Skírnir - 01.04.2010, Page 66
Sveinn Björnsson hugði á opinberar heimsóknir til Norðurlanda
en af þeim varð ekki.17 Hann lést árið 1952 og þá var kjörinn forseti
Ásgeir Ásgeirsson. Tveimur árum síðar fór hann í opinbera heim-
sókn til Norðurlanda og seinna til Bretlands, Ísraels, Bandaríkjanna
og Kanada. Nær allir forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsókn-
arflokks sem sátu saman í ríkisstjórn fyrstu ár Ásgeirs á forsetastóli
höfðu unnið gegn honum í forsetakjörinu og áttu í fyrstu erfitt með
að sætta sig við setu hans á Bessastöðum. Fyrir Norðurlandaförina
kvartaði Ásgeir einmitt yfir því að Hermann Jónasson, formaður
Framsóknarflokksins, reri að því öllum árum að forsetinn „skyldi
aldrei fá að fara úr landi þó varla yrði hann hindraður í að flækjast
um innanlands“.18
Kristján Eldjárn, sem tók við af Ásgeiri Ásgeirssyni árið 1968,
fór einnig sjaldan utan í opinberum erindum. Árin 1970–1972 heim-
sótti hann hin norrænu ríkin og síðar Belgíu en lét þar við sitja.
Afstaða Kristjáns var ætíð skýr; forseti Íslands ætti að „stilla opin-
berum utanförum og heimboðum í hóf“.19 Þegar Kristján hafði
lokið við að kynna sig fyrir þjóðhöfðingjum annars staðar á
Norður löndum fannst honum hlutverki sínu í útlöndum lokið og
vart verður séð að almenningur eða ráðamenn hafi verið á öðru
máli.
Umskipti urðu við kjör Vigdísar Finnbogadóttur árið 1980. Það
vakti heimsathygli og dyr stóðu henni víða opnar. Í tíð Vigdísar
fjölgaði ferðamönnum til Íslands og þjónusta við þá varð að mikil-
vægri tekjulind. Landkynning fór því að skipta meira máli en áður
og útflytjendur íslenskra afurða voru líka í hópi þeirra sem töldu
sig njóta góðs af þeirri athygli sem Vigdís vekti erlendis. Nýi for-
setinn var kjörinn til kynningar á Íslandi, glæsileg kona og vel mælt
á margar tungur. Alls urðu opinberar heimsóknir hennar 20 talsins
66 guðni th. jóhannesson skírnir
17 „Fyrirhugað ferðalag forseta Íslands til Norðurlanda í vor“, Morgunblaðið, 13.
apríl 1949, og „Forseti Íslands í opinbera heimsókn til Noregs“, Morgunblaðið,
18. nóvember 1949.
18 Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Skjalasafn Ólafs Thors. Frásögn Ólafs Thors af
samtali við Ásgeir Ásgeirsson, 12. febrúar 1954.
19 „Innsetningarræða forseta Íslands Kristjáns Eldjárns 1. ágúst 1972“, www.forseti.is
→ Fyrri forsetar → Kristján Eldjárn → Innsetningarræður.
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:23 Page 66