Skírnir - 01.04.2010, Page 96
efnahagssvæðið hefði nánast fengist lokasönnun þess að synjunar-
valdið væri óvirkt og skipti ekki máli í íslenskri stjórnskipun. En
þvert á móti mætti líka segja að fyrst „ópólitískur“ forseti eins og
Vigdís þurfti að leggjast undir feld til að gera upp hug sinn hlyti að
koma að því að þessu valdi yrði beitt.
Þegar á allt er litið hafa hinar miklu breytingar á Bessastöðum
síðustu ár þó einkum orðið fyrir tilstilli forsetans sjálfs. Atbeini hans
í embætti staðfestir betur en margt annað mikilvægi einstaklinga og
tilviljana í gangi sögunnar. Stjórnmálasaga síðustu ára hefði orðið
öll önnur ef einhver annar en Ólafur Ragnar Grímsson hefði orðið
þjóðhöfðingi Íslendinga sumarið 1996, eins og hefði hæglega getað
gerst.
Síðustu ár og áratugi hafa fáir ráðamenn verið eins umdeildir á
Íslandi og Ólafur Ragnar. Stuðningsmenn hans lofa dugnað hans,
metnað og gáfur en stækri andúð verstu fjandmanna hans má helst
líkja við hatrið á Jónasi Jónssyni frá Hriflu áður fyrr. Vinir og óvinir
geta þó líklega sammælst um það að Ólafur Ragnar Grímsson sé
ákafamaður. „Ólafur … er mjög ákafur maður og hann á það til að
fara svolítið fram úr sér og stundum hefur þess gætt í orðræðu
hans,“ sagði Guðjón Friðriksson, sagnaritari forseta, um miðjan
október 2008, rétt eftir hrun íslensku bankanna: „Líklega hefur
hann stundum tekið of sterkt til orða þegar hann var að mæra Ís-
lendinga erlendis.“129
Kapp er best með forsjá. Útrásarákafi Ólafs Ragnars Grímssonar
kom honum í koll og skaðaði embætti hans. Of snemmt er þó að
segja til um það hver „dómur sögunnar“ verði um verk Ólafs Ragn-
ars á forsetastóli en vísbendingar gætu komið fram í næsta forseta-
kjöri. Kannski mun þá koma á daginn hvernig forseta flestir
landsmenn vilja, athafnasaman, umdeildan og „pólitískan“ forseta
eða „menningarforseta“ og „sameiningartákn“ sem heldur sig í
lengstu lög utan baráttuvallar stjórnmálanna. En kannski mun líka
verða ljóst að Ólafur Ragnar hafi breytt eðli embættisins til lang-
frama, að hugmyndin um „sameiningartákn“ sé með öllu horfin og
forsetaefni verði vegin og metin á öðrum forsendum en áður.
96 guðni th. jóhannesson skírnir
129 „Forsetabók afturkölluð úr prentsmiðju“, www.mbl.is, 14. október 2008.
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:24 Page 96