Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2008, Side 49

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2008, Side 49
RITRÝNDAR FRÆÐIGREINAR Við upphaf rannsóknar virtist fremur lítið hafa verið fjallað um stöðu þekkingar á ofbeldi á heimilum. Varð því fyrst fyrir að athuga hvernig þeim málum væri háttað og verður varpað nokkru Ijósi á afraksturinn hér á eftir. Fræðilegur bakgrunnur Breytt þátttaka barna í rannsóknum Sú fræðilega sýn hefur styrkst að undanförnu að börn taki virkan þátt í að móta líf, þroska og umhverfi sitt og annarra (James, Jenks og Prout, 1999). Nú er lögð talsverð áhersla á að laða fram sjónarmið barna og merkingu fyrirbæra eins og hún birtist þeim (Prout og James, 1990). Þetta er andstætt fyrri þrepakenningum þróunarsálarfræðinnar þar sem litið var þannig á að börn flytu nánast sjálfkrafa á færibandi þroskans (Qvortrup o.fl.,1995). Þessi áhersla hefur breytt þekkingu á stöðu og reynslu barna (Solberg, 1991; Christensen og James, 2000; Hill, 1997). Eitt dæmi er breska markáætlunin Children 5- 16 sem fólst í 22 rannsóknum á nútímabernsku og aðstæðum barna (Prout og James, 1990; Solberg, 1991; Qvortrup, 1993; Qvortrup o.fl., 1995; Hill o.fl., 2004). Athugun Mullender o.fl., (2002) á þekkingu barna á ofbeldi á heimilum var hluti af markáætluninni og þar var bent á að bæði sé æskilegt og mögulegt að fylgja þessari áherslu eftir svo fremi sem menn laga sig að aldri og þroska barna. Án þess að varpa ábyrgð á börnin geti menn nýtt hina auknu og breyttu þekkingu. Rannsóknin, sem þessi grein byggist á, styðst við rannsókn Mullender eins og fram kemur í inngangi og víðar. Athugun Seith og Böckmann (2006) fylgdi sama sniði og rannsókn Mullender o.fl. (2002) og þær náðu báðar til stórra hópa barna. Að okkar rannsókn meðtalinni hafa því farið fram þrjár sambærilegar athuganir á almennri þekkingu og skilningi barna á ofbeldi á heimilum. Einnig eru til viðtalsrannsóknir á reynslu barna af ofbeldi á heimilum (Kallström Cater, 2004; Eriksson o.fl., 2005). Þarna hefur verið lögð áhersla á aukin tækifæri barna til að tjá sig á eigin forsendum, t.d. með opnum spurningum, dæmisögum og fleiru (Alderson, 1995; Hill, 1997; Thomas og O'Kane, 1998; Thomas o.fl., 1999). Rannsókn okkar byggist á slíkri aðferð og spurt er um ofbeldi sem snertir börn og fullorðna. Við snúum okkur fyrst að hinu síðarnefnda. Ofbeldi milli fullorðinna sem eru nátengdir hvor öðrum Algeng notkun hugtaksins „heimilisofbeldi" vísar til ofbeldis milli fullorðinna sem eru bundnir nánum tilfinningaböndum. Slík þröng túlkun er gagnrýnd og meðal annars bent á að hún nái ekki til ofbeldis gagnvart og milli barna á heimilum (Mirless-Black 1991; Walby og Allen, 2004, tilvísun í Radford og Hester, 2006; Mullender o.fl., 2002).1 2 í flestum skilgreiningum er lögð áhersla á að verknaðurinn feli í sér valdbeitingu ofbeldismannsins. í skýrslum SÞ kemur fram að a.m.k. 20-50% kvenna hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeidi af hendi sambýlismanns eða fjölskyldumeðlims. í flestum löndum mælist útbreiðsla slíks ofbeldis um 30%-60%. SÞ telja að hægt gangi að útrýma ofbeldinu. Tilgreina samtökin sérstaklega að mæður og stúlkur séu viðkvæmir hópar (United Nations, 2006). Þar sem hagsmunir barna og foreldra eru samtvinnaðir telst viðeigandi að ræða hér um ofbeldi milli fullorðinna, efnið sem við spurðum börnin fyrst og fremst um og sem gert var ráð fyrir að þau vísuðu til í svörum sínum. Erfitt er að mæla hversu útbreitt heimilisofbeldi er, meðal annars vegna ólíkra rannsóknarsniða, bannhelgi á efninu og viðhorfa sem tengjast skömm og ótta (Leira, 2003). Ofbeldið, sem er almennt talið mannréttindabrot, hefur ýmsar neikvæðar afleiðingar, meðal annars tilfinningalegar og félagslegar (United Nations, 2006). Athuganir á heilbrigðiskostnaði sýna hærri kostnað af völdum ofbeldis karls gegn konu en þegar kona er gerandi (Arias og Corso, 2005; Weinehall o.fl., 2006). Almennt eru konur í meirihluta þeirra sem verða fyrir ofbeldi á heimilum (WHO, 2000). Yfirráð karla í krafti styrks og stöðu og hlutverk kvenna sem mæðra gera konu viðkvæmari en karl við sömu aðstæður (Mullender o.fl., 2002; Hester og Radford, 1992; Radford og Hester, 2006). Vísindarannsóknir á heimilisofbeldi hér á landi eru fáar. Fyrir um aldarfjórðungi sýndi fyrsta íslenska rannsóknin að heimilisofbeldi ætti sér stað, oftast með ofbeldi karls gegn konu (Hildigunnur Ólafsdóttir o.fl.,1982). Skýringa var leitað í ólíkri valdastöðu karla og kvenna í hjónabandi en ekki síður í samfélagsgerðinni. Þrátt fyrir formlegt jafnrétti væri staða karla og kvenna ójöfn og ofbeldi eiginmanna gegn mökum viðhéldi feðraveldi (Hildigunnur Ólafsdóttir o.fl., 1982). Skýringin er í fullu gildi og sums staðar viðurkennd í verki, t.d. í sænskri hegningarlöggjöf en þar voru nýlega innleidd kynbundin refsiákvæði um ofbeldi karla gegn konum á heimilum (Mellberg, 1997, 2002; Jamstálldhetspolitiska utredningen, 2005). Síðari athugun á útbreiðslu ofbeldis gegn konum og körlum náði til 3000 manna úrtaks og staðfesti einnig að heimilisofbeldi ætti sér stað hérlendis (Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 1997). Konur virtust búa við viðvarandi ofbeldi á heimilum og niðurstöður samrýmdust erlendum rannsóknum um að ofbeldið væri á margan hátt frábrugðið ofbeldi gegn körlum. Algengt var að ofbeldismaður þekkti konuna en það átti ekki við í sama mæli um ofbeldi gegn körlum. Könnunin náði ekki til barna en ályktað var að umtalsverður hópur þeirra væri í návígi við heimilisofbeldi um nokkurn tíma. Rannsóknin er hin nýjasta sinnar tegundar hér á landi. Nýleg viðtalsrannsókn við konur um reynslu af heimilisofbeldi vitnar um margvíslegar neikvæðar afleiðingar og börn koma inn í myndina þar sem þau taka stundum þátt í að óvirða konuna (Sigríður Halldórsdóttir, 2005). í ofangreindu koma fram dæmi um hve samofið ofbeldið er og varðar alla á heimilinu. Valdbeiting samfara ofbeldi á heimilum felur í sér yfirráð, takmarkar réttindi, frelsi og möguleika hins aðilans til athafna, hugsunar og tilfinninga (Wallace, 1996, tilvísun í Kállström Cater, 2004). Heimili og fjölskylda felur í sér hugmynd um öryggi, traust og 1 Guðrún Kristinsdóttir prófessor stjórnar rannsókninni og ásamt henni er Ingibjörg H. Harðardóttir lektor forsvarsmaður hennar. Auk þess eru í hópnum Nanna Þ. Andrésdóttir sérkennari, M.Ed., Nanna Kr. Christiansen deildarstjóri, Margrét Ólafsdóttir aðjunkt, Steinunn Gestsdóttir lektor, Ragnhildur Jónsdóttir námsráðgjafi, M.Ed., og M.Ed.-nemarnir Bergþóra Gísladóttir og Margrét Sveinsdóttir. 2Þrengri skilgreining nær yfir ofbeldi í parsamböndum (IPV) en slíkt ofbeldi er ekki viðfangsefni þessarar greinar. Tímarit hjúkrunarfræðinga - 5. tbl. 84. árg. 2008 47

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.