Morgunblaðið - 15.12.2016, Qupperneq 69
69
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 15. DESEMBER 2016
þeim næstsíðasta í þessari umferð.
Þetta eru liðin sem léku til úrslita
á síðasta Evrópumóti fyrir fjórum
árum og þá höfðu Spánverjar betur.
En þeir mæta ofjörlum sínum. Ítalir
halda sínu striki eins og gegn Belg-
um og Svíum í riðlakeppninni. Þeir
komast verðskuldað yfir á 33. mín-
útu þegar varnarjaxlinn Giorgio
Chiellini skorar þegar hann fylgir
vel eftir aukaspyrnu sem David de
Gea varði. Spánverjar sækja mjög í
seinni hálfleik, gamla brýnið Gian-
luigi Buffon kemur í veg fyrir að
Gerard Piqué jafni rétt fyrir leikslok
og í staðinn skorar Graziano Pellé,
leikmaður Southampton, og gull-
tryggir ítalskan sigur, 2-0. Það verða
því Ítalir og Þjóðverjar sem eigast
við í átta liða úrslitunum. Evr-
ópumeistarar undanfarinna tveggja
móta eru á heimleið.
Þar með er sú magnaða staða
komin upp, fyrir viðureign Íslands
og Englands, að Ísland er eitt þeirra
níu liða sem enn eru eftir í keppn-
inni! Verðandi Evrópumeistarar eru
eitt eftirtalinna níu liða: Pólland,
Portúgal, Wales, Belgía, Þýskaland,
Ítalía, Frakkland, England eða Ís-
land. Hugsið ykkur! Það hefur
marga kosti á svona móti að vera í
síðasta riðlinum og eiga síðasta út-
sláttarleikinn.
Hinn þriggja ára gamli Allianz Ri-
viera leikvangur í Nice, sem er
glæsilegur og kallaður Hreiðrið
vegna lögunar sinnar, er orðinn þétt
fullur löngu fyrir leik. Íslendingar
lærðu af reynslunni í Marseille og
hafa mætt snemma á völlinn í París
og nú í Nice. Aðeins 35 þúsund
manns komast fyrir á vellinum, talið
er að einungis um þrjú þúsund Ís-
lendingar hafi fengið miða en allt
bendir til þess að þeir séu heldur
fleiri þegar á hólminn er komið. Alls
kyns sögur berast af hvernig fólk
náði að útvega sér miða á síðustu
stundu og þó íslensku áhorfendurnir
séu flestir á sama svæði á vellinum
eru þeir líka hér og þar innan um
Englendingana og heimamennina.
Þegar íslenska liðið kemur út á
völlinn til að hita upp er því fagnað
gífurlega. Nú hefur þetta snúist við
frá því í Marseille þegar það voru
Ungverjar sem fengu allar móttök-
urnar á þessum tímapunkti. Stemn-
ingin á meðal þeirra bláklæddu er
meiriháttar og íslenski þulurinn á
vellinum, Páll Sævar Guðjónsson,
Röddin, á sinn þátt í að magna hana
upp. Mikið ævintýri sem Páll hefur
gengið í gegnum. Á öllum leikjum
taka vallarþulir frá viðkomandi þjóð-
um þátt í kynningu liðanna og að
magna upp stemninguna meðal
áhorfenda og enginn er betri í slíkt
verkefni en KR-ingurinn Páll sem
hefur verið „Röddin“ á landsleikjum
Íslands undanfarin ár.
Englendingar eru að vonum langt-
um fleiri í röðum áhorfenda og eru
hvítklæddir út um allt. Ef vellinum
er skipt í tíu svæði þá lítur þetta út
eins og Englendingar eigi átta þeirra
en Íslendingar tvö. Eða eitthvað ná-
lægt því.
Lars og Heimir halda sig við sama
byrjunarlið og það er löngu hætt að
koma á óvart. Þeir stilla upp ná-
kvæmlega eins liði fjórða leikinn í
röð. Það er ólíklegt fyrirfram að þeir
gætu gert það einn leikinn í viðbót.
Sjö íslenskir leikmenn hafa fengið
gult spjald og eiga á hættu að vera í
banni í átta liða úrslitum, fái þeir
gult spjald í dag og Ísland komist
áfram. Á meðan er einn enskur leik-
maður á slíku hættusvæði.
Flautað til leiks. Spennan er gríð-
arleg. Hvaða áhrif hefur hún á liðin?
Enska liðið spilar ávallt undir gríð-
arlegri pressu, það á að fara alla leið
á hverju einasta stórmóti, hversu
raunhæf sem slík krafa er. Englend-
ingar skoruðu ekki í síðasta leik
þrátt fyrir yfirburði gegn Slóvakíu.
En nú ganga hlutirnir þeim í hag.
Hannes Þór fellir Raheem Sterling
klaufalega strax á þriðju mínútu
leiksins. Vítaspyrna! Þetta var
óþarfa brot hjá Hannesi, Sterling
var á leið frá markinu þó hann væri á
markteignum og hefði átt í vandræð-
um með að halda boltanum. Wayne
Rooney fer á vítapunktinn. Englend-
ingar eru þekktir fyrir að klúðra
vítaspyrnum. Fyrirliðinn er hins-
vegar ekki í vandræðum. Hann negl-
ir boltanum niður í vinstra hornið.
Hannes á ekki séns, England er
komið yfir, 1:0.
Gífurlegur fögnuður á vellinum en
íslenskir áhorfendur eru í hálfgerðu
sjokki. Þetta er versta mögulega
byrjun. Nú er hætt við því að eft-
irleikurinn verði auðveldur fyrir
Englendinga. Margir töluðu um að
okkar möguleikar fælust í því að
halda leiknum markalausum í sextíu
mínútur og þá gæti leikur Englend-
inga farið að riðlast.
En strákarnir okkar eru gífurlega
sterkir karakterar og hversu oft höf-
um við ekki séð þá bregðast af krafti
við mótlæti? Við munum vel hvernig
þeir sneru við Tékkaleiknum á
Laugardalsvelli eftir að hafa lent
undir í seinni hálfleik. En þetta eru
sextán liða úrslit á EM. Það verður
erfiðara.
Ísland fer beint í sókn. Innkast
hægra megin. Englendingar ótt-
uðust Aron og innköstin hans, alla-
vega varaði Roy Hodgson sína menn
við í fjölmiðlum og sagði að þau væru
eitt hættulegasta vopn Íslendinga.
Hlustuðu ensku leikmennirnir ekki á
þjálfarann? Aron grýtir boltanum
inn á vítateiginn. Alveg eins og gegn
Austurríki í París er það Kári Árna-
son sem stekkur hæst og skallar
boltann áfram inn að markinu. Hver
er mættur þar? Enginn annar en
miðvörðurinn Ragnar Sigurðsson,
besti leikmaður Íslands í keppninni
til þessa. Allt í einu er hann orðinn
fremstur, teygir sig í boltann á
markteignum og sendir hann í
vinstra hornið, framhjá Joe Hart.
Ísland var bara tvær mínútur að
jafna metin. Það eru búnar 6 mín-
útur í Nice og staðan er 1:1. Ótrúleg
viðbrögð og íslensku áhorfendurnir
eru hreinlega að ganga af göflunum.
Syngja og styðja sína menn sem
aldrei fyrr. Í blaðamannastúkunni
sprettum við Íslendingarnir á fætur
og eins og áður vekur það kátínu og
skemmtun meðal kollega okkar.
Ekki síst þeirra sem koma frá öðr-
um löndum en Englandi og eru sér-
staklega mættir til að fjalla um ís-
lenska ævintýrið. Þeir hafa komist í
feitt.
Það skiptir miklu að hafa náð að
jafna strax, Englendingar fengu
ekki tækifæri til að nýta sér foryst-
una til að herða tök sín á leiknum.
Það er augljóst strax að þeim er
brugðið. Þetta var svar sem þeir
reiknuðu örugglega ekki með sjálfir.
Bjuggust eflaust sumir við því að nú
yrði þessi leikur „gönguferð í garð-
inum“ eins og þeir kalla það. Walk in
the Park.
Átjánda mínúta. Aftur dregur til
tíðinda. Góð sókn Íslands og Gylfi
fær boltann skammt utan vítateigs.
Hann sendir strax á Jón Daða sem
er á vítateigslínunni. Selfyssing-
urinn rennir boltanum eftir línunni á
Kolbein. Hann leikur til hægri,
framhjá varnarmanni, og sendir svo
hnitmiðað skot, ekki fast en inn-
anfótar, með jörðunni í hægra horn-
ið. Joe Hart er í boltanum en nær
ekki að afstýra marki. Boltinn siglir
hægt innfyrir marklínuna. Þetta er
ótrúlegt – lygilegt – við erum að
upplifa eitthvað algjörlega nýtt á
Allianz Riviera. Ísland er komið í 2:1
gegn Englandi eftir aðeins 18 mín-
útna leik eftir að hafa lent undir í
byrjun.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Tilþrif Ragnar Sigurðsson var nálægt því að skora úr glæsilegri hjólhesta-
spyrnu í sigurleiknum sögulega gegn Englandi sem vannst 2:1.