Skírnir - 01.04.2010, Page 164
vistkerfi margra ljóða symbólismans. „Únglíngurinn í skóginum“ er
að inntaki erótískur draumur ungrar stúlku, kvæðið er ljóðleikur um
fund hennar og samtal við ungling sem gæti verið fjarskyldur ættingi
skógarguðsins sem Grikkir kölluðu Pan en Rómverjar Faunus.6 Og
hann virðist líka ættingi Narkissosar, hrifinn af eigin spegilmynd:
„Hann laut yfir lindina, las það sem speglast í gárunum.“
Umfram allt er hann náttúruguð og ásta, hinn fagri unglingur
Adónis endurborinn, skulum við segja, sá sem gyðjur deildu um og
konur dýrkuðu. Erótíkin er allsráðandi. Frá því fyrir ári að stúlkan
fór út í skóg með stöllu sinni hefur hún breyst í vaknandi konu, og
nú dreymir hana að hún sé ein í rjóðrinu þegar unglingurinn birtist
— „með úngan teinúng í hendi“ og „klæddur skikkju ofinni úr
laufum“. Hann ávarpar stúlkuna af sigurvissu karlguðsins sem veit
að hann á allskostar við jarðneskar konur:
Táta,
kondu táta,
kondu litla nótintáta
að kyssa pótintáta
útí skógi!
Og eftir að hún hefur sveiað honum:
Títa,
litla grýta,
liljan hvíta,
mýrispýta,
lindargullið og eldflugan mín,
hér kem ég að sjá þig, sjá þig,
[…]
og á þig, á þig —
en hún svarar þóttafull: „Aldrei skaltu fá mig!“. Hann er þó ekki af
baki dottinn:
164 þorsteinn þorsteinsson skírnir
6 Í grein Helgu Kress (2005: 167–183) um ljóð sem Halldór Kiljan Laxness orti um
konur eða til kvenna vísar hún til Annis Pratt sem telji ‚elskhugann græna‘ vera
erkitýpu í skáldskap kvenna. Og Helga bendir á skyldleikann við Pan og Nar -
kissos. Báðir leik endurnir í ljóðinu eru raunar erkitýpur.
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:24 Page 164