Morgunblaðið - 13.08.2016, Qupperneq 28
28 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 13. ÁGÚST 2016
hafðu það notalegt
handklæðaofnum
Vagnhöfða 11 - 110 Reykjavík - www.ofnasmidjan.is - sími 577 5177
Eigum úrval af
Ítungutaki er fátt meira heillandi og svalandi en sá mikli sköpunar- ogsprengikraftur sem orð og orðasambönd geta búið yfir. Á því sviði(sem öðrum) erum við Íslendingar heppin með okkar móðurmál sam-anborið við ýmsar tungur, okkur leyfist nefnilega í ríkari mæli en
flestum að stunda nýyrðasmíð og búa til samsetningar að vild. Mörg orð sem
myndast hafa á þennan hátt eiga hjá okkur greiðari leið inn í almennt og við-
urkennt mál en boðlegt þykir meðal ýmissa annarra þjóða. Að nokkru leyti
getur þetta kallast skemmtileg aukaafurð hreintungustefnunnar og vert að
fólk haldi því á lofti næst þegar það heyrir talað illa um hana eins og mikill
siður hefur verið lengi.
Öll tungumál eiga sér þó einn vettvang þar sem nýsköpun og gerjun á sér
kjörlendi. Það er slangrið. Þegar flett er slangurorðabókum á ýmsum
tungum virðist oft sem enginn endir geti verið á hugkvæmninni. Sérhver
blaðsíða beinlínis angar af
sérstæðri menningar- og
menningarkimasögu, húmor
og frjóum hugrenninga-
tengslum, ótrúlegum frum-
leika og skáldlegri hittni,
jafnvel upphafningu. Eða þá
hressandi dónaskap og
ósvífni sem svífur á mann. Feluleikur og afhjúpun á víxl.
Hið sama gildir auðvitað um íslenskt slangur. Nægir þar að minna les-
endur á hina ágætu Orðabók um slangur slettur bannorð og annað ut-
angarðsmál eftir þá Mörð Árnason, Svavar Sigmundsson og Örnólf Thorsson
sem Svart á hvítu gaf út 1982. Þar er margan gullmolann að finna og kemur í
raun lítt að sök þó margt sé þar orða sem nú má kalla „úrelt“ og sum einnig
sem frá upphafi voru kannski of einkaleg eða bundin við of þrönga hópa til að
komast í brúk. En slíkt þarf engan undra, því það liggur einmitt í eðli slang-
urs að það er tímanlegt og eldist hratt þó auðvitað geti það alltaf af sér hreina
klassík inn á milli. Orð sem enginn lítur lengur á sem slangur. Mikill fengur
er einnig að formálanum þar sem vel og fræðilega er tekið á viðfangsefninu.
Þessi ágæta bók hefur verið ófáanleg lengi og raunar má svo sem segja að
flestar slangurbækur og allar orðabækur séu að verða óþarfar og því ófáan-
legar í raunheimum. Þeim mun meiri virðist hinsvegar gróskan á netinu,
enda hægara um vik þar að auka í og fella úr, endurnýja og viðhalda, en í
hefðbundinni pappírsútgáfu.
Íslenskt slangur hefur eignast öflugan og aðgengilegan vettvang í net-
heimum: Lesendur ættu að vinda bráðan bug að því að ánetjast gagnvirku
Slangurorðabókinni sem þeir Einar Björn Magnússon og Guðlaugur Jón
Árnason ritstýra á slóðinni slangur.snara.is.
Annars er pappírinn l.s.g. ekki endanlega dottinn út: Nýlega er útkomin
34. útgáfan af Pétrísk-íslenskri orðabók sr. Péturs Þorsteinssonar, æsku-
lýðsfulltrúa á Grund. Þar er margan fjársjóð að finna sem fellur undir skil-
greininguna á slangri.
Slangur
Tungutak
Þórarinn Eldjárn
thorarinn@eldjarn.net
Fyrir rúmum tveimur vikum var gerð op-inber skýrsla, sem æðsti eftirlitsaðili Al-þjóða gjaldeyrissjóðsins (IndependentEvaluation Office) hefur tekið saman um
aðgerðir sjóðsins í málefnum Grikklands og sam-
starf hans við ESB og Seðlabanka Evrópu í því
sambandi. Um er að ræða eins konar innra eftirlit,
sem sendir skýrslur sínar og athugasemdir beint til
æðstu stjórnar sjóðsins. Í ljósi þess að sjóðurinn
kom mjög við sögu hér á Íslandi í nokkur ár í kjöl-
far hrunsins vegna þeirrar aðstoðar sem þjóðin
naut frá sjóðnum um skeið hlýtur skýrsla þessi að
vekja athygli hér og vekja jafnframt spurningar um
hvað raunverulega gerðist í samskiptum sjóðsins og
íslenzkra stjórnvalda á þeim árum.
Ambrose Evans-Pritchard, alþjóðlegur við-
skiptaritstjóri brezka dagblaðsins Daily Telegraph,
segir í blaði sínu hinn 29. júlí sl. að æðstu starfs-
menn sjóðsins hafi afvegaleitt stjórn hans, gerzt
sekir um afdrifaríkan dómgreindarskort í málefnum
Grikklands, gerzt klappstýrur evrunnar, haft að
engu vísbendingar um krísur framundan og ekki
skilið grundvallaratriði í gjaldmiðlamálum.
Evans-Pritchard segir skýrsluna versta áfall, sem
sjóðurinn hafi orðið fyrir í sögu sinni. Hún lýsi
„kúltúr“ kæruleysis innan stofnunarinnar, sem hafi
tilhneigingu til „yfirborðslegra og
vélrænna“ greininga og „sjokk-
erandi“ stjórnunarmistaka, sem
veki spurningar um hver raunveru-
lega stjórni sjóðnum.
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er
ekki evrópsk stofnun heldur al-
þjóðleg. Í stjórn sjóðsins sitja
fulltrúar frá ríkjum Mið-og Suður-
Ameríku svo og frá Asíuríkjum.
Þeir hafi reiðst mjög vegna skýrslunnar, sem leiði í
ljós, að Grikkland, Portúgal og Írland hafi fengið
aðstoð, sem nam 2000% meira en kvóti þeirra sagði
til um og nam í heild 80% af öllum lánveitingum
sjóðsins á árunum 2011 til 2014.
Í skýrslunni kemur fram, að eftirlitsaðilar hafi
ekki fengið aðgang að lykil-upplýsingum og ekki
fengið upplýsingar um athafnir tímabundinna verk-
efnahópa. Skjöl hafi verið gerð utan reglulegra
verkferla, skriflegar skýrslur um viðkvæm málefni
hafi ekki fundizt og í sumum tilvikum hafi eftirlits-
aðilinn ekki getað sannreynt hverjir tóku ákvarð-
anir.
Opinberar yfirlýsingar sjóðsins um evruna áður
en hún varð til hafi verið jákvæðar og viðvörunar-
orð sumra starfsmanna um að skekkja væri í
grundvallarhugmyndinni hafi verið höfð að engu.
Þessi afstaða hafi „spillt“ hugsun starfsmanna um
evruna næstu árin á eftir og valdið því að sjóðurinn
hafi lýst trausti á evrópska bankakerfinu og gæðum
bankaeftirlits ESB þar til fjármálakreppan skall á á
miðju ári 2007. Ástæðan hafi verið sú, að starfs-
menn sjóðsins hafi tekið gagnrýnislaust við því sem
stjórnvöld í evrulöndum og evrukerfinu sögðu þeim.
AGS hafi sofið á verðinum. Jafnvel á miðju ári 2007
hafi sjóðurinn sagt að vegna aðildar Grikkja að evr-
unni stæðu þeir ekki frammi fyrir neinum fjármögn-
unarvanda.
Ambrose Evans-Pritchard segir að í skýrslunni
komi fram, að það hafi aldrei verið viðurkennt að að-
gerðirnar í Grikklandi hafi í raun verið aðgerðir til
að verja evrópska gjaldmiðilskerfið en óréttlætið hafi
verið fólgið í því að það hafi verið gert á kostnað al-
mennra borgara í Grikklandi.
Þetta er harður dómur yfir starfsmönnum Alþjóða
gjaldeyrissjóðsins og vinnubrögðum þeirra en skýrsl-
an hlýtur að kalla á umræður hér. Öllum var ljóst að
lánveitingum AGS til Íslands í kjölfar hrunsins
fylgdu skilyrði. Innan stjórnkerfisins hér var fólki
sömuleiðis ljóst að mikill þrýstingur var frá starfs-
mönnum sjóðsins á ýmiskonar aðgerðir, m.a. nið-
urskurð opinberra útgjalda til viðkvæmra mála-
flokka. Það var hins vegar farið svo „vel“ með þessi
samskipti, ef svo má að orði komast, að sviptingar
milli sjóðsins og íslenzkra
stjórnvalda komust aldrei í há-
mæli.
Það má hins vegar vel vera,
að sum þeirra deilumála, sem
nú eru uppi hér heima fyrir eigi
rætur að rekja til þess að rík-
isstjórn Jóhönnu Sigurð-
ardóttur hafi talið sig knúna til
að hlýða Alþjóða gjaldeyr-
issjóðnum. Og það má vel vera að gamlir sósíalistar í
ríkisstjórn hennar eða á hennar vegum eigi erfitt
með að kyngja því að þeir hafi í raun verið sendi-
sveinar alþjóðlegra fjármálaafla.
En þrátt fyrir þá sálrænu erfiðleika er hin nýja
skýrsla um vinnubrögð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til-
efni til þess að hulunni verði svipt af samskiptum
stjórnvalda hér og AGS.
Hvaða kröfur gerði sjóðurinn um niðurskurð á
fjárlögum? Hvað vildi hann skera niður? Að hve
miklu leyti var orðið við þeim kröfum?
Hvers vegna tók fyrsta hreina félagshyggjustjórn-
in í sögu íslenzka lýðveldisins ákvörðun um að af-
henda erlendum kröfuhöfum tvo ríkisbanka af þrem-
ur? Þegar það var gert var nærtækt að ætla að hún
hefði ekki átt annan kost af fjárhagslegum ástæðum.
En var ástæðan kannski sú, að AGS hefði verið að
ganga erinda erlendra kröfuhafa eins og sjóðurinn
gerði, þegar hann var að bjarga evrópskum bönkum
með því að pína grískan almenning?
Núverandi stjórnarflokkar hafa aðgang að gögnum
um þessi mál núna. Það er ekki víst að svo verði eftir
kosningar.
Þess vegna eiga þeir að birta upplýsingar um sam-
skipti AGS og stjórnvalda hér fyrir kosningar.
AGS í Grikklandi og á Íslandi
Er erfitt fyrir gamla sósíal-
ista að kyngja því að þeir
hafi verið sendisveinar er-
lendra fjármálaafla?
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Samkennarar mínir í stjórn-málafræðideild hafa talað fyrir
auknu gagnsæi í stjórnmálum. Hæg
eru heimatök, því að Margrét S.
Björnsdóttir starfar í deildinni, en
2009-2013 var hún formaður fram-
kvæmdastjórnar Samfylking-
arinnar. Árið 2009 reis hneyksl-
unaralda vegna hárra styrkja
fyrirtækja til stjórnmálaflokka árið
2006, áður en reglum var breytt. Þá
gaf Samfylkingin þær upplýsingar,
að flokkurinn hefði þegið 36 millj-
ónir kr. frá fyrirtækjum árið 2006.
Í ljós kom, þegar Ríkisendurskoðun
fór löngu seinna yfir málið, að
flokkurinn hafði fengið 102 milljónir
kr. frá fyrirtækjum það ár. Nú
ættu samkennarar mínir að spyrja
Margréti, hvað valdi þessu mis-
ræmi. Þurfum við ekki aukið
gagnsæi?
Fleira er hnýsilegt. Tveir aðilar
styðja Samfylkinguna: Sigfús-
arsjóður og Alþýðuhús Reykjavíkur
ehf. Þeir eiga saman húsnæði það,
sem Samfylkingin hefur til afnota,
og veita henni styrki. Sigfús-
arsjóður var stofnaður til að halda
utan um eignir Sósíalistaflokksins,
sem starfaði 1938-1968. Þótt flokks-
menn væru aðeins eitthvað á annað
þúsund, átti flokkurinn tvö stór
hús, Tjarnargötu 20 og Skólavörðu-
stíg 19. Hefur væntanlega eitthvað
af hinum stóru styrkjum, sem Sósí-
alistaflokkurinn fékk frá Moskvu,
verið notað til að eignast þau. Sig-
fúsarsjóður varð síðan fjárhags-
legur bakhjarl Alþýðubandalagsins
og loks Samfylkingarinnar. Hann
er sjálfseignarstofnun, en hefur
ekki skilað ársreikningi í meira en
áratug. Hvað er mikið í sjóðnum?
Hverjir ráða honum? Hvernig eru
þeir valdir? Hvernig styðja þeir
Samfylkinguna? Þessu getur Mar-
grét eflaust svarað.
Alþýðuhús Reykjavíkur ehf. var
stofnað til að halda utan um eignir
Alþýðuflokksins, sem starfaði 1916-
1998. Flokkurinn átti Iðnó og Al-
þýðuhúsið, sem var selt 2001 fyrir
222 milljónir kr. og breytt í Hótel
101. Að núvirði er söluverðið 478
milljónir kr. Stofnuð voru félögin
Fjalar og Fjölnir til að fara með
eignir Alþýðuhússins, en engar
upplýsingar fást um þau. Í skjölum
ríkisskattstjóra eru þau skráð er-
lendis, en forsvarsmenn Alþýðu-
hússins vísa því á bug og bera við
skráningarörðugleikum. En hvað
varð um 478 milljónirnar? Hvað
gera Fjalar og Fjölnir? Hverjir
ráða Alþýðuhúsi Reykjavíkur ehf.?
Hvernig eru þeir valdir? Hvernig
styðja þeir Samfylkinguna? Þessu
getur Margrét eflaust svarað.
Við þurfum aukið gagnsæi.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Gagnsæi og huldufélög