Skírnir - 01.04.2010, Page 242
þangað hélt Jón til tónlistarnáms í Leipzig 17 ára gamall árið 1916 í miðri
fyrri heimsstyrjöldinni. Páll Ísólfsson, sem var sex árum eldri en Jón, hafði
stundað nám í Leipzig frá 1913. Páll hélt fyrstu orgeltónleika sína í Dóm-
kirkjunni 5. mars 1916. Varð Jón samferða Páli til Leipzig í september sama
ár. Aðdraganda utanferðarinnar lýsir Árni Heimir meðal annars á þennan
hátt:
Jón átti eftir að útvega sér vegabréf og þegar til þess kom var honum
bent á að föðurnafn hans [Þorleifur] gæti reynst honum óþægur ljár í
þúfu. Það var víst betra að vera við öllu búinn í samskiptum við landa-
mæraverði. Færslan í dagbókina er stuttorð: „Vegna Þ í föðurnafni
mínu hefi ég neyðst til að taka mér ættarnafn.“ Hann fékk leyfisbréf
frá Alþingi til að fella niður fyrri hluta föðurnafnsins en hélt þeim
síðari. Héðan í frá var hann Jón Leifs, tónlistarmaður.
Þessi frásögn Árna Heimis er dæmigerð fyrir hinn hófstillta en skýra stíl,
sem einkennir texta hans. Öllu er til skila haldið, án þess að höfundi fatist
flugið eða láti ofsa og ástríður í lífi Jóns fipa sig, þótt stundum sé óhjá-
kvæmilegt að kveða fast að orði. Bókin ber þess engin merki, að um sé að
ræða fyrstu ævisöguna, sem Árni Heimir skráir. Verkið er vel skipulagt og
textinn tengdur í samtímann á þann hátt, að lesandinn færist nær sögu -
sviðinu. Aldrei vaknar spurning um hvort höfundur hafi fullt vald á við -
fangs efninu.
Í upphafi var vitnað til lýsingar Kristjáns Albertssonar á uppákomunni
í Berlín 1941. Kristján er ómetanlegur heimildarmaður Árna Heimis, því
að hann virðist vera næstum hinn eini af samtímamönnum Jóns, sem heldur
við hann vináttu allt til æviloka Jóns, þótt á stundum jaðri við vinslitum.
Kristján hikar ekki við að segja Jóni til syndanna, hvort sem hann ræðir við
hann sem tónskáld, rithöfund eða fjölskylduföður. Af hreinskilni Kristjáns
má ráða, að vinátta þeirra hafi slípast á erfiðleikaárum í Þýskalandi. Árið
1942 skrifar Kristján til Jóns:
Ég veit engan sem þarf harðari skóla en þig, engan sem á það til að vera
eins gersamlega óþolandi í skrifum sínum, engan sem ég er eins á
glóðum um, að geri landi sínu háðung og skaða.
Árið 1953, þegar Jón Leifs vildi verða þjóðgarðsvörður á Þingvöllum til að
fá þar næði til að semja, bað hann vin sinn Kristján að mæla með sér við
Ólaf Thors. Kristján svaraði með bréfi frá París og sagði:
242 björn bjarnason skírnir
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:24 Page 242