Skírnir - 01.04.2010, Side 238
BJÖRN BJARNASON
Verðugur bautasteinn Jóns Leifs
Árni Heimir Ingólfsson:
Jón Leifs — líf í tónum.
Mál og menning 2009.
Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti Sögusinfóníu Jóns Leifs á tónleikum 28.
janúar í ár, en þeir báru titilinn Sögusinfónían + 3. Tölustafurinn 3 vísar til
þriggja verka, sem voru frumflutt á tónleikunum, eftir þrjú íslensk tónskáld,
Hlyn Aðils Vilmarsson, Hjálmar H. Ragnarsson og Hróðmar I. Sigur-
björnsson. Í mannfagnaði að loknum tónleikunum flutti Hjálmar ræðu og
sagði, að Jón Leifs skipti sama máli fyrir íslensk tónskáld og Halldór Lax-
ness fyrir íslenska rithöfunda eða Jóhannes Kjarval fyrir myndlistarmenn.
Menn mældu sig í samanburði við hann og þess vegna hefði skipt sig
sérstak lega miklu að hafa verið gefið tækifæri til að semja tónverk með vísan
til Sögusinfóníunnar.
Hjálmar H. Ragnarsson er einn þeirra, sem hefur kynnt sér verk Jóns
Leifs. Hann vann að gerð kvikmyndarinnar Tár úr steini, sem var frumsýnd
1995. Hún hefur líklega kynnt Jón Leifs fyrir fleirum en nokkurt verka
hans. Myndin hefur höfðað sterklega til gyðinga vegna lýsingar hennar á
lífi Jóns undir nasisma með Annie, eiginkonu sinni, af gyðingaættum.
Fréttir hafa borist um, að ísraelska tónskáldið Gilad Hochman sé, ásamt
þýska rithöfundinum Stefan Schomann, að smíða óperu um Jón Leifs.
Ævisaga Jóns Leifs eftir Árna Heimi Ingólfsson snýst um listamann
sem leit jafnan á sig sem of stóran fyrir Ísland, þótt hann sækti efnivið í
verk sín til íslenskra þjóðlaga. Á þeim rúmu fjörutíu árum frá andláti Jóns
og þar til fullmótuð ævisaga hans birtist hefur vegur hans sem tónskálds
vaxið jafnt og þétt.
Í lok ævisögunnar segir Árni Heimir, að hann hafi unnið að gerð hennar
allar götur frá sumrinu 1996, þegar Hjálmar H. Ragnarsson tók honum
opnum örmum og ráðlagði honum að kynna sér orgelkonsert Jóns Leifs
sem ritgerðarefni. Með þessu hafi Hjálmar átt stærstan þátt í, að hann réðst
í að rita bókina Jón Leifs — líf í tónum, sem kom út hjá Máli og menningu
haustið 2009.
Skírn ir, 184. ár (vor 2010)
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:24 Page 238