Skírnir - 01.04.2010, Síða 34
af sér tímanlega til þess að það Alþingi, sem kæmi saman eftir kosn-
ingar í júlí, gæti gengið frá tillögum um slit sambandsins við Dani,
breytingar á stjórnarskrá og stofnun lýðveldis. Eftir haustkosning-
arnar væri síðan hægt að staðfesta tillögur sumarþingsins. Íslenska
lýðveldið liti síðan dagsins ljós fyrir árslok 1942. Einnig var fyrir -
sjáanlegt að þingkosningarnar myndu færa hraðskilnaðarflokk -
unum tveim — Sjálfstæðisflokki og Sósíalistaflokki — aukinn
þingstyrk en á þessum tíma áttu þessir flokkar víða í nánu samstarfi,
ekki síst í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem Bjarni Benediktsson
sat sem borgarstjóri í skjóli Sósíalistaflokksins eftir að einn borgar-
fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Árni Jónsson frá Múla, yfirgaf flokkinn
og varð efsti maður á þinglista nýs flokks, Landsmálaflokks þjóð -
veldis manna.24
En nú kom babb í hraðbát hraðskilnaðarmanna. Roosevelt
Banda ríkjaforseti nánast fyrirskipaði Ólafi Thors forsætisráðherra
að Ísland skyldi virða ákvæði sambandslaganna og fresta sambands-
slitum og stofnun lýðveldis þar til eftir árslok 1943. Bandaríkin
lýstu hins vegar yfir fullum stuðningi við einhliða aðgerðir Íslend-
inga eftir þann tíma. Ríkisstjórnin sá sig tilneydda til að fara að
óskum Bandaríkjanna en taldi landinu mikill styrkur að viðurkenn-
ingu þeirra á Íslandi sem frjálsu og sjálfstæðu ríki.25
Lokasókn hraðskilnaðarmanna hófst síðan sumarið 1943. Sem
fyrr var Bjarni Benediktsson í lykilhlutverki sem hugmyndasmiður.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins flutti Bjarni mjög ítarlega ræðu
34 svanur kristjánsson skírnir
24 Svanur Kristjánsson 2001b: einkum 5 og 15.
25 Einkaskjöl Sveins Björnssonar: 150. Sveinn lýsti rás atburða m.a. þannig: „26. júlí
1942 hitti eg Harry Hopkins, láns- og leigulagaráðherra Bandaríkjanna og einka -
ráðunaut Roosevelts forseta, sem dvaldi hér þann dag á leið frá London til Was-
hington flugleiðis. Talaði hann við mig einslega. Kvaðst eiga að bera mér kveðju
frá Roosevelt Bandarikjaforseta og þau skilaboð að hann og stjórn Bandaríkjanna
teldi mjög ískyggilegt, ef sambandsslit við Danmörku og lýðveldisstofnun yrði
samþykkt af Alþingi nú; fylgdu því ýms rök, sem eg sumpart reyndi að hrekja.
Að öðru leyti sagði eg honum að um þetta væri að tala við ráðuneytið en ekki
mig. Forsætisráðherra, Ólafur Thors, var staddur á sama stað, og beindi Harry
Hopkins síðan málinu til hans. Mun viðræðum þeirra hafa lokið svo, að forsæt-
isráðherra mundi berast skrifleg tilmæli um þetta frá Washington innan fárra
daga. Bárust þau tilmæli til forsætisráðherra frá sendiráði Bandaríkjanna hér 31.
s.m.“
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:23 Page 34