Skírnir - 01.04.2010, Síða 64
gagnagrunn á heilbrigðissviði. Margir stjórnarsinnar kvörtuðu
undan því að forseti hefði með orðum sínum haft „afskipti af stjórn-
málum“ og það bæri honum ekki að gera. Stjórnarandstæðingar
tóku undir að hann hefði skipt sér af hitamáli en honum væri það
fullkomlega heimilt þótt rétt væri að forsetaembættið yrði þá „um-
deildara en það hefur verið í tíð Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finn-
bogadóttur“.10
Það voru orð að sönnu. Næstu ár tjáði forsetinn sig áfram um
ýmis mál sem voru ofarlega á baugi í þjóðfélaginu og þegar hann
tilkynnti í mars 2004 að hann sæktist öðru sinni eftir endurkjöri
kvaðst hann vilja taka enn virkari þátt í umræðum líðandi stundar.
Hann myndi ekki skipta sér af flokkspólitík en taldi „æskilegt að
forsetinn sé meiri þátttakandi í straumum sinnar tíðar; hann taki
þátt í því með þjóðinni að glíma við þau framtíðarverkefni sem snúa
að heill og hag íslenskrar þjóðar“.11
En hvað yrði þá um sameiningartáknið? spurði einn frétta -
maður. „Sameiningartáknið er ekki einhver stytta sem situr meira
og minna uppstoppuð á Bessastöðum,“ svaraði Ólafur Ragnar að
bragði.12 Það varð þó ekki bæði sleppt og haldið. Í forsetakjörinu
26. júní 2004 voru tveir aðrir en forseti í framboði, athafnamennirnir
Ástþór Magnússon og Baldur Ágústsson. Ólafur Ragnar Grímsson
náði vitaskuld endurkjöri en erfitt var að túlka úrslitin honum í vil.
Hann hlaut að vísu mikinn meirihluta atkvæða en kjörsókn var
dræm, tæp 63%, og um 30.000 manns, eða nær 21% þeirra sem
kusu, mættu á kjörstað til þess eins að skila auðu.13
64 guðni th. jóhannesson skírnir
10 „Er rétt að forseti Íslands fjalli um mál í brennidepli?“ Morgunblaðið, 18. ágúst
1998. Sjá einnig Össur Skarphéðinsson 1998.
11 „Kastljósið“, Ríkissjónvarpið, 18. mars 2004. Sjá einnig „Mikill misskilningur
að forsetaembættið sé valdalaust“, www.mbl.is, 15. mars 2004.
12 „Kastljósið“, Ríkissjónvarpið, 18. mars. 2004. Sjá einnig Kolbrúnu Bergþórs-
dóttur 2004.
13 Ólafur Ragnar hlaut 67,9% atkvæða, Baldur 9,9% og Ástþór 1,5%. Fyrir kosn-
ingarnar hafði forseti viðurkennt að þótt hann hefði yfirgnæfandi fylgi í skoðana-
könnunum og ætti sigur vísan yrði forsetakjörið „ákveðin vísbending og
ákveðinn dómur. […] Úrslitin verða ekki bara metin eftir því hversu mörg
atkvæði ég eða andstæðingarnir fá, heldur einnig eftir öðrum þáttum“ (Kolbrún
Bergþórsdóttir 2004). Um útlistanir Ólafs Ragnars á úrslitum forsetakjörsins,
sjá Guðjón Friðriksson 2008: 345–347.
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:23 Page 64