Náttúrufræðingurinn - 2014, Qupperneq 4
Náttúrufræðingurinn
4
Ritrýnd grein / Peer reviewed
Meginþættir í vistkerfi
Íslandshafs og breytingar
á lífsháttum loðnu
Sérstöku verkefni til rannsókna á vistkerfi Íslandshafs var hleypt af
stokkunum árið 2006 í þeim tilgangi að greina helstu vistfræðilega þætti
þessa hafsvæðis, með áherslu á stofnvistfræði loðnu. Umhverfis- og líf-
fræðigögnum var safnað í tíu rannsóknaleiðöngrum árin 2006 til 2008
og sjófræðilegar mælingar tímabilsins 1970 til 2011 voru skoðaðar. Lang-
tímamælingar sýna vaxandi hita í yfirborðslögum og millisjó Íslandshafs
síðustu ár. Kísilþörungar fundust aðallega að vorlagi, en skoruþörungar og
smáir þörungar frá vori til hausts. Dýrasvifið einkenndist af fáum ríkjandi
tegundum og fisktegundir voru fáar. Fæðuvefur uppsjávarins síðsumars
náði yfir um fjögur fæðuþrep að fuglum og spendýrum frátöldum. Á neðsta
þrepi voru krabbaflærnar rauðáta, póláta og Metridia longa (fæðuþrep 2–2,4)
en á því efsta loðna og kolmunni (~3,6). Calanus-tegundir eru mikilvæg
fæða hjá flestum þeirra tegunda sem rannsakaðar voru. Aukið mikilvægi
kaldsjávarmarflóarinnar Themisto libellula í fæðu fullorðinnar loðnu í Ís-
landshafi í ágúst 2007 og 2008 gæti skýrst af breyttu búsvæði loðnunnar
til vesturs. Styrkur næringarefna, frumframleiðslu og átu sýndi greinilega
árstíðasveiflu með vorblóma seinni hluta maímánaðar og átuhámarki í júlí
til ágúst. Útbreiðsla næringarefna, svifþörunga og dýrasvifs var keimlík að
sumarlagi árin 2006–2008 og mótaðist einkum af sjógerðum hafsvæðisins,
þ.e. Atlantssjó, pólsjó og svalsjó. Áhrif umhverfisþátta á samfélagsgerð
dýrasvifs var kannað með RDA-greiningu. Skýribreyturnar selta, árið
2008, botndýpi, hitastig og blaðgræna skýrðu um 29% af heildarbreyti-
leika í samfélagsgerð milliátu. Greiningin leiddi í ljós þrjár meginsam-
félagsgerðir eða hópa, atlantískt samfélag í austanverðu Íslandshafi, þar
sem rauðáta (Calanus finmarchicus) var algeng, norrænt (arktískt) samfélag
norðvestantil þar sem póláta (C. hyperboreus) var áberandi og samfélag
sunnantil í hafinu, með tengsl við landgrunnssvæðin, þar sem mikið var
af strandsjávarátutegundum. Algengustu fiskar í efri lögum sjávar voru
fullvaxta síld, kolmunni og loðna og breytilegt magn fisklirfa og fiskseiða.
Útbreiðsla loðnu síðustu ár einkenndist af tilfærslu (hliðrun) til norðurs og
vesturs hjá seiðum og til vesturs hjá eldri loðnu, miðað við fyrri ár. Þessar
breytingar eru raktar til þess að við hlýnun sjávar hafi skilin milli hlýsjávar
og pólsjávar færst norðar og vestar og búsvæði eldri loðnu hafi fylgt þeim.
Árslífmassi var metinn 5,3 milljónir tonna af svifþörungum, ~29 milljónir
tonna af átu og 1,0 milljón tonn af fiski.
Náttúrufræðingurinn 84 (1–2), bls. 4–18, 2014
Ólafur K. Pálsson, Ástþór Gíslason, Björn Gunnarsson, Hafsteinn
G. Guðfinnsson, Héðinn Valdimarsson, Hildur Pétursdóttir,
Konráð Þórisson, Sólveig R. Ólafsdóttir og Sveinn Sveinbjörnsson
Inngangur
Hafsvæðið sem yfirleitt er skil-
greint sem Íslandshaf afmarkast af
Grænlandi til vesturs, Jan Mayen
og brotabelti þess til norðurs, Jan
Mayen hryggnum til austurs og
Grænlandssundi og landgrunns-
brúninni norðan Íslands til suðurs
(1. mynd). Íslandshaf er yfirleitt 500–
2000 m að dýpt, en grynnra á land-
grunni Austur-Grænlands og norðan
Íslands, og er því fremur grunnt í
samanburði við nálæg norræn höf,
þ.e. Noregshaf og Norður-Græn-
landshaf. Kolbeinseyjarhryggur
liggur eftir endilöngu Íslandshafi
um það bil í suðvestur-norðaustur
stefnu og nær frá meira en 1000 m
dýpi upp á 500 m dýpi á nokkrum
stöðum. Hryggurinn skiptir Íslands-
hafi í vestur- og austurhluta, þ.e.
Blosseville-djúp (Blosseville Basin) og
Íslandssléttu (Iceland Plateau).
Íslandshaf hefur ekki verið vett-
vangur viðamikilla rannsókna
hingað til. Fyrri rannsóknir hafa
aðallega beinst að eðlis- og efnafræði
hafsins, svo sem lýsingum á helstu
straumum, sem og myndun, eigin-
leikum og dreifingu sjógerða, meðal
annars í tengslum við flæði djúp-
sjávar um Grænlandssund.1–6 Þá
hefur styrkur næringarefna og ólíf-
ræns kolefnis í sunnanverðu Ís-