Skírnir - 01.04.2010, Page 212
Smiður sem er verklaginn, duglegur, iðinn og ástundunarsamur, heilsu -
góður og heppinn, hann getur með tíð og tíma vissulega orðið vel bjargálna,
eignast þokkalega íbúð, góðan bíl, komið börnum vel á legg og til mennta,
og leyft sér ýmsa afþreyingu. Þetta er reyndar ágætis líf, en þessi maður
getur samt aldrei orðið neinn auðkýfingur af þessu heiðarlega starfi einu
saman, enda yfirleitt ekki að því stefnt.
Ef þessi sami smiður gerist byggingaverktaki eða stofnar byggingavöru-
verslun og hefur alla sömu eiginleika og áður, dugnað og iðni, reglusemi
og heppni, en að auki það sem kalla mætti fjármála vit, þá hefur hann vissa
möguleika á að verða milljarðamæringur, jafnvel á skömmum tíma. Og þótt
hann verði fyrir óhappi og fari á hausinn, þá hrapar hann aldrei neðar en á
núllið og getur byrjað aftur, hvort heldur sem smiður eða iðnrekandi. Hin
margumtalaða áhætta er ekki meiri en svo, ef menn fara ekki út í meiri
háttar fjárglæfra. Lög um frelsi fjármagnsins voru nefnilega á sínum tíma
samin og samþykkt af fulltrúum svonefndra athafnamanna á þjóð þingum
í Evrópu og Ameríku og hafa síðan af málsvörum þeirra verið prísuð í tvær
aldir sem helsti grundvöllur lýðræðis.
Þannig mætti leika sér að því að taka hverja starfsgrein á fætur annarri.
Í ofvexti markaðskerfisins skiptir dugnaður, iðni eða listfengi greinilega ekki
öllu máli. Í tilbót þarf þetta fjármálavit. Vísindamaður, sem finnur upp gagn-
legt lyf, hann fær að sjálfsögðu þokkalega umbun fyrir það, en síðan eru það
lyfjafyrirtæki sem hagnast ótæpilega á að selja lyfið. Bill Gates fann ekki
sjálfur upp undrin í tölvutækninni, en hann var útsjónarsamur við að koma
þeim í verð og dreifa þeim. Þessi mismunun mannlegra hæfileika í þágu fjár-
málavits kann að virðast lítilfjörleg við fyrstu skoðun, en ef grannt er skoðað
má rekja til hennar margt bölið í heiminum síðustu tvær aldir. Hún er nefni-
lega forsenda þess að gróðaöflin ráði hvarvetna lögum og lofum.
Gallar markaðskerfisins
Mjög margir virðast reyndar halda að núverandi markaðskerfi sé nánast
náttúrulögmál. Svona hafi þetta verið frá örófi alda. Það er mikill misskiln-
ingur. Fríðindi fjármálamanna hafa smám saman verið búin til af þeim
sjálfum vegna áhrifa í stjórnkerfinu. Einhvers konar markaður hefur
auðvitað þekkst frá fyrstu tíð mannlegra sam skipta, en fyrrnefnt forgangs-
kerfi hefur ekki verið ríkjandi í heiminum nema um það bil tvær aldir eftir
byltinguna í Frakklandi í lok 18. aldar. Fram að þeim tíma taldist höndlun
með peninga nánast óhrein vinna. Það viðhorf var vissulega ekki sanngjarnt,
en staðreynd eigi að síður.
212 árni björnsson skírnir
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:24 Page 212