Skírnir - 01.04.2015, Page 97
97síðasta skáldsaga gunnars
leikur stórt hlutverk í lífi Sesars, og hins vegar brennivíninu sem
einnig er örlagavaldur í lífi fólksins á Grýtubakka.
Mörg sambærileg dæmi eru í sögunni.15 Í því samhengi er eftir-
farandi málsgrein þó e.t.v. áhrifamest:
Annars þægilegt til að vita, að þrátt fyrir reiðiköst, sem ekki var anzað og
daglegar afvísanir áfergisbæna, hvarf hljóðið engu sinni algerlega úr
hlustum, suðaði áfram í eyrum sem vögguljóð raulað væru barni, enda þótt
rænan um stundarsakir véki á vit vákenndrar grímu. (40, leturbreyting mín)
Auðvelt er að mislesa hér. Lesandi getur hæglega lesið skáletraða
orðið (væru) sem þekkta mynd sagnarinnar að að vera (vth. þt. 3. p.
ft.) en ekki sem lýsingarorðið vær (hk. þgf. et.). Til að skera úr um
hvor merkingin er rétt, verður lesandi nánast að orðflokkagreina
aukasetninguna, og huga þá sérstaklega að orðmyndunum raulað
og væru en einnig orðinu vögguljóð (sem er eins í (nf. og þf.) eintölu
og fleirtölu). Fyrsta orðið þyrfti væntanlega að vera í fleirtölu
(rauluð) ef lesa ætti skáletraða orðið sem sögn frekar en lýsingarorð,
en einnig væri hægt að hafa sögnina í eintölu, væri. Framsetningar-
mátinn virkar þannig sem farartálmi af tilteknu tagi.16 Skáldið
kemur í veg fyrir að lesandi geti sökkt sér ofan í söguheiminn og
gleymt því að hann er að lesa texta. Hann veitir tungumálinu óhjá-
kvæmilega eftirtekt og skoða hvernig það virkar. Miklar líkur eru
raunar á að lesandi falli í þessa gildru (mislesi) og sé í framhaldinu
vakinn til vitundar um eigin leshátt.
Tvennt í viðbót má nefna um setningagerð Brimhendu en af
nógu er að taka. Annað er orðaröðin. Hún er víða óvenjuleg í sög-
skírnir
15 Gunnar notar t.d. sögnina að kalsa (að kalsa til e-s, í merkingunni að stríða eða
atyrða) sem er ekki algeng í málinu. Nafnorðið kalsi er á hinn bóginn alþekkt og
skrifað eins í öllum aukaföllum og sögnin í nafnhætti. Enn annað dæmi Gunn-
ars er sögnin að kitla og nafnorðið kitlur sem er einungis til í fleirtölu.
16 Jóhannes Gísli Jónsson hefur bent mér á að erfiðleikarnir stafa ekki síst af því að
setningin er skrýtin hvort sem rétta eða ranga túlkunin er valin. Í réttu túlkun-
inni kemur fram svonefnd stytt tilvísunarsetning (sem er raulað væru barni) en
slíkar setningar eru sjaldgæfar í íslensku. Í röngu túlkuninni er á hinn bóginn
sögn í lýsingarhætti þátíðar (raulað) á undan sögn í persónuhætti (væru) en það
er ekki mögulegt í venjulegri íslensku nema það sé frumlagseyða í setningunni
(sbr. vögguljóð sem raulað væri barni). Þar að auki stýrir raula þágufalli í báðum
tilvikum (raula e-m vögguljóð) og það er óvenjulegt.
Skírnir vor 2015.qxp_Layout 1 16.4.2015 15:47 Page 97