Skírnir - 01.04.2010, Síða 158
Í nefndaráliti var hvatt til þess að öryggisgeymslan yrði í Reykja-
vík til að forðast óþarfa flutning handritanna út á land og því var
talið heppilegast að reisa trausta neðanjarðargeymslu í næsta ná-
grenni við húsið.49 Þingsályktunartillagan var samþykkt 10. mars
1954 og í kjölfarið skipaði Bjarni Benediktsson menntamálaráðherra
nefnd um málið.50 Nefndin skilaði skýrslu í febrúar 1956 þar sem
kom fram að áhugi hefði verið á að koma öryggisgeymslunni fyrir
inni í Arnarhóli.51 Um svipað leyti voru hugmyndir um að reisa
risavaxið loftvarnarskýli á sama stað, alls 5.440 fermetra í þremur
stór um sölum á mismunandi hæðum sem myndi nýtast sem bíla -
stæðahús á friðartímum.52 Arnarhóll hefði því haft að geyma heil-
mikið neðanjarðarmannvirki ef þessar hugmyndir hefðu komið til
framkvæmda, en fallið var frá þeim vegna kostnaðar. Nefndin taldi
skynsamlegra að reisa nýtt safnhús með traustri öryggisgeymslu:
„Vill nefndin í því sambandi benda á auðar lóðir við Melaveg, vestan
við háskólahverfið, að Melatorgi. Sá staður liggur mjög vel í nálægð
við allar helztu vísinda- og menningarstofnanir, og um betri safn -
stað er vart að ræða í bæjarlandinu. Væri æskilegt að tryggja sér þær
lóðir áður en þeim verður ráðstafað á annan veg.“53 Á svipuðum
tíma hófust umræður um sameiningu Landsbókasafns og bókasafns
Háskóla Íslands og var ákveðið að reisa Þjóðarbókhlöðu fyrir sam-
einað safn á melunum þar sem væri fullkomin öryggisgeymsla. Þessi
áform drógust þó árum saman og var fyrsta skóflustungan að
bókhlöðunni ekki tekin fyrr en 1978 og húsið loks tekið í notkun
1. desember 1994. Handritasafn Landsbókasafns, um 15.000 bindi,
er nú varð veitt neðanjarðar í öryggisgeymslu Þjóðarbókhlöðunnar.
158 bragi þorgrímur ólafsson skírnir
49 Alþingistíðindi 1953 A, þingskjal 440: 939–940.
50 Alþingistíðindi 1953 A, þingskjal 451: 954. Þess má geta að um svipað leyti, eða
árið 1954, var gerður sérstakur alþjóðlegur sáttmáli um verndun menningar-
verðmæta á stríðstímum (Haag Convention for the Protection of Cultural Pro-
perty in the Event of Armed Conflict) og náði hún m.a. yfir bókasöfn, skjalasöfn,
listasöfn og minjasöfn. Í kjölfarið voru sett á stofn samtökin Blue Shield sem er
ætlað að bjarga menningarverðmætum frá eyðileggingu. Nýlega komu samtökin
að uppbyggingarstarfi skjala, minja, lista og bókasafna í kjölfar hamfaranna á
Haítí. Sjá: www.ancbs.org.
51 Alþingistíðindi 1955 A, þingskjal 600: 1466–1467.
52 Guðni Th. Jóhannesson 2007: 16–17.
53 Alþingistíðindi 1955 A, þingskjal 600: 1467.
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:24 Page 158