Náttúrufræðingurinn - 2014, Qupperneq 69
69
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
Stórbókagerð
Eftir Ameríkudvölina sneri Guðmundur sér alfarið að
bókaskrifum, þar sem listgáfan notaðist prýðilega við
samningu texta, myndatöku, hönnun og uppröðun
mynda og teikninga, þar sem allt fellur í ljúfa löð. Á
Stokkseyri ritaði hann sína fyrstu stórbók: Fuglar í náttúru
Íslands, sem kom út árið 1987 hjá Máli og menningu, hinu
rótgróna og virta forlagi, sem Halldór Guðmundsson
stýrði á þeim tíma. Mikil áhersla var lögð á myndmálið, en
bókin er líka sneisafull af allskonar fróðleik um fuglana.
Bókin varð til við nána samvinnu höfundar og útgefanda,
og sama á við um næstu bækur. Tölvutæknin nýja var
notuð við ritvinnslu og umbrot bókanna.
Næst ætlaði Guðmundur að snúa sér að fjöru og
strönd, sem hann hafði lengi haft í huga, en fyrir tilmæli
Árna Kr. Einarssonar, framkvæmdastjóra Máls og Menn-
ingar (M&M), féllst hann á að taka næst fyrir Perlur í
náttúru Íslands, sem út kom 1990. Það átti upphaflega að
verða myndabók, en niðurstaðan varð stórbók í sama stíl
og fuglabókin. Hér var Guðmundur búinn að finna sér
farveg er fólst í því að flétta saman náttúrufræði, sögu og
þjóðtrú, skáldskap og myndlist. Þar kom hin fjölbreytta
menntun og reynsla hans að góðu gagni. Hann náði
góðum tökum á íslenskri tungu og ritmáli, en naut þar
líka færustu handritslesara.
Mikil áhersla var lögð á ríkulega myndsetningu, stórar
og glæsilegar myndir, sem höfundur hafði flestar tekið
sjálfur, og mun sú stefna einkum hafa valdið hinu stóra
broti bókanna. Aðrar eins myndir höfðu ekki áður sést
í fræðibókum á Íslandi. Guðmundur annaðist hönnun
bókanna á fyrstu stigum, með því að klippa texta og
myndir og líma á arkir. Síðan fylgdist hann náið með um-
broti og prentun í Odda, þar sem allar bækur hans voru
prentaðar, og var með í ráðum um litablöndun. Naut hann
mikillar velvildar bæði hjá forlagi og prentsmiðju, og
urðu sumir starfsmenn þar ævivinir hans, eins og sjá má
af minningargreinum. Við síðustu bækurnar fékk hann
aðstoð Blævar dóttur sinnar við umbrotið. Ensk þýðing á
Perlum kom út 1995, og nefnist Iceland the Enchanted.
Á árunum 1991–1992 gaf M&M út fjórar barnabækur
eftir Guðmund, í ritaröðinni „Milli himis og jarðar“, sem
báru nöfnin Land- og vatnafuglar, Sjófuglar, Húsdýrin og
Í fjörunni.
Næsta stórvirki Guðmundar Páls var Ströndin í náttúru
Íslands (1995), óskaverkefni, sem hann hafði lengi haft í
huga og viðað að sér efni til. Engu að síður krafðist þessi
bók meiri undirbúnings en fyrri stórbækur, og var þar
ekkert sparað í tíma og kostnaði. M.a. fékk hann einka-
flugmenn til að fljúga meðfram nær allri strönd landsins,
og sigldi sjálfur á gúmmíbát langar og iðulega hættulegar
sjóleiðir, að viðbættum óteljandi gönguferðum. Ströndin
er um margt nýstárlegust og merkilegust þeirra bóka sem
hann lét frá sér fara. Efnið er afar fróðlegt og fjölbreytt. Þar
eru prýðilegar myndir og teikningar af mörgum lífverum
fjöru og grunnsævis, m.a. frá hendi höfundar sjálfs, sem
áður birtust svarthvítar í ritsafninu Íslenzkir sjávarhættir.
Tvær minni bækur Guðmundar sáu dagsins ljós hjá
M&M árið 1997: Hraunið – jarðsaga fjölskyldunnar og Land
of lava – A geological saga, og sama ár kom út ensk þýðing af
Ströndinni, The coast of Iceland.
Fjórða stórbókin, Hálendið í náttúru Íslands, kom út árið
2000. Í eftirmála hennar segir höfundur að það hafi verið
Halldór Guðmundsson forstjóri M&M, sem beindi sér á þá
braut, og kveðst hafa verið ragur við að takast það verk á
hendur. Líklega var það „hernaðurinn gegn landinu“, sem
reið baggamuninn, vonin um að geta opnað augu manna,
og liðsinnt þeim sem börðust gegn þessum ósköpum. Það
var hins vegar ekki hlaupið að því að rita af viti um hið
víðáttumikla hálendi Íslands, þótt mikið efni lægi fyrir um
vissa hluta þess. Því var tekið til óspilltra mála við að afla
nýs farartækis, myndavéla og ferðabúnaðar, sem M&M
mun hafa lagt til að nokkru leyti. Farartækið var torfærubíll
sem hægt var að gista í og hafa matseld. Á þessum bíl fór
Guðmundur margar ferðir um Miðhálendið, iðulega aleinn,
og gat birst á ólíklegustu stöðum. Einnig fór hann nokkrar
flugferðir til myndatöku. Niðurstaðan varð makalaust
listaverk í máli og myndum og verða náttúrumyndabækur
frægra ljósmyndara dauflegar í samjöfnuði við það.
Þessar fjórar stórbækur Guðmundar eru ótrúlegt
þrekvirki, hvernig sem á þær er litið, og mér er til efs að
þær eigi nokkurn sinn líka í heiminum, a.m.k. ekki af hálfu
eins höfundar. Guðmundur undrast þetta sjálfur er hann
ritar í eftirmála Hálendisbókar sinnar:
„Hvernig má það vera að svo latur maður og hæggengur
sem ég er, skuli ekki hafa geispað golunni í miðjum klíðum, í
stað þess að hlotnast sú náð að ljúka þessum verkum án slysa
og gjaldþrots, án þess að missa heilsuna eða vitið? … Tvær
skýringar koma mér í hug, báðar ófrumlegar. Önnur felst í
orðum Jónasar „hulinn verndarkraftur“, sem mér finnst ávallt
vera til staðar. Hin er óttinn; að hlusta á óttann sem bærist í
brjósti; nota hann sem aðvörun, vera ærlegur við sjálfan sig.“
Mér dettur þó í hug þriðja skýringin, sú að eiga sér
hugsjón, setja sér markmið, og hafa það sífellt í huga. Því
má líkja við fjallgöngu manns á torfæran tind, er kemst
þangað að lokum eftir ómælt erfiði og þrautir. Mér er
vel kunnugt um ofurkapp Guðmundar og úthald við
bókagerðina, sem mér fannst stundum ganga úr hófi
fram. Rétt er þó að hafa í huga, að slíkar fræðibækur eru
ekki eins manns verk, og margir aðstoðarmenn komu að
undirbúningi þeirra á öllum vinnslustigum.
Fuglabók Guðmundar 1987, reyndist vel í sölu, það ýtti
undir að framhaldið yrði í sama stíl, og reyndin varð sú
að allar stórbækur Guðmundar seldust vel og öfluðu höf-
undi og forlagi frægðar og tekna. Þær voru og eru enn
mikið keyptar til gjafa. Fuglabókin kom í nýrri og endur-
bættri útgáfu 2005, og Perlurnar og Ströndin hafa verið
þýddar og gefnar út á ensku, sem fyrr segir.
Að sjálfsögðu er það ekki á færi fátæklinga að kaupa
þessar bækur, og ritara grunar að vegna stærðar og
glæsimynda hafi þær verið minna lesnar en æskilegt hefði
verið. Þar við bætist að letur er í smæsta lagi, miðað við
síðustærð. Líklega láta flestir sér nægja að fletta þeim og
skoða myndirnar, síðan verða þær iðulega stofustáss. Það
er þó ekki lítils virði að færa mönnum náttúru Íslands í
þessum búningi inn í stofu.