Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.04.2016, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.04.2016, Blaðsíða 35
menn voru fáir það ár en hefur farið aftur fjölgandi. Nú eru Íslendingar (11. mars sl.) 332.529 og 486 eru níræðir og fjöldi frískra manna, karla og kvenna, mun eldri en það. Ekki er nóg með að Íslendingar séu fjór- falt fleiri en þeir voru í bjartsýniskastinu að fenginni heimastjórn. Fagnandi fátæklingarnir eru komnir í hóp ríkustu þjóða heims. Hver hefði trúað því árið 1904? Sennilega flestir. Svo bjargföst var trú þeirra á frelsi og sjálfstæði þá. Heilbrigðiskerfi landsins er í fremstu röð. Horft er öfundaraugum á íslenskt raf- magn og hitaveitu úr öllum áttum. Síðustu 30 árin hafa ótrúlegir áfangar náðst í vega-, brúa-, ganga- og hafnagerð. Hvaða uppdráttarsýki hrjáir minnipoka- menn núna? Er hún læknanleg? Spyrjum Kára. En það er svo önnur hlið þessarar minnimáttar- kenndar að þeir sömu og helteknir eru af henni og sálufélagar þeirra í fjölmiðlastétt vitna sífellt í hvað líðast myndi í öðrum löndum. Þær fullyrðingar eru hreinn hugarburður. Ísland er þá gjarnan sagt „bananalýðveldi“ en hrópendur koma upp um sig, því það hugtak vísar á ríki í klóm auðhringa. Og eins og menn muna gerðu sömu aldrei athugasemd þegar viðskiptalíf Íslands var við það hverfa undir ok ör- fárra auðhringa. Þegar örlaði á viðspyrnu gegn því að stærsti hluti íslenskra fjölmiðla færi sömu leið lagðist sami hópur á sveif með auðhringjunum og forsetinn skipaði sér þar fremst í sveit, og tók enn betur á því næstu árin á eftir. Íslenskir sjónvarpsspyrlar halda að það sýni hörku að sýna viðmælanda fúlt fés (öðrum en andlegum flokksbræðrum), grípa af þeim orðið og slá fram gildishlöðnum fullyrðingum í stað spurninga. Það glytti í þess háttar strákshátt nýlega, bæði á ofboðs- fundi forsetans á Bessastöðum og í gjammi á óhönduglegum blaðamannafundi í Alþingishúsinu vegna mannabreytinga í ríkisstjórn. Sá sem kveða kunni Bretar hafa ríka hefð í fréttamennsku. Sjónvarps- maðurinn Robin Day var einna þekktastur frétta- skörunga þar. Hinn kunni sagnfræðingur Paul John- son segir um hann: „Í stjórnmálum, og einkum þó sjónvarpsstjórnmálum, var innsæi hans og næm til- finning með ólíkindum. Hann vissi nákvæmlega hvernig ætti að bera sig að og hafði bæði hugrekki og styrk til að gera það vel. Day lagði ungur stund á lög- mennsku og bjó yfir hæfileika og þjálfun málflutn- ingsmanns í fremstu röð. Það er að segja þess manns, sem setur sannleikann og réttlætið í fyrsta sæti, held- ur sig þétt við strangar kröfur um sönnunarfærslu, spyr ekki leiðandi spurninga og kemur fram við vitnið sem manneskju, fyrst og síðast, en lætur ekki eins og vitnið sé hluti af lögfræðilegum tilraunadýrum. Robin Day nam af Richard Dimbleby, fyrsta stór- stirninu á þessum himni, og bætti um betur. Day sagði við mig: „Þegar þú spyrð mann í sjónvarpssal verður þú að muna að þú ert í forréttindastöðu sem þjónn almennings á staðnum. Þú spyrð því spurninga sem venjulegt, heiðarlegt og vel siðað fólk myndi vilja spyrja ef fengi það tækifæri til að sitja í þínu sæti. Markmiðið er að ná fram þýðingarmiklum upplýs- ingum en ekki að vinna tæknilega sigra. Þú mátt vera ýtinn, jafnvel beittur, en þú verður í hvívetna að gæta formlegrar kurteisi í orðavali. Þér nægir ekki að virðast hlutlægur, þú verður að vera hlutlægur. Hlutdrægni er dauðasynd sjónvarps- spyrilsins. Ég get ekki lagt nægilega áherslu á mikil- vægi þess að hreinsa úr huga þér hverja einustu prívatskoðun þína, flokkslegan andblæ, andúð eða velvild.“ Day kenndi mér einnig hvernig orða mætti spurn- ingu svo að hún kallaði fram gagnleg svör, með kjöt á beini, fremur en já- eða nei-svör eða að farið væri undan í flæmingi. Ég lærði mikið af honum. Hann vék aldrei frá reglum sínum, sem hann taldi siðferðilega og faglega skyldu sína að fylgja. Hann sagði við mig: „Eins og stjórnmálin standa nú er sjónvarpsviðtal við ráðherra eða flokksleiðtoga í meginþætti eins og Panorama eins konar hluti af óskráðri stjórnarskrá og hana verður að nálgast með viðeigandi og ábyrgðarfullum hætti. Að misnota aðstöðu sína við slíkar aðstæður er rangt og viðurstyggilegt og ég vona að ég hafi aldrei gert það og að ég muni aldrei gera það.““ Hvað hugsa Íslendingar um orð þessa frægasta spyrils Breta eftir að hafa árum saman fylgst með Kastljósi „RÚV“, svo ekki sé talað um nýlega fram- göngu verktaka sömu stofnunar? Þar virðist ekki tiltökumál að misnota aðstöðu sína hvenær sem færi gefst til þess. Er ekki líklegt að það yrði niðurstaða margra að sjaldgæft sé að íslenskir „panoramaþættir“ komist í námunda við þau prinsipp sem Robin Day taldi heilög. Hvers vegna er svona komið? Augljósa svarið, að Ríkisútvarpið sé metnaðarlaus og stjórnlaus stofnun, dugar ekki til. Morgunblaðið/Árni Sæberg 24.4. 2016 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 35

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.