Bókasafnið - 01.06.2015, Qupperneq 34
34
Bókasafnið 39. árg. 2015
þyrfti tillit til sjónarmiða sem flestra. Í fundargerðxi eru um-
ræður raktar og verða hér birtar nokkrar glefsur úr henni:
Aðstoðarrektor vísinda og kennslu sagðist styðja fyrirliggj-
andi drög að stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að
rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum. Það væri kostur
að drögin væru ekki eins afdráttarlaus og til dæmis stefna
Rannís heldur væri meginreglan sú að birta í opnum aðgangi
um leið og gert væri ráð fyrir undanþágum eftir því sem við á.
Þetta væri í samræmi við stefnu háskóla á borð við Harvard í
Bandaríkjunum. Háskóli Íslands legði áherslu á birtingar á
vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur og of afdráttar-
laus stefna mætti ekki verða til að vinna gegn því markmiði.
Því væri skynsamlegt að hafa sveigjanlega stefnu, fylgjast
með þróuninni á alþjóðlegum vettvangi og endurskoða stefn-
una eftir ástæðum að fáum árum liðnum. Loks sagðist að-
stoðarrektor ekki hrifinn af hinni svokölluðu „gullnu leið“ þar
sem greiða þyrfti verulegar fjárhæðir fyrir birtingar.
Deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar sagði það
vera sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að birta sem
mest í opnum aðgangi, en tók jafnframt undir sjónarmið að-
stoðarrektors og sagðist styðja framlögð stefnudrög.
Deildarforseti Jarðvísindadeildar sagði það vera mikilvægt
að Háskóli Íslands fylgdi þeim meginstraumum sem ríktu í
hinum alþjóðlega vísindaheimi – og straumurinn lægi í átt til
birtingar í opnum aðgangi.
Varadeildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideild-
ar þakkaði starfshópnum fyrir góða vinnu og Elínu Soffíu fyrir
kynninguna. Hann lýsti ánægju með fyrirliggjandi stefnudrög
og sagði þau skynsamlegri en stefnu Rannís um opinn aðgang
sem byggði á „gullnu leiðinni“. Í ljósi alls þessa sagði varadeild-
arforsetinn réttast að banna „gullnu leiðina“ innan Háskóla Ís-
lands.
Varadeildarforseti Raunvísindadeildar þakkaði fyrir góðar
umræður og sagðist taka undir margt af því sem fram hefði
komið. Lýsti hann þeirri skoðun sinni að hann væri almennt
mjög fylgjandi opnum aðgangi og væri að sama skapi algjör-
lega mótfallinn því að greiða fyrir birtingar í tímaritum sem
reka sig á áskriftum, enda væri þá verið að tvígreiða fyrir birt-
inguna.
Varaforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar
kvaddi sér aftur hljóðs og vakti athygli á því að ósamræmi
væri á milli þess að styðja opinn aðgang annars vegar en
heimila um leið að lokaverkefni nemenda gætu verið lokuð
jafnvel árum saman. ... Örðugt væri að koma auga á að lokarit-
gerðir nemenda á Íslandi geymdu svo mikilvæg leyndarmál
að það réttlæti lokun þeirra. Í lok fundar bar rektor upp svo-
hljóðandi tillögu til ályktunar:
Háskólaþing ályktar að fela rektor að halda áfram vinnu við
mótun stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rann-
sóknaniðurstöðum og lokaverkefnum, á grunni tillagna
starfshóps um málið og umsagna og umræðna á háskóla-
þingi 19. apríl 2013, og leggja fyrir háskólaráð. Fyrir liggur
að hér er á ferðinni flókið mál sem er í örri þróun á alþjóð-
legum vettvangi. Háskóli Íslands þarf því að fylgjast vel með
áframhaldandi þróun málsins, kynna það vandlega innan
háskólans og vanda til verka við mótun stefnu sinnar.
Tillagan var samþykkt einróma.
Snemma í maí 2013 spunnust umræður um stefnuna á
póstlista háskólamanna, hi-starf. Þær umræður snerust að
miklu leyti um höfundarrétt og hvort háskólinn ætti rétt á að
skylda starfsmenn sína til að veita vísindasviði rafrænan að-
gang að vísindagreinum sínum. Kennari við lagadeild hóf
umræðuna í byrjun maí og efaðist um að stefnan væri lögleg
ef horft væri til höfundarréttarlaga. Í huga hans jafngilti stefn-
an stuldi ef starfsmönnum háskólans yrði skylt að afhenda
rannsóknarniðurstöður sínar til birtingar án endurgjalds og
sagði að hlúa þyrfti að höfundaréttinum og vernda hann.
Annar prófessor (í læknadeild), svaraði og benti á að langflest
vísindatímarit krefðust þess að greinarhöfundar afsöluðu sér
höfundarrétti sínum til útgefandans. Einnig spurði hann hvort
það væri klausan „án endurgjalds“ sem færi fyrir brjóstið á
lagaprófessornum. Hann skrifaði: „Ég tel að laun mín frá HÍ
ásamt því að hið opinbera styrkir að verulegu leyti mína vís-
indavinnu leggi einhverjar skyldur á herðar mér. ... Ef að þetta
[að opna aðgengi] stangast á við lög ... þá kemur væntanlega
til greina að breyta lögunum ...“. Annar lögfræðingur blandaði
sér í umræðuna og vildi meina að fara bæri að lögum hvort
sem einstaklingar væru með eða á móti opnum aðgangi. Vís-
aði hann á mun milli bandarískra og íslenskra höfundarréttar-
laga og ræddi um muninn á nytjarétti og sæmdarrétti. Pró-
fessorinn í læknadeild svaraði því til að hann teldi að íslensk
höfundarréttarlög væru komin í öngstræti. Hann sagði: „Ég
veit um mjög fáa vísinda- og fræðimenn sem líta á rannsókn-
arniðurstöður og þá nýju þekkingu sem úr henni kemur sem
mikilvæga eign sína (út frá nytjaréttarhugtakinu). Sæmdar-
rétturinn er þó ákaflega mikilvægur og hann er varinn með
open access hugmyndafræðinni.“ Mánudaginn 6. maí skrifaði
landsbókavörður, Ingibjörg S. Sverrisdóttir, á póstlistann og
tók upp hanskann fyrir opinn aðgang. Benti hún á kostnaðinn
af því að kaupa aðgang að dýrum tímaritasöfnum, að lítil fyrir-
tæki yrðu óhjákvæmilega undir, fákeppni ykist og það myndi
með tímanum leiða til enn hærra verðs. Minnti hún á Skemm-
una, varðveislusafn háskólanna í landinu. Bar hún að lokum
opinn aðgang saman við skylduskil og sagði:
Upphaflega hugmyndin með skylduskilum var að varð-
veita eintök af öllu útgefnu efni í hverju landi, þannig að
allir gætu haft tækifæri til að skoða það. Það má velta því
fyrir sér hvort skylduskilin séu undanfari Open Access.
Hugsunin er sú sama – að veita aðgang að hugverkum.
Aðrir sem tóku þátt í umræðunni vildu ræða málið út frá öðr-
um sjónarmiðum en lagalegum. Skrifað var um vanda ís-
lenskra tímarita og óttaðist einn kennari að stefnan væri nán-
ast dauðadómur yfir íslenskum fræðatímaritum. Öðrum kenn-
ara fannst að birting greina í varðveislusafni myndi gera
mönnum erfitt fyrir að vitna í þær. Að lokum er birtur hér út-
dráttur úr pósti frá Þorsteini Vilhjálmssyni, prófessor emeritus
í eðlisfræði og vísindasögu. Hann skrifaði:
Klókir menn hafa sagt að í vísindum á enginn neitt fyrr en
hann hefur látið það frá sér og er þá átt við birtingu á opn-