Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2008, Side 63

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2008, Side 63
RITRYNDAR FRÆÐIGREINAR Skilningur á aögangsréttindum og jákvæð viðhorf til aðgangs sýndu sterk tengsl við eldri þátttakendur og þeir sem höfðu skilning sýndu í mörgum tilvikum ákveðnari og jákvæðari viðhorf til mögulegra áhrifa þess að hafa aðgang. Eldra fólk hefur almennt meiri reynslu af heilbrigðiskerfinu og gefur það líka vísbendingu um að það hafi meiri skilning á þýðingu aðgangs að eigin heilbrigðisupplýsingum og rafrænni þjónustu. Aukin almenn umræða og fræðsla um viðfangsefnið er mikilvæg til að skapa þekkingu og þar með auka skilning sem almennt vekur áhuga á möguleikum til að þróa rafræna þjónustu. íslendingar búa við bestu aðstæður tölvu- og netaðgangs í Evrópu og þó víðar væri litið en þrátt fyrir það er þróun rafrænnar heilbrigðisþjónustu hægfara. Niðurstöður um tölvu- og netnotkun landsmanna eru nánast þær sömu og í könnunum Hagstofu íslands (2008) og styrkir það notagildi þessara niðurstaðna þó dræm svörun veiki gildið og réttmætið sé ekki tryggt. Það er líka í samræmi við góðan aðbúnað að mun hærra hlutfall íslendinga vilji nota aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum í tölvunni heima en Bretar (Pyper o.fl., 2001) og Bandaríkjamenn (Fowles o.fl., 2004). Viðbrögð íslenskra þátttakenda vísa til nútímatölvunotenda. Hlutfallslega fleiri íslenskir þátttakendur en breskir hafa ákveðnar skoðanir á að ráða aðgangsheimildum (85% og 67%) og vilja taka þátt í viðhaldi upplýsinganna (62% og 52%) (Pyper o.fl., 2004). Það sýnir líka virkni til sjálfræðis og upplýsingaöflunar að langflestir telji sig eiga að hafa aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum og forráðamenn barna aðgang að upplýsingum þeirra. Það að aðeins 46% þátttakenda telji sig eiga að hafa aðgang að heilbrigðisupplýsingunum á Internetinu gefur hins vegar í þessu samhengi misvísandi skilaboð. Þrátt fyrir minni skilning á aðgangsréttindum (45%) en erlendar rannsóknir segja til um (75% og 74%) (Fowles o.fl, 2004; Pyper o.fl., 2001) hafa hlutfallslega fleiri íslendingar (11%) en Bretar (4%) beðið um aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum (Pyper o.fl., 2001). Heimtur Bretanna voru hins vegar betri, þar hafði aðeins einn einstaklingur ekki fengið aðgang en hjá íslensku þátttakendunum voru það 26 sem ekki fengu aðgang. Það að hlutfallslega fleiri Bretar (Pyper o.fl., 2001) og enn fleiri Bandaríkjamenn (Fowles o.fl., 2004) en íslendingar sýni áhuga á að nota aðgangslykil og telji aðgang að upplýsingunum auka skilning á eigin heilsufari segir nokkuð um reynsluleysi og skort á þekkingu þeirra íslendinga sem tóku þátt. Hlutleysi 20% þátttakenda um að nýta aðgang hjá TR, treysta TR fyrir öryggi eigin upplýsinga og eiga samskipti við TR um Internetið gefur einnig vísbendingu um að þeir hafi ekki þekkt möguleikana. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan rannsóknin var gerð, hefur reynsla af notkun heimabanka bæði aukist og breyst mikið. Mesta breytingin er að nú hafa allflestir notendur heimabanka á íslandi fengið aðgangslykil sem þeir nota fyrir sinn einkaaðgang að heimabankanum. Því má telja mjög líklegt að sambærileg rannsókn myndi nú gefa aðrar niðurstöður. Aðstöðumunur þjóðfélagshópa er víða mikill varðandi tölvuaðgang og menn óttast að áhrif þess aukist í framtíðinni verði ekkert að gert. Aldurog búsetaeru þargreinilegiráhrifaþættirsem mikilvægt er að brugðist verði við með bættum úrræðum. Ljóst er að eldri þegnar, öryrkjar og íbúar landsbyggðarinnar eru hér markhópar sem mjög brýnt er að fylgt verði eftir til samræmis við markmið íslensku upplýsingastefnunnar um rafræna heilbrigðisþjónustu og aðgengi upplýsinga (Forsætisráðuneytið, 2004; 2008). Það að sameiginlegur aðgangur notenda og þjónustuaðila að heilsufarskerfum stuðli að aukinni heilbrigðisvitund og bæti heilsutengd lífsgæði notenda hefur líka mikið að segja í þessu samhengi. Betur upplýstir sýna þeir gagnkvæmt traust, verða áhrifameiri og bera frekar ábyrgð á eigin heilsu (Baker og Masys, 2004). Heilsufarskerfi notenda mætti líkja við aðgang að heimabanka þar sem stöðug notkun eykur færni til að nota kerfið. Stöðug heilsutengd eftirfylgni eldri þegna og langveikra styrkir notkunina í þessu samhengi en fátíð og óregluleg notkun annarra gæti samt dregið úr kunnáttu og færni til að nota kerfið. Einnig er rétt að vekja athygli á að heilsufarskerfi notenda hafa gefið góða reynslu við stuðningsmeðferð notendahópa með sama sjúkdóm, einkum langveikra (Gustafson o.fl., 2001). Markmið íslenskra stjórnvalda um úttekt á möguleikum fólks með skerta færni til að nýta upplýsingatækni í samskiptum við heilbrigðiskerfið bera vott um framsýni um aðgengi vegna sérþarfa öryrkja og fatlaðra einstaklinga. Nýleg úttekt Capacent ráðgjafar (2007) á framkvæmd stefnu íslenska upplýsingasamfélagsins 2004-2007 gefur því miður til kynna að þessum markmiðum hafi enn ekki verið sinnt sem skyldi og er hér vakin athygli á hve brýnt er að þessi markmið verði sett í forgang hið fyrsta. Við gerð matstækis var vandað til skýrleika, málfar einfaldað, vinnuaðferðir við gagnasöfnun samræmdar með verklagsreglum og þáttagreining notuð sem mælikvarði um réttmæti og áreiðanleika. Persónuverndarsjónarmið voru látin ráða þegar ákveðið var að nota flokkabreytur til að spyrja um aldur þátttakenda en Ijóst er að þetta spurningaform hefti nokkuð úrvinnslu og tengsl niðurstaðna við aldur. Hlutfall allra þátttakenda var vegið miðað við fjölda í þýði hópanna vegna þess hve hóparnir voru ólíkir og þýði öryrkja lítið, aðeins einn fimmtándi hluti af fjölda í þýði annarra þegna. Vegið hlutfall hafði mikil áhrif á útkomu ákveðinna breyta, hlutfall tengt notkun og aðgangi að tölvum og Interneti hækkaði mikið frá óvegnum niðurstöðum og hlutfall tengt viðhaldi sjúkraskrár og viðhorfi um jákvæð áhrif aðgangs, réttmæti upplýsinga og aðgang umsjónaraðila lækkaði. Þetta segir mikið um sterkar áherslur og sérstöðu þeirra öryrkja sem tóku þátt í rannsókninni. Einnig má ætla að reynsla öryrkja af notkun heilbrigðisstarfseminnar sé meiri en annarra þegna, skoðanir sennilega mótaðri og hagsmunir meiri. Fjölmargir þættir hafa áhrif á brottfall úr könnunum. Ráðstafanir voru gerðar til að draga úr brottfalli og voru þær helstu persónulegt og undirritað bréf til þátttakenda, frímerkt umslag með utanáskrift fylgdi með, framkvæmd rannsóknar var í nafni virtra stofnana (HÍ og TR) og ýmsar ráðstafanir voru viðhafðar við gerð matstækis eins og áður er lýst. Hætt er við að lágt svarhlutfall í rannsókninni og mikið brottfall hafi valdið kerfisbundinni skekkju niðurstaðna. Kynjaskipting, búseta og aldursskipting hafa jafnan áhrif á niðurstöður spurninga. Þýði, úrtak og svörun voru þess vegna borin saman með kíkvaðratprófum sem sýndu marktækan mun (Þorlákur Karlsson og Þórólfur Þórlindsson, 1991). Tímarit hjúkrunarfræðinga - 5. tbl. 84. árg. 2008 61

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.