Skírnir - 01.04.2010, Page 4
Frá rit stjór a
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið kom fyrir almennings -
sjónir um það leyti sem gengið var frá þessu hefti Skírnis til prentunar. Kapp -
ræða um lærdóma af hruninu mun setja svip sinn á opinbera umræðu næstu
misserin á Íslandi. Skírnir vill leggja sitt til umræðunnar, til dæmis um stjórn-
skipan og stjórnarskrá, á málefnalegan og fræðilegan hátt eftir því sem kostur
er. Þannig eru í þessu hefti tvær greinar sem tengjast hugmyndum um stjórnar-
skrá og hlutverk forsetaembættisins, skrifaðar frá ólíkum sjónarhornum. Annars
vegar er það söguleg umfjöllun Svans Kristjánssonar um sambandsslitin 1944,
þar sem hann ræðir ólíkan skilning ráðamanna á lýðræði og valdi sem enn setur
svip sinn á stjórnmál samtímans, og hins vegar grein Guðna Th. Jóhannes sonar
um breytingar á forsetaembættinu í valdatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, sem
um sumt kallast á við niðurstöður nefndarinnar um siðferði og starfshætti, þó
að grein Guðna sé samin áður en nefndin lýsti niðurstöðum sínum. Í Skírnis -
málum má svo finna hugleiðingu Árna Björnssonar um sjálfa undirrót banka-
hrunsins.
Það má finna enduróm af helstu deilumálum okkar tíma í tveimur öðrum
Skírnisgreinum að þessu sinni, og er önnur skrifuð frá mannfræðilegu en hin
þjóðfræðilegu sjónarmiði: Kristín Loftsdóttir skrifar um kynþáttahyggju og for-
dóma á Íslandi, en Bryndís Björgvinsdóttir ræðir um átök um menningararf í
samtímanum. Menningararfurinn kemur reyndar við sögu í fróðlegri samantekt
Braga Þ. Ólafssonar um tillögur góðra manna um að forða íslensku handritunum
í heimsstyrjöldinni síðari. Þá halda áfram skoðanaskiptin um tímasetningu land-
náms á Íslandi sem Páll Theodórsson hóf í síðasta Skírni, því að starfsfélagi hans
Þorsteinn Vilhjálmsson svarar honum hér. Annað andsvar birtist í Skírnismálum,
þar sem Þorsteinn Þorsteinsson bregst við umfjöllun Bergljótar Kristjánsdóttur
um bók hans um Sigfús Daðason og ljóðagerð hans. Þorsteinn á jafnframt aðra
grein í heftinu, um kvæðabálk Halldórs Laxness um unglinginn í skóginum og
stöðu hans í ljóðlist samtímans. Loks ritar Ármann Jakobsson skemmtilegan
inngang að íslenskum draugafræðum.
Í bókmenntahlutanum er að finna áður óbirt ljóð eftir þau Anton Helga
Jónsson og Ingunni Snædal, en ritdómana skrifa þau Gunnþórunn Guðmunds-
dóttir um Þórbergsbækur Péturs Gunnarssonar, og Björn Bjarnason um bók
Árna Heimis Ingólfssonar um Jón Leifs.
Myndlistarmaður Skírnis að þessu sinni er Hildur Hákonardóttir, og fjallar
Hrafnhildur Schram um þrjá myndvefnaði hennar.
Góða skemmt un!
Halldór Guðmundsson
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:23 Page 4