss um að ég er heldur
ekki fordómalaus, langt frá því.
Mig langar að taka dæmi um eigin
fordóma sem ég upplifði núna í
vettvangsnáminu. Ég verð nú að byrja
á að segja að mér líkar ekki vel að
viðurkenna að ég sé með fordóma og
alls ekki að ég sé með fordóma gagnvart
geðsjúkdómum. En jú, líklega er ég bara
með bullandi fordóma og til að kóróna
þetta þá hitti ég sjálfa mig fyrir í þeim.
Núna í miðju vettvangsnáminu varð ég
fyrir þeirri reynslu að veikjast af kvíða, fá
kvíðakast eða hvað það er nú kallað. Það
var ekki skemmtileg upplifun en ég er
samt ekki viss um hvort er verra að hafa
upplifað kvíðann eða tilfinningarnar
sem fylgdu því að segja öðrum frá
því. Helst vildi ég hafa sagt að kvíðinn
hafi verið bakverkur, höfuðverkur eða
einhver svona „venjuleg“ veikindi. Í
staðinn ákvað ég að segja eins og var
og síðan hef ég velt ýmsum hlutum
fyrir mér. Mun hreinskilnin hafa áhrif
á atvinnumöguleika mína í framtíðinni?
Fara sögur á kreik í samfélaginu? Fer fólk
að velta fyrir sér fortíð minni? Hvort ég
hafi kannski verið að fá kvíðaköst æ ofan
í æ? Hvort ég sé kannski bara geðveik?
Þessar hugsanir sækja á, þrátt fyrir að ég
hafi verið að vinna með fagfólki sem ég
veit að er ekki að tala um mín veikindi
við fólk út í bæ eða samstarfsfólk. Það
er bara einhvern veginn alveg furðulegt
að þurfa að viðurkenna fyrir sjálfum
sér að líklega hefði mér verið alveg
sama þó allir vissu ef ég hefði verið
heima með bakverk en af því að það
var tengt geðinu þá finnist mér bara
helst ekki eiga að minnast á það. Ég
get ekki sagt að ég sé þakklát fyrir að
hafa upplifað þessar tilfinningar af því
þær séu svo lærdómsríkar en ég verð nú
samt að segja að þetta hefur vakið mig
mjög til umhugsunar um fordóma og
hvað þeir eru í rauninni flókið fyrirbæri.
Þeir snerta fólk á margvíslegan hátt
og það er svo mikilvægt að við sem
fagfólk vinnum saman að því að vera
í fararbroddi við að vinna gegn þeim.
Eins og fram kemur að ofan þá er
kannski best að reyna að byrja á sjálfum
sér og sínum eigin fordómum.
Samvinna
Ég gæti haldið áfram að skrifa endalaust
því það er svo gaman að fá að hugleiða
svona frjálst. Blaka bara vængjunum og
flögra á milli eigin hugsana, staðreynda
og kenninga án þess að þurfa að
tilgreina nokkrar einustu heimildir fyrir
því sem maður segir. Maður verður bara
hálf „spinnegal“ og hömlulaus svona á
lokametrunum!
Mig langar að enda dagbókarskrifin
á því að tala aðeins um samvinnu sem
hefur birst í margs konar myndum
í vettvangsnámi liðinna ára og svo
höfum við nemarnir heldur betur
fengið þjálfun í að vinna saman í alls
konar verkefnum. Það er vitað mál og
margrannsakað (engin heimild ;)) að
samvinna hjálpar okkur að finna góðar
leiðir, miðla þekkingu okkar á milli og
getur myndað margfeldisáhrif ef vel
tekst til. Þessi lærdómur hefur oft tekið
á og stundum hefur manni þótt alveg
nóg komið af hópavinnu en oft hefur
hópavinnan skilað góðum árangri og í
vettvangsnáminu hefur maður líka séð
svo vel hvernig góð teymisvinna getur
virkað og að samvinnan er auðvitað
lykillinn að góðum árangri.
Núna í síðasta vettvangsnáminu mínu
hef ég fengið að kynnast búsetuþjónustu
við fatlaða í minni heimabyggð og
ég verð að segja að ég hafði einhvern
veginn aldrei leitt hugann að því,
hvað það er margt fólk sem kemur að
þessum málaflokki og þarf að vinna
saman. Það eru sveitarstjóri, sviðsstjóri,
félagsmálastjóri, félagsráðgjafi, iðjuþjálfi,
þroskaþjálfar, hjúkrunarfræðingar,
almennir starfsmenn og örugglega
fleiri. Málaflokkarnir sem tengjast eru
t.d. heilsugæsla, heimilishjálp, liðveisla,
réttindagæsla, atvinnumál, hæfing,
ferliþjónusta, húsnæðismál svo það
helsta sé nefnt. Það eru svo ótrúlega
margir strengir sem þarf að samstilla
og þar skiptir auðvitað sköpum hvernig
samvinna er á milli fólks. Sveitarfélagið
sem ég bý í er ekki stórt og ég hef mikið
verið að hugsa um kosti og galla þess
þegar kemur að samvinnu. Ef hópurinn
er vel samstilltur, stefnir í sömu átt og
það ríkir virðing, trúnaður og traust á
milli fólks þá er hægt að sjá fyrir sér
að nándin sé af hinu góða, skilvirknin
verður mikil og líkur á skjólstæðingar
fái góða þjónustu. Það skaðar svo
náttúrulega ekki ef sveitarfélagið á
dálítið af peningum. Ef samstarfsfólk
ber ekki virðingu fyrir hvert öðru,
traust er ekki til staðar og það er ekki
sameiginleg sýn þá er aftur á móti ekki
hægt að gera ráð fyrir góðum árangri.
Ef andrúmsloftið er þannig þá er
líklegt að lítið samfélag geri það enn
verra og þá koma peningar heldur ekki
að gagni. Hvernig sköpum við fólki
grundvöll til að vinna saman og hvernig
er hægt að ná fram þessu jákvæða og
skapandi andrúmslofti sem þarf að
vera til staðar til að samvinnan verði
góð? Ég held að þættirnir sem ég hef
farið í gegnum í þessari dagbókarfærslu
séu grunnurinn að góðri samvinnu
og námið okkar í iðjuþjálfun sé gott
veganesti. Vel menntað starfsfólk er
auður sem ráðamenn þurfa að sækjast
eftir og það þarf líka að setja upp
stöðvunarskyldumerkið varðandi
vinnuálag á fólki. Ég held ég láti það
verða lokaorðin í dagbókarskrifunum
og hverfi aftur inn í ævintýraheiminn,
skóginn. Sjáið þarna eru litlu álfarnir
flögrandi og stígurinn leiðir þá út í
skógarjaðarinn.