Náttúrufræðingurinn - 2014, Síða 5
5
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
landshafi (68°N) verið greindur.7
Lífræðilegar rannsóknir á lægri
þrepum vistkerfisins hafa verið
fáar, og einkum takmarkaðar við
sunnanvert Íslandshaf, svo sem
langtímavöktun á átu og umhverfis-
þáttum8 og rannsókn á frumfram-
leiðni og lífsferlum átu.9 Rannsóknir
á vistfræði fiska hafa að mestu
takmarkast við loðnu (Mallotus vil-
losus), stærsta fiskstofn Íslands-
hafs. Þar ber hæst umfangsmiklar
rannsóknir á níunda og tíunda
áratug síðustu aldar, í því skyni að
greina lífsögulega þætti loðnu og
veiðiþol stofnsins og tengsl hans við
sjófræðilega þætti.10,11
Loðnustofninn gegnir lykilhlut-
verki í vistkerfum Íslandshafs og Ís-
landsmiða. Með áti á dýrasvifi og
sem bráð botnlægra fiska, sjávar-
spendýra og fugla, veitir loðna
gífurlegu magni lífrænnar orku frá
neðri þrepum vistkerfanna til þeirra
efri, og er því drifkraftur í vexti
og viðgangi margra dýrastofna.
Loðnan hrygnir einkum með suður-
og vesturströndinni10 og drepst að
því loknu og nýtist þá sem æti fyrir
fiska og hryggleysingja botndýra-
samfélagsins. Loðnustofninn hefur
verið einn mikilvægasti nytjastofn á
Íslandsmiðum síðustu 40–50 árin.
Loðnan er því ekki aðeins mikilvæg
1. mynd. Sjávardýpi og straumar í Íslandshafi, AGS = Austur-Grænlandsstraumur, AÍS
= Austur-Íslandsstraumur, NÍS = Norður-Íslandsstraumur.4,75 Endurteknar stöðvar eru
sýndar út af Látrabjargi (Ln4), Kögri (Kg4), Siglunesi (Si8) og Langanesi (Ln6) og
mælistöð í miðju Íslandshafi (Íh). – Depth contours and currents in the Iceland Sea, AGS
= East Greenland Current, AÍS = East Icelandic Current, NÍS = North Icelandic
Irminger Current.4,75 Repeated stations are indicated off Látrabjarg (Ln4), Kögur (Kg4),
Siglunes (Si8) and Langanes (Ln6), and in the central Iceland Sea (Íh).
í vistfræðilegu tilliti heldur einnig
í efnahagslegu samhengi.
Megindrættir í göngum og atferli
loðnu lágu fyrir um 1980 í ljósi
stofnmælinga og merkinga.10 Enda
þótt umhverfisþættir væru augljós-
lega áhrifamiklir í að móta breyti-
leika lífsögulegra þátta og árssveiflur
í stofnstærð, var unnt að spá fyrir
um stofnþróun með ásættanlegri
óvissu.11 Markverðar breytingar
hafa hins vegar átt sér stað í út-
breiðslu seiða og eldri loðnu á upp-
eldis- og fæðustöðvum í Íslands-
hafi frá því seint á tíunda áratug
síðustu aldar. Jafnframt mistókust
stofnmælingar á loðnu að haustlagi
um árabil, fiskiskipin fundu ekki
veiðanlega loðnu, og sumar- og
haustveiðar liðu undir lok árið 2005.
Loks hefur nýliðun stofnsins verið
mun minni frá árinu 2003 en raun
var á fyrir þann tíma. Þessar stofn-
breytingar hafa verið tengdar við
aukið innflæði Atlantssjávar norður
fyrir land.12,13
Markmið rannsóknaverkefnis-
ins „Vistkerfi Íslandshafs“ var að
afla upplýsinga um vistfræðilega
grunnþætti Íslandshafs og nálægra
hafsvæða, sem og tengsl þeirra
við lífsögu og stofnþróun loðnu.
Hér verður gerð grein fyrir lang-
tímabreytileika í sjávarhita og jafn-
framt lýst helstu þáttum í bygg-
ingu og virkni vistkerfisins, svo sem
sjófræðilegum ferlum, tegundum
og magni svifþörunga og átu, vist-
fræðilegum tengslum og útbreiðslu
loðnu og annarra fiska.
Gögn og aðferðir
Gögnum var safnað í tíu rann-
sóknaleiðöngrum árin 2006–2008,
aðallega að vor- og sumarlagi (1.
tafla).14 Gagnasöfnun fór fram með
eftirfarandi hætti: 1) Á svoköll-
uðum umhverfisstöðvum var vist-
fræðilegum gögnum safnað með
mælingum á sjávarhita, seltu, nær-
ingarefnum og blaðgrænu og
söfnun svifþörunga og átu. 2) Á tog-
stöðvum var líffræðilegum gögnum
safnað um fiska. Auk þess voru
bergmálstæki notuð til að mæla
magn og útbreiðslu helstu fisk-
stofna. Umfangsmestu leiðangrarnir
fóru fram að sumarlagi öll þrjú árin
þegar gögnum var safnað á um-
hverfisstöðvum, togstöðvum og
með bergmálsmælingum. Á öðrum
árstímum var gögnum safnað á um-
hverfisstöðvum í sex leiðöngrum
og loðnulirfum var safnað vorið og
sumarið 2007.
Langtímabreytingum sjávar-
hita á suðurmörkum Íslandshafs
norðvestan og norðan lands, er
lýst með gögnum úr gagnagrunni
Hafrannsóknastofnunar á fjórum
stöðvum (Lb4, Kg4, Si8, Ln6) á
jafnmörgum sniðum (Látrabjargs-,
Kögur-, Siglunes- og Langanessniði,
1. mynd). Þessar stöðvar, svo-
nefndar endurteknar stöðvar, voru
teknar ár hvert á þremur til fjórum
árstímum flest árin, í febrúar, maí,
ágúst og nóvember. Til að lýsa lang-
tímabreytingum í hinu eiginlega Ís-
landshafi voru notaðir dýptarferlar
hita á stöð miðsvæðis í hafinu (Íh, 1.
mynd), frá árunum 1951, 1987, 2007
og 2008.15 Hitamælingar árið 1951
voru gerðar með vendihitamælum
á ákveðnum dýpum og þau gögn
síðan brúuð milli mælidýpa á eins
meters dýptarbilum til þess að
fá samfelldan hitaferil. Hafeðlis-
fræðileg gagnasöfnun innan Íslands-
hafsverkefnisins fólst í samfelldum