Skagfirðingabók - 01.01.2012, Blaðsíða 26
SKAGFIRÐINGABÓK
26
Sauðárkrókur sumarið 1953. Suðurhluti bæjarins. Húsið lengst til hægri á mynd er
Bárustígur 1, fyrsta húsið í bænum sem tengt var hitaveitunni 1. febrúar 1953. Þá
bjuggu þar Ragnar Pálsson og Anna Pála Guðmundsdóttir með börnum sínum. Ári síðar
seldu þau húsið Agli Bjarnasyni og Öldu Vilhjálmsdóttur sem búa þar enn 2012. Skag
firðingabrautin liggur gegnum bæinn miðjan. Syðstu húsin í bænum eru verkamanna
bústaðirnir, fjögur hús, sem Sigurður Sigfússon byggði við Öldustíginn og voru öll seld
fyrirfram. Björn Guðnason var einn aðalsmiðurinn við byggingu þessara húsa. Gatan sem
liggur í suðaustur er Hólavegurinn, byggður suður að Öldustíg. Barnaskólahúsið er til
vinstri á myndinni, reist á árunum 1946–1947 af Sigurði Sigfússyni. Þar fyrir sunnan
eru húsin við Ránarstíg, Ægisstíg og loks Öldustíg. Austur við sjávarkambinn, þar sem
nú heitir Sæmundargata, eru lengst til vinstri bílaverkstæðið Áki, þá hús Rafveitu
Sauðárkróks sem Adolf Björnsson lét byggja, loks verkstæðisskúrar sem Baldvin Kristins
son (Baldi Blúss) átti og notaði fyrir bílaútgerð sína. Syðsta húsið, austan götunnar, er
hús sem Sveinn Guðmundsson átti meðan það stóð við Suðurgötuna. Það skemmdist í bruna
20. nóvember 1950 og varð óíbúðarhæft. Jón Ingólfsson keypti síðan húsið, flutti niður á
sjávarkamb og endurbyggði þar og stendur það enn að hluta sem Sæmundargata 9.
Gatan næst á mynd er Suðurgata. Langa húsið syðst er Sýsluhesthúsið en sunnan við
það smiðjuskúrar. Þar gátu ferðamenn sem komu ríðandi í bæinn slegið til skeifur og lagað
undir hestum sínum. Þarna hafði m.a. aðstöðu mörg haust Jakobína Þorleifsdóttir, kona
Gísla Ólafssonar skálds, til að svíða hausa og lappir. Litli skúrinn á miðri mynd var
einskonar sjoppa sem Jón Björnsson reisti og rak um tíma. Þar fékk Bílstjórafélag Skaga
fjarðar aðstöðu og lítið afdrep í litlu horni skúrsins með sérstökum inngangsdyrum. Sunn
an við skúrinn er pallbrúin yfir Sauðána sem horfin er úr bænum. Hún var fyrir ríðandi
og gangandi fólk og smábílar gátu einnig farið þar yfir en norðan við brúna var vað sem
stærri bílar urðu að aka. Vestan við skúrinn er einskonar geymsluport þar sem áður var
fjárrétt fram um 1950 en á tíma myndarinnar eru þarna einkum geymd steypurör fyrir
lagnakerfi bæjarins. Ljósm.: Þorsteinn Jósepsson.