Skírnir - 01.04.2010, Page 63
63bylting á bessastöðum
Í kosningabaráttunni sumarið 1996 kom pólitísk staða Ólafs
Ragnars Grímssonar því nokkuð til umræðu. Tæpt ár var liðið síðan
hann lét af formennsku í Alþýðubandalaginu, í stjórnmálum var
hann alltaf með vígreifustu baráttumönnum og undir lokin urðu
rimmur hans við Davíð Oddsson forsætisráðherra og aðra forystu-
menn Sjálfstæðisflokksins mjög harðar.7 Sér til varnar benti forseta-
efnið á að Alþingi hlyti að vera átakavettvangur en utan þess ættu
menn að slíðra sverðin.8 Á kjördegi naut Ólafur Ragnar svo þess
sama og forverar hans sem voru kjörnir til setu á Bessastöðum:
Hann var álitinn fulltrúi „fólksins“ frekar en fulltrúi „valdsins“
þrátt fyrir áralanga þátttöku í stjórnmálum. Sigur hans telst til
óvæntustu kosningaúrslita í sögu lýðveldisins.
Flestir virtust ætlast til þess að Ólafur Ragnar Grímsson umbylti
ekki forsetaembættinu þótt nýjar áherslur kæmu ætíð með nýjum
herra. Eflaust vonuðust andstæðingar hans þó til þess að hann næði
aldrei þeirri hylli sem forverar hans nutu og fljótt kom á daginn að
ekki þurfti mikið til að þeim sinnaðist við hann. Ólafur Ragnar
hafði aðeins verið forseti í tæpa tvo mánuði þegar hann minntist á
lélegt ástand vega í Barðastrandarsýslu sem hann hafði heimsótt
með Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur, eiginkonu sinni. Halldóri
Blöndal, samgönguráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Fram-
sóknarflokks, var ekki skemmt, en fáum sögum fór af því að lands-
menn hefðu hneykslast á orðum forsetans.9
Tveimur árum síðar ollu ummæli forseta meiri úlfaþyt. Á Hóla-
hátíð lét hann í ljós efasemdir um væntanlegt stjórnarfrumvarp um
skírnir
7 „Hvers konar loddari ert þú?“ kallaði Davíð undir ræðu Ólafs Ragnars í fyrsta
sinn sem þeir tókust á í þingsölum í maí 1991, og á næsta þingi sagði Ólafur Ragnar
að Davíð hefði „skítlegt eðli“ (Alþingistíðindi 1991 B: d. 436; Alþingistíðindi 1991–
1992 B: d. 5131). Sjá einnig Pálma Jónasson 1996: 186–189; Jón G. Hauksson 2004:
16–20.
8 „Embættið ekki átakavettvangur“, Morgunblaðið, 28. júní 1996.
9 „Vestfirðir næsta framtíðarlandið í ferðaþjónustu.“ Morgunblaðið, 24. september
1996. Seint verður sagt að forseti hafi verið harðorður. Blaðamaður hafði eftir
honum að það væri ekki nóg „að vegakerfi samtímans á internetinu sé í góðu lagi,
ef vegakerfið sem flytur fólkið sjálft stenst ekki samanburð við það sem annars
staðar er“. Síðan bætti blaðamaður við að þarna hefði forseti vísað til „til slæms
ástands vega á sunnanverðum Vestfjörðum sem mikið hefur verið til umræðu að
undanförnu“.
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:23 Page 63