Skírnir - 01.04.2015, Page 60
mér bæði faðir og móðir í þeim greinum alla tíma, og svo mega flestir segja
sem hér voru í Skálholti á hans dögum, hvers margir hafa enn not.10
Jón í Hítardal leit svipað á málið í Biskupasögum sínum. Hann kvað
Ólaf Hjaltason (um 1500–1569) biskup á Hólum frá 1552 hafa orðið
að berjast „við fákunnáttu og lærdómsleysi prestanna“ í biskups-
dæminu (Jón Halldórsson 1911–1915: 12). Þá lýsti hann þróun mála
svo:
… og áttu því h[erra] Gissur og h[erra] Marteinn við þess lakari kjör að
búa, að á þeirra dögum [fram til 1556 — innsk. HH] var Lutheri lærdómur
hér í landi af flestum fyrirlitinn, lastaður og ofsóttur. Aptur á mót pápiskur
lærdómur og siðvenjur höfðu þá yfirhönd, hvað h[erra] Marteinn og h[erra]
Ólafur fengu reyna á sér sjálfum. En í tíð Ólafs biskup liðust þær ei opin-
berlega, heldur voru af yfirvaldinu alvarlega fyrirboðnar. Kristileg þjón-
ustugerð í kirkjunum, sálmasöngur og skikkanlegar ceremoníur voru
sérdeilis á efri árum Ólafs biskups komnar víðast í gott lag og venju …11
Í þessu sambandi munaði mest um virka þátttöku æðsta veraldlega
valdsmannsins í landinu, Pouls Stigsen (d. 1566) höfuðsmanns og
hirðstjóra frá 1554, í uppbyggingu siðbótarkirkjunnar (Jón Hall-
dórsson 1903–1910: 126-131; Jón Halldórsson 1911–1915: 12–13).
Í nýjum kirkjusögurannsóknum er tekið að fjalla um „aðra“ eða
„síðari siðbótina“ sem fólst í að veraldleg yfirvöld gengu í að koma
fastri skipan á evangelískt kristnihald í ríkjum sínum og gætti þar oft
kalvínskra áhrifa í kirkjusiðum þótt ekki væri hvikað frá lútherskum
játningargrunni (Bach-Nielsen 2012: 233–234). Poul Stiegsen var ef
til vill fullsnemma á ferðinni til að teljast til þessarar bylgju og óvíst
um kalvínsk áhrif á gjörðir hans. Í hans tíð var þó lagður grunnur
að aukinni festu í kirkjulífi landsmanna einkum á árunum 1563–
1565 (Loftur Guttormsson 2000: 80–82, 94, 106–109).
60 hjalti hugason skírnir
10 Jón Egilsson 1856: 106. Sjá þó Jón Halldórsson 1903–1911: 126.
11 Jón Halldórsson 1911–1915: 12. Sjá þó Jón Halldórsson 1911–1915: 37–38. Jón
Halldórsson (1903–1910: 157) segir annars staðar þrjá fyrstu Skálholtsbiskupana
hafa lagt „alla kappsmuni á að burthreinsa hið gamla súrdeigið pápiskrar hjátrúar
og hérvillu ósiða, en innræta aptur guðs orðs kenningu og kristilega kirkjusiði“
en Odd Einarsson aftur á móti hafa getað lagt „alla alúð og ástundun þar á að
útrýma lærdómsleysi og fáfræði, ekki sízt prestanna, en efla og auka lærdóminn
og bóklegar mentir“ líkt og Brynjólfur Sveinsson síðar.
Skírnir vor 2015.qxp_Layout 1 16.4.2015 15:46 Page 60