Skólavarðan - 01.04.2010, Page 7
7
Skólavarðan 3.tbl. 2010málefni
Þegar kennari spurði skólastjóra hvenær farið yrði
að vinna eftir nýjum menntalögum var svarið: Þegar
mínir yfirmenn gefa grænt ljós á það. Kennarinn spurði
yfirmenn skólastjórans og þeir sögðu: Þegar reglugerðin
kemur. Reglugerðin kom og kennarinn spurði: Förum við
nú að vinna eftir nýju lögunum? Yfirmennirnir svöruðu:
Hei, það er kreppa. Við erum ekkert að spá í þetta núna.
Þetta er samantekt úr frásögnum kennara á öllum skóla-
stigum, færð í búning örsögu. Á næstu blaðsíðum eru meðal
annars birtar örsögur úr skólastarfi og við hvetjum kennara og
stjórnendur til að senda okkur slíkar frásagnir. Þær verða allar
birtar á vef KÍ og sumar í Skólavörðunni. Sögurnar fjalla um
bæði jákvæða og neikvæða þætti í skólastarfi á krepputímum.
Sagan hér að ofan sýnir nokkuð sem margir kennarar og
stjórnendur kannast við. Hvað er hægt að gera þegar skórinn
kreppir? Má til dæmis brjóta lög? Nei, það má ekki brjóta
lög. Ef þú, lesandi góður, verður vitni að lögbrotum er rétt
að láta vita (og í sumum tilfellum er það skylda þín). Það
er sú krafa sem almennt er gerð til þegna í samfélagi. Ef þú
hefur til dæmis grun um að brotin sé 12. grein leikskóla-
laga um húsnæði og fjölda barna í leikskólum eða 13. grein
grunnskólalaga um rétt nemenda er rétt að láta ráðuneyti
menntamála vita af því. Hættum við að borga skatta, fara
með bílinn í skoðun og greiða skólagjöld af því að það er
kreppa? Áður en við hættum að gera hluti sem við teljum að
okkur beri skylda til og að sátt ríki um þarf samfélagslega
samræðu, svör, nýja lagasetningu, reglugerðarbreytingar,
lagabreytingar: Allt eftir því hvað málið snýst um. Það
verður ekki gert með orðunum: Hei, það er kreppa!
Hei, það er kreppa!
Við erum ekkert að
spá í þetta núna.
»
Þegar þú hefur spurningar:
Talaðu við yfirmann þinn.
Talaðu við trúnaðarmann þinn.
Talaðu við stéttarfélagið þitt.
Talaðu við yfirstjórn skólamála í þínu sveitarfélagi.
Talaðu við sveitarstjórn/bæjarstjórn.
Talaðu við menntamálaráðuneytið.
Talaðu við fjölmiðla.
Talaðu við samstarfsmenn þína.
Ekki þegja.
Texti: keg
Myndir: js