Skírnir - 01.04.2010, Page 79
79bylting á bessastöðum
þótt vel hefði gengið að mynda ríkisstjórn einu sinni enn var alls
ekki útilokað að annað yrði næst uppi á teningnum. Þannig gæti
það gerst að forsætisráðherra bæðist lausnar og ekkert virtist fast í
hendi um myndun nýrrar stjórnar. Og hvað myndi forseti þá gera?
Að kvöldi 26. janúar 2009, um tveimur klukkustundum eftir að Geir
H. Haarde baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt, lýsti Ólafur
Ragnar Grímsson því yfir á blaðamannafundi á Bessastöðum að í
þeim viðræðum um nýja stjórn sem væru fram undan vildi hann að
leiðtogar stjórnmálaflokkanna hefðu fjögur „áhersluatriði“ að
leiðarljósi: að náð yrði „samfélagslegri sátt eftir óróatíð“, komið á
stjórn sem ynni að lausn á vanda fjölskyldna og fyrirtækja, kosið til
Alþingis sem fyrst og fundinn „farvegur fyrir umræðu um endur-
bætta eða nýja stjórnarskrá“.63
Tilmæli af þessu tagi voru nýmæli við stjórnarmyndanir og
vöktu vitaskuld athygli. Pólitískir andstæðingar forseta sökuðu
hann um að „reyna að knýja fram einkasjónarmið sín við stjórnar-
myndun“,64 og stjórnmálafræðingar virtust helst undrandi eða efins
um að listi forseta skipti einhverju máli.65 En Ólafur Ragnar Gríms-
son svaraði allri gagnrýni á þann veg að forverar hans í embætti
hefðu lýst svipuðum sjónarmiðum og áherslum við stjórnarmynd-
anir. Þeir hefðu aftur á móti gert það á ólýðræðislegan hátt, „fyrir
luktum dyrum, bak við tjöldin“.66 Hér vísaði Ólafur Ragnar til þess
að þeir Sveinn Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson höfðu sínar skoðanir
á því hvaða flokkar ættu helst að sitja í stjórn og jafnvel að hverju
nýir valdhafar skyldu helst stefna.67
Á hinn bóginn höguðu Kristján Eldjárn og Vigdís Finnboga-
dóttir störfum sínum við stjórnarmyndun ekki með þeim hætti.
Undir lok embættistíðar sinnar hugsaði Kristján að vísu með sér að
þetta væri „dálítið skrýtin sitúasjón, þetta leikstjórahlutverk forset-
ans þar sem hann leggur eiginlega ekkert aktívt til“. Honum fannst
skírnir
63 „Forsetinn segist hafa valdið“, Fréttablaðið, 27. janúar 2009.
64 Vefdagbók Björns Bjarnasonar, 26. janúar 2009, www.bjorn.is/dagbok/nr/4800.
65 „Forsetinn segist hafa valdið“, Fréttablaðið, 27. janúar 2009.
66 „Ólafur Ragnar: Vildi upplýsa þjóðina“, www.mbl.is, 27. janúar 2009.
67 Skýrasta dæmið um það er atbeini Ásgeirs Ásgeirssonar þegar minnihlutastjórn
Alþýðuflokksins tók við völdum í árslok 1958. Sjá t.d. Ásgeir Jóhannesson 2006;
Gylfa Gröndal 1992: 396–403.
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:24 Page 79