Skírnir - 01.04.2010, Page 181
181mig dreymdi ég geingi útí skóg
kvæði Stuckenbergs. Þá er vitað að Halldór hafði miklar mætur á
skáldsögum Knuts Hamsun í þýðingu Jóns Sigurðssonar frá
Kaldaðarnesi. Ein þeirra var Pan sem kom út árið 1923. Hún fjallar
um mann sem leggst út sumarlangt, býr einn í kofa úti í skógi og
heillar konur sem á vegi hans verða. Líkindi bókarinnar og „Úng-
língsins“ eru reyndar ekki mikil.
VIII
Kvæðið „Únglíngurinn í skóginum“ var ort af ungum manni; höf-
undurinn var á tuttugasta og þriðja aldursári þegar hann orti fyrstu
gerð þess. Sé það haft í huga hlýtur skáldleg hugkvæmni hans og
vald á tungumálinu að verða sífellt undrunarefni; bæði að efni og
skáldskaparaðferð er kvæðið algjör nýjung í íslenskum bókmennt -
um. Halldór hafði þegar hér var komið sögu dvalist með hléum á
Norðurlöndum, í Þýskalandi og Frakklandi frá sautján ára aldri og
kynnst þar nútímaskáldskap. Um ljóð hans frá þriðja áratugnum
má segja að íslensk ljóðlist fer ekki að sýna merki um ámóta kynni
af erlendum skáldskap fyrr en tveimur til þremur áratugum síðar, á
árunum 1944 til 1954 eða svo.
„Kvæði eru seint fullort,“ segir í eftirmála Kvæðakvers 1949, og
það hljómar sannfærandi þegar allar þrjár gerðir „Únglíngsins“ eru
bornar saman; framför verður með hverri nýrri gerð, einkum þó
milli annarrar og þriðju gerðar. Franska skáldið Paul Valéry orðaði
sömu hugsun á þessa leið: Kvæði er aldrei lokið, einhver tilviljun
ræður því að það kemur fyrir sjónir almennings, til að mynda þreyta,
krafa útgefanda eða þrýstingur annars kvæðis.45 Í dæmi Halldórs
vorið 1925 var það sem kunnugt er ásókn nýrrar skáldsögu, Vefar -
ans mikla frá Kasmír.
Við stutta athugun á „Únglíngnum“, eins og þá sem hér er lögð
fram, vaknar sú spurning hverja af þremur gerðum kvæðisins skuli
leggja til grundvallar, því það liggur ekki fyrirfram í augum uppi.
skírnir
45 „Un poème n’est jamais achevé – c’est toujours un accident qui le termine, c’est-
à-dire qui le donne au public. Ce sont la lassitude, la demande de l’éditeur, – la
poussée d’un autre poème“ (Valéry 1957–60 II: 553).
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:24 Page 181