Dagblaðið Vísir - DV - 24.03.2015, Blaðsíða 14

Dagblaðið Vísir - DV - 24.03.2015, Blaðsíða 14
Vikublað 24.–26. mars 201514 Fréttir Erlent SkuggaStjórnandi á allt undir á ÍSlandi n „Við tjáum okkur ekki um starfsemi sjóðsins,“ segir Jeremy Lowe í samtali við DV n Stærsti kröfuhafi Íslands n Sent út yfir 70 fréttabréf til kröfuhafa E nginn einn kröfuhafi á jafn mikið undir skuldaskilum föllnu bankanna, nú þegar styttist í að stjórnvöld op­ inberi stefnu sína um losun fjármagnshafta, og bandaríski vog­ unarsjóðurinn Davidson Kempner. Og enginn einn einstaklingur á um leið meiri hagsmuna að gæta við úthlutun eigna úr gömlu bönkun­ um en Jeremy Clement Lowe, mað­ urinn sem hefur stýrt umsvifum vogunarsjóðsins hér á landi. Líklegt er að endurheimturnar eigi eftir að reynast umtalsvert minni en Jer­ emy – einnig þekktur sem „Herra Ísland“ eða J. Lo – hafði reiknað með fyrir aðeins fáeinum árum. Í samtali við DV í gær sagðist Jer­ emy aðspurður ekki vilja ræða neitt við blaðamann, hvorki um umsvif sjóða á vegum Davidson Kempner á Íslandi né skoðanir sínar í tengsl­ um við áform stjórnvalda um los­ un fjármagnshafta. „Það er opinber stefna sjóðsins að tjá sig ekki um starfsemi sína,“ sagði Jeremy. Eign­ ir í stýringu hjá Davidson Kempner eru um 22 milljarðar Bandaríkja­ dala, jafnvirði 3.000 milljarða ís­ lenskra króna, eða sem nemur um 150% af landsframleiðslu Íslands. Í árslok 2013 var sjóðurinn talinn vera tólfti stærsti vogunarsjóður heims. Þrátt fyrir að hafa verið viðloð­ andi Ísland frá árinu 2009, þar sem honum hefur tekist að byggja upp víðtækt tengslanet, þá er fremur lítið vitað um Jeremy. Ekki er að finna neinar myndir af honum á netinu og fyrir utan eina mynd sem birtist í viðskiptablaði Morgun­ blaðsins í apríl 2014, þar sem sést glitta í Jeremy á meðal annarra fundargesta á kröfuhafafundi Glitnis, þá hefur í reynd aldrei birst mynd af honum í íslenskum fjöl­ miðlum – fyrr en núna í DV. Stærsti kröfuhafinn Jeremy, sem er fertugur Breti og endurskoðandi að mennt, var ráð­ inn til starfa árið 2009 hjá David­ son Kempner European Partners í London, dótturfélagi bandaríska vogunarsjóðsins. Áður hafði hann starfað hjá Citibank þar sem Jer­ emy hafði komið að viðskiptum með kröfur á gömlu íslensku bank­ ana skömmu eftir fall þeirra haustið 2008. Samkvæmt heimildum DV þá var það með ráðningu á Jeremy að Davidson Kempner fór að fjárfesta í kröfum á íslensku slitabúin af miklum móð en sjóðurinn sérhæf­ ir sig einkum í fjárfestingum í svo­ nefndum „löskuðum skuldum“ (e. distressed debt) gjaldþrota einka­ fyrirtækja. Þær fjárfestingar hafa verið gerðar í gegnum Burlington Loan Management, írskt skúffufé­ lag sem var stofnað í apríl 2009, og er í eigu tólf sjóða á vegum David­ son Kempner. Ekki er hægt að kom­ ast yfir upplýsingar um hverjir séu endanlegir eigendur hlutdeildar­ skírteina þeirra sjóða. Umsvif sjóðsins á Íslandi juk­ ust hröðum skrefum næstu árin og fljótlega varð Burlington stærsti einstaki kröfuhafi íslensku slitabú­ anna. Sú staða hefur haldist meira og minna óbreytt. Samkvæmt nýju­ stu kröfuskrá Glitnis, sem var lögð fyrir kröfuhafafund fyrr í þessum mánuði og DV hefur undir hönd­ um, þá var Burlington sem fyrr stærsti kröfuhafi Glitnis en kröf­ ur sjóðsins nema 8,5% allra sam­ þykktra krafna á hendur slitabú­ inu. Að nafnvirði nema kröfurnar 194 milljörðum en áætlað mark­ aðsvirði þeirra, miðað við núver­ andi gangverð krafna Glitnis, er um 55 milljarðar króna. Rétt eins og áður hefur verið greint frá í DV þá seldi Burlington nýlega kröfu að fjárhæð 44 milljarðar að nafnvirði til vogunarsjóðs í eigu auðjöfursins George Soros. Kaupir kröfur á LBI Eftir að hafa verið einnig í hópi allra stærstu kröfuhafa slitabús Kaup­ þings þá seldi Burlington megnið af kröfum sínum á bankann á ár­ inu 2013. Í dag á sjóðurinn kröf­ ur á Kaupþing fyrir aðeins um 8 milljarða að nafnvirði. Á sama tíma hefur Burlington hins vegar beint sjónum sínum í auknum mæli að slitabúi gamla Landsbankans (LBI) og keypt umtalsvert af almenn­ um kröfum á búið síðustu mánuði. Þannig sýnir nýjasta kröfuskrá LBI, sem DV hefur undir höndum, að Burlington Loan Management á orðið samþykktar almennar kröf­ ur á slitabúið fyrir um 95 milljarða að nafnvirði. Nema kröfur í nafni sjóðsins tæplega 6% allra sam­ þykktra almennra krafna LBI og er áætlað markaðsvirði krafnanna lík­ lega í kringum tíu milljarðar króna. Þá er talið að Deutsche Bank, sem keypti umtalsvert af forgangskröf­ um á LBI á liðnu ári, meðal annars Icesave­kröfu hollenska seðlabank­ ans sl. haust, sé aðeins milliliður fyrir hönd vogunarsjóða á borð við Burlington Loan Management. Ómögulegt er þó að komast yfir nákvæmar upplýsingar um raun­ verulegt eignarhald sjóða David­ son Kempner á kröfum á hendur föllnu bönkunum. Heimildarmenn DV, sem þekkja vel til í hópi stærstu kröfuhafa, fullyrða að þær kröfur sem eru í nafni Burlington Loan Management séu aðeins lítill hluti af heildarkröfum sjóða Davidson Kempner á slitabúin – hann eigi einnig kröfur í nafni annarra sjóða eða fjármálafyrirtækja. Þannig er það mat sömu heimildarmanna að kröfur sjóðsins á Glitni séu að lík­ indum nær því að vera þriðjungur allra samþykktra krafna á hendur slitabúinu. Tögl og hagldir í Lýsingu Fyrir utan kröfur á föllnu bankana þá er Burlington Loan Management einn af stærstu hluthöfum Lýsingar, í gegnum eignarhald sitt á Klakka, auk þess að vera lánveitandi félags­ ins eftir að sjóðurinn keypti 26 millj­ arða skuldir Lýsingar af Deutsche Bank undir árslok 2013. Hefur fé­ lagið því í raun tögl og hagldir innan Lýsingar. Þá hefur sjóðurinn einnig keypt hluti á Bakkavör Group og á tæplega 7% eignarhlut í félaginu. Sjóðir Davidson Kempner eru einnig taldir vera á meðal eigenda ALMC, áður Straumur­ Burðar­ ás­fjárfestingabanki, í gegnum eignarhald sitt á hlutdeildarskír­ teinum sem eru í nafni Deutsche Bank AG í Amsterdam. Verðmæti eigna Burlington í ís­ lenskum félögum, sem Jeremy hef­ ur yfirumsjón með, hleypur því á tugum milljarða, ef ekki nærri hundrað milljarðar króna. Fram kom í ársreikningi Burlington fyr­ ir árið 2013 að 18% af heildareign­ um sjóðsins – samtals 4,1 milljarður dala – séu á Íslandi. Nam kaupverð þeirra eigna liðlega hundrað millj­ örðum króna miðað við gengi dags­ ins í dag. Rétt er að hafa í huga að hlutur félagsins í Bakkavör er skráð sem bresk eign. Vefritið Kjarninn hafði áður greint frá niðurstöðu árs­ reiknings Burlington í ágúst í fyrra. Ræður ferðinni Heimildarmenn DV segja ljóst að Jeremy eigi sjálfur persónulega mikið undir því að fjárfesting sjóða Davidson Kempner á Íslandi skili þeim ávinningi sem lagt hafi verið upp með. Hann hafi „selt“ stjórn­ endum sjóðsins Ísland á sínum tíma og framgangur hans innan fyr­ irtækisins, til dæmis að gerast hlut­ hafi Davidson Kempner, muni ráð­ ast af því hver niðurstaðan verður af fjárfestingum sjóðsins á Íslandi. „Hann á allt undir,“ útskýrir einn viðmælenda DV, og bendir á að fjár­ festingar Jeremys í nafni Burlington séu í raun þær fyrstu – og einu – sem hann hafi nokkurn tíma bor­ ið ábyrgð á. Hann hafi með öðrum orðum tekið veðmál á Ísland. Jeremy hefur löngum verið þekktur undir nafninu „Herra Ís­ land“ vegna þeirra miklu hagsmuna sem sjóðurinn sem hann stýrir á að gæta hér á landi og þess víð­ tæka tengslanets sem Jeremy hefur sömuleiðis byggt upp á Íslandi. Ítök og áhrif Jeremys eru mikil, bæði í hópi sumra af stærstu kröfu höfum bankanna en ekki síður á meðal slitastjórnar Glitnis og helstu ráð­ gjafa kröfuhafa. Honum er lýst sem skuggastjórnanda sem hefur ráð­ ið miklu um stefnu slitastjórna og kröfuhafa undanfarin ár. Þrátt fyrir að viðmælendur DV séu sammála um að Jeremy komi þeim fyrir sjónir sem viðkunnan­ legur en alvarlegur maður þá ít­ reka þeir að hann sé engu að síð­ ur harður í horn að taka. Hann hafi enda mjög ákveðnar skoðan­ ir á því hvaða leiðir skuli farnar og fáir – ef nokkrir – hafi betri heildar­ mynd yfir stöðuna. Þá sýna listar yfir þátttakendur á kröfuhafafund­ um Glitnis og gamla Landsbank­ ans, sem DV hefur undir höndum, að Jeremy lætur sig nánast aldrei vanta á kröfuhafafundi slitabúanna sem fara reglulega fram á Íslandi. n Herra Ísland Jeremy Lowe hefur stýrt umsvifum stærsta kröfuhafa íslensks efnahagslífs síðustu ár. Hörður Ægisson hordur@dv.is „Það er opinber stefna sjóðsins að tjá sig ekki um starfsemi sína. Jeremy Lowe

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.