Náttúrufræðingurinn - 2014, Side 70
Náttúrufræðingurinn
70
Verndarstríð
Samhliða undirbúningi Hálendisbókarinnar einbeitti Guð-
mundur sér að verndun náttúrunnar, enda var þá skammt
í þau miklu átök sem urðu vegna stórvirkjana um
aldamótin. Hann var á þessum tíma í Náttúruverndarráði,
sem reyndi að hamla gegn stóriðjustefnunni, en dagar
þess voru brátt taldir, það var lagt niður í aldarlok. Guð-
mundur tók þá að rita ádeilugreinar og flytja erindi á
fundum um verndarmál. Fyrir það varð hann lands-
þekktur sem einarðasti talsmaður náttúruverndar á Ís-
landi. Gott dæmi um það er greinin Grát fóstra mín, er
birtist í Morgunblaðinu 19. jan. 1997, og hann segir sjálfur
að hafi lokað fyrir opinbera styrki til sín. Fræg varð
„eldmessa“ sú er hann flutti á baráttufundi í Rvík í nóv.
1998, þar sem hann líkti náttúruspjöllum á hálendinu við
handritabrennur.
Hann lét þó ekki sitja við orðin tóm. Mörgum er í fersku
minni sjónvarpsfrétt frá sumrinu 1998, þegar hann setti
upp fánaröð við hverina á Köldukvíslaraurum, þegar
þeim var sökkt í Hágöngulón þetta sumar. Síðsumars 2002
skipulagði hann stöðvun vinnuvéla við lagningu Kára-
hnjúkavegar. Í frægu sjónvarpsviðtali mátti sjá hann rífa
eina síðu af annari úr Hálendisbók sinni, með þeim orðum
að þessa staði væri búið að skemma, eða fyrirhugað
væri að spilla þeim með virkjunum. Ritari verður að
viðurkenna, að honum fannst sinn gamli félagi stundum
fara offari í þessum málflutningi, en kannski er það
nauðsynlegt til að eftir sé tekið.
Bók Guðmundar, Um víðerni Snæfells, var gefin út
af M&M 2003. Fjallar hún um öræfin kringum Snæfell,
sem þá voru orðin leikvangur framkvæmda Kára-
hnjúkavirkjunar. Þetta er engin stórbók, aðeins 135 bls.
í meðalbroti, en gefur gott yfirlit um landslag og líf-
ríki þessa svæðis. Árið 2007 kom út bókin Þjórsárver, og
„fjallar um stríð sem staðið hefur í hálfa öld, að mestu
fjarri kastljósi fjölmiðla“, eins og segir á kápu. Guð-
mundur hafði lengi látið sér annt um þessa hálendisvin,
sem friðlýst var 1981, en hefur stöðugt verið sótt að með
virkjunarlónum. Hann rekur þá sögu í þessari fallegu
bók. Guðmundur var einn af stofnendum Auðlindar–
Náttúrusjóðs, sem Þröstur bróðir hans stýrir nú, og hefur
m.a. styrkt dómsmál gegn náttúruspjöllum.
„Svanasöngurinn“
Sumarið 2009 kom ég því loksins í verk að heimsækja
Guðmund fornvin minn í Stykkishólm og Flatey. Ég hafði
ekki komið í Flatey áður, og dáðist mjög að því gamla
og endurbyggða þorpi sem þar gat að líta. Margt var
rætt á kvöldin þessa daga, og kom þá m.a. fram að Guð-
mundur hafði nýja stórbók á prjónunum, er skyldi fjalla
um vatnið í hinum ýmsu formum, ekki bara á Íslandi,
heldur á heimsvísu! Þetta þótti mér næsta fífldjörf áætlun
og sagði honum það, en hann skellti skollaeyrum við
slíku tali. Til að undirbúa þetta stórvirki fór Guðmundur
í nokkrar heimsreisur, fyrst til Suður-Ameríku, síðan
til Afríku og Asíu. Þessar ferðir kallaði hann „Að fylgja
vötnum.“ Síðustu ferðina fór hann að mestu einn síns liðs.
Hann kom til baka reynslunni ríkari og með gríðarlegan
forða af myndum. „Ýmislegt breytist við svona heims-
reisu, og þar með andinn sem yfir svífur,“ ritar hann í
bréfi til mín 12. desember 2011.
Guðmundur ætlaði nú að einbeita sér að Vatnabókinni,
en þá greip sá í taumana sem voldugri er. Í síðustu ferð-
inni hafði hann kennt magaveiki, og rannsókn leiddi í ljós
krabbamein á hættulegu stigi. Haustið 2010 gekkst hann
undir uppskurð og tilheyrandi lyfjakúr, og gáfu læknar
góðar vonir um bata, en ekki leið á löngu þar til aftur syrti
í álinn. Hann vann samt ótrauður við vatnabókina næstu
mánuði, og setti sér það takmark að ljúka henni áður en
yfir lyki. Það náðist ekki, því að hann lést 30. ágúst 2012,
og fór útför hans fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 6.
sept., að viðstöddu fjölmenni. Þar héldu nokkrir vinir
hans ræður og fluttu tónlist.
Þegar sýnt var hvert stefndi, tóku Blær dóttir hans,
Leifur Rögnvaldsson systursonur og Guðmundur Andri
Thorsson rithöfundur, að sér að ljúka verkinu. Það var
Guðmundi mikill léttir og vinum hans harmabót áður
en hann lést. Blær hafði langa reynslu af samstarfi með
honum og þau voru þegar byrjuð að raða upp efni í
Vatnabókina. Leifur hafði verið lærisveinn frænda síns
í ljósmyndafræðum, og tók að sér myndaval í bókina,
sem var hið mesta torræði, vegna þess gríðarlega fjölda
mynda er hann hafði safnað á ferðum sínum. Guðmundur
Andri annaðist ritstjórn bókarinnar hjá forlagi og ritaði
snjallan formála eins og honum er lagið, en Blær og Leifur
rituðu eftirmála. Hilmar J. Malmquist lagði til kafla
um miðlunarlón og fossa, og Þóra Ellen Þórhallsdóttir
ritaði kafla um stórvirkjanir á Íslandi, og falla þeir vel að
öðru efni bókarinnar. Í eftirmála Blævar er getið margra
annarra, sem lögðu lið sitt við lokafrágang bókarinnar.
Um það farast henni svo orð:
„Víst er að efniviðurinn er brýnn, og það hefur haldið okkur
gangandi oft og tíðum, að boðskapurinn yrði að komast til
skila, sem fyrst. Söknuðurinn er mikill, og við unnum þessa
bók ávallt með pabba í huga, og bókin varð okkar hjartans
mál, eins og hans. Pabbi tileinkaði þessa bók vináttu, ást og
samvinnu manna á milli. Um það hefur vinnsla bókarinnar
snúist. Að vinna með fólki sem er sérfræðingar á sínu sviði er
eitt, en að finna væntumþykjuna, jákvæð viðbrögð og sam-
huginn úr öllum áttum, við að koma bókinni út, hefur verið
einstök upplifun, og þakklæti í hjörtum okkar er mikið til
allra þeirra sem lögðu verkinu lið.“
Hér stendur Guðmundur Páll við hliðina á fjallabíl sínum and-
spænis jarðýtu við ruðning Kárahnjúkavegar, 31. ágúst 2002.
Ljósm.: Helgi Hallgrímsson.