Skírnir - 01.04.2010, Page 173
173mig dreymdi ég geingi útí skóg
Náttúran öll er musteri lifandi mynda,
þar mæla súlurnar lausum slitróttum orðum;
vér reikum um skóga af táknum, sem frá því forðum
oss finnst sem vér þekkjum og athygli vora binda.21
Stefnan er margþætt og sundurleit en mikilvægt einkenni er að
afstaðan til ‚veruleikans‘ er breytt. Lítt er byggt á vísun til ytri veru-
leika en meira á orðunum sjálfum og hughrifum sem þau vekja, á
merk ingaraukum orðanna fremur en beinni merkingu þeirra. Þetta
má orða á þann veg að veruleiki ljóðanna var ekki til áður en þau
voru ort, hann verður til í tungumálinu sem verður æ sjálfstæðari
veruleiki. „Að beita tungumáli af kunnáttu er að ástunda einskonar
særingar,“ ritaði Baudelaire í þætti um Théophile Gautier skáld -
bróð ur sinn.22 Og það sem einkennir mikinn hluta nútímaljóða og
greinir þau frá eldri hefðum í skáldskap er einmitt þetta: að tungu-
málið fær eigingildi og verður eitt helsta viðfangsefni skáldanna. Þau
sækjast eftir að virkja þá duldu orku sem í tungumálinu býr, leysa
úr læðingi hughrif sem oft eru too subtle for the intellect— fínni en
svo að vitið fái greint — svo notað sé orðalag írska skáldsins
W.B. Yeats.23
Verlaine, Rimbaud og Mallarmé halda verki Baudelaires áfram
hver með sínum hætti, en áhrifamestur þessara fyrirrennara symból -
ismans um þróun stefnunnar er vafalítið Mallarmé, sem Sigfús
Daðason kallaði langafa nútímaskáldskapar.24 Mallarmé ritar í bréfi
til Cazalis vinar síns 30. október 1864 að hann sé að smíða nýja
skáldskaparfræði sem orða megi svo: „Að mála — ekki hlutinn
sjálfan heldur áhrif hans.“25 Varla er hægt að ofmeta þá nýjung sem
skírnir
21 „Ein ing“, Erlend ljóð frá liðnum tímum (Helgi Hálfdanarson 1982: 224). – „La
Nature est un temple où de vivants piliers / Laissent parfois sortir de confuses
paroles; / L’homme y passe à travers des forêts de symboles / Qui l’observent
avec des regards familiers.“
22 „Manier savam ment une langue, c’est pratiquer une espèce de sorcellerie évoca-
toire.“ Í „L’art romantique“ (Baudelaire 1954: 1035).
23 „The Symbolism of Poetry“, hér ívitnað eftir 20th Century Literary Criticism
(Lodge 1972: 30).
24 Í punktum að háskólafyrirlestrum um Stein Steinar 1987.
25 „Peindre, non la chose, mais l’effet qu’elle produit“ (Mallarmé 1995: 206).
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:24 Page 173