Skírnir - 01.04.2015, Page 71
71siðbót og sálarangist
Svör almennings við nýskipaninni urðu með tvennu móti. Ann-
ars vegar efaðist fólk um gildi þeirra sakramenta og annarra helgi-
athafna sem lútherskir prestar höfðu að bjóða og vildi ekki þiggja
þjónustu þeirra, eins og fram kom í tilvitnuninni hér á undan
(Oddur Eiríksson 1927–1932: 48). Hins vegar neitaði fólk að greiða
hefðbundin gjöld til kirkju og presta. Er þess sérstaklega getið í
Hóla biskupsdæmi eins og Jón í Hítardal skráði:
Strax sem h[erra] Ólafur Hjaltason kom til biskupsstólsins var hann ei
lengur sem fólgið ljós undir mælikeri, heldur svo sem nú af guði og yfir-
valdinu uppsett á ljósahaldinum lýsti öllum opinberlega í húsinu og tók sér
fyrir hendur að koma á nýjum siðum og framfylgja hreinni guðs orða kenn-
ingu, slíkt sem honum var mögulegt og það alla þá stund hann var biskup.
[…] Og ei hafði hann svo mjög að fagna biskupstigninni sem að mæta með
henni margri mæðu og mótgangi, óvild og fyrirlitningu af sumum hverjum
hinum pápisku, sem bæði fyrirlitu þá nýju siði og trúarbrögð og þá er þeim
framfylgdu. […] Sérdeilis er tilnefnd Þórunn á Grund, dóttir Jóns biskups
Arasonar, að honum hafi verið erfið og mótfallin, vildi hún hvorki afleggja
pápiskar siðvenjur og átrúnað og ei heldur gjalda réttar skyldur sóknar-
presti þeim, er biskup hafði þangað skikkað … (Jón Halldórsson 1911–
1915: 10–11)
Þó þurfti ekki jafn stórbrotna einstaklinga og nákomna hinni fornu
kirkju og Þórunni á Grund (1511?–1593) heldur taldi Jón í Hítar -
dal bæði höfðingja og alþýðu hafa sýnt siðbótarprestunum virkan
mótþróa:
Svo voru og fleiri af veraldlegum og almúganum í Hólastipti á þeim dögum
[í tíð Ólafs Hjaltasonar biskups 1552–1569 — innsk. HH], sem þverbrotnir
voru prestum sínum og tregir til að gjalda þeim preststíundir, ljóstolla, hey-
tolla, legkaup og líksöngsaura … (Jón Halldórsson 1911–1915: 11–12)
Í þessum dæmum mætum við andófi sem um margt er andstæða
sálarangistar sem oft lamar þá sem fyrir verða. Dæmin sýna þó að á
siðbótartímanum gætti spennu og átaka sem hlýtur að hafa skapað
óvissu og öryggisleysi með þeim sem áður höfðu lifað í friði við
skírnir
1555 (Einar Laxness 1995a: 64–65). Sjá Björn Jónsson 1922–1927: 135–137;
Oddur Eiríksson 1927–1932: 48.
Skírnir vor 2015.qxp_Layout 1 16.4.2015 15:46 Page 71