Skírnir - 01.04.2015, Page 98
unni og tefur fyrir lesanda, t.d. þegar sögumaður segir: „Sameign
örugg sjávar og loftleiða er hviklyndið, er fjöll fælast og fyrirlíta,
en verða við að una“ (11). Í nútímamáli myndum við segja: „Örugg
sameign …“ eða jafnvel: „Hviklyndið er örugg sameign …“ Setning
Gunnars er þó engin tilgerð þótt hún sé hátíðleg, sbr. stuðlarnir.17
Áherslan er á sameign himins og hafs sem skiptir máli fyrir fram-
vindu verksins eins og síðar verður vikið að. Hitt sem ég vildi vekja
athygli á hér er upphafsmálsgreinin sem er svona:
Torfskurðarmaður á hnjánum, hliðgengur, álútur sem á bæn, enda við -
tengdur jarðskorpunni með allt að því álnarljá tvo þumlunga undir sverði,
traustum krumlum saumað að sigðmynduðu skammorfinu — hvers konar
skepna er það? Er það maður? … (7)
Ekki er ólíklegt að þetta fyrsta útspil höfundar fæli lesendur frá.
Samt er upphafsmálsgreinin sérkennilega viðeigandi. Líkt og torf -
skurðarmaðurinn er hliðgengur fylgir hún ekki beinni eða hefð -
bundinni línu ef svo má að orði komast.18 Frumlagið er óvenju langt
og teygir sig yfir tvær og hálfa línu í frumútgáfunni („Torfskurðar -
maður … sverði“). Þegar lesandi áttar sig loks á frumlaginu svipast
hann ósjálfrátt um eftir persónubeygðri sögn (hvað gerir torfskurðar -
maðurinn? hvað er sagt um hann?) en finnur enga. Í staðinn verður
fyrir honum sögn í lýsingarhætti (saumað), og það er eins og ný
setning hefjist þar en í hana vantar einnig persónubeygða sögn
(traustum krumlum er saumað…). Síðan kemur spurning sem gæti
átt við um bæði torfskurðarmanninn og málsgreinina sjálfa: Hvers
konar skepna eða óskapnaður er þetta? Myndin sem birtist hér af
98 róbert h. haraldsson skírnir
17 Brimhenda er stundum sögð orka á lesendur sem ljóð í óbundnu máli. Heiti sög-
unnar kallast einnig á við heiti bragarhátta, sbr. braghenda og stakhenda. Sjá t.d.
Benjamín Sigvaldason (1955: 9): „Þótt Brimhenda sé í söguformi, er hún raunar
ljóð í óbundnu máli …“. Benjamín líkir Brimhendu við kveðskap Einars Bene-
diktssonar en eftirgrennslan mín hefur leitt í ljós að nokkur af hinum sérstæðu
orðum Brimhendu finnast líka í kveðskap Einars. Sjá einnig Þorleif Hauksson
2003: 210.
18 Orðfæri Brimhendu er oft sérstætt þótt höfundur noti kunnugleg orð. Hann
ræðir t.d. um „að anna sjálfstæði sínu“ (28), að „anna draumum sínum“ (38), að
„halda til jafns við“ einhvern (53), „að eiga andstætt með að skilja“ eitthvað (54),
og „að hafa auga á hverjum fingri“ (58). Og hver eru „vafavitin sextíu og sex“ (33)
sem Sesar er sagður hafa umfram aðra?
Skírnir vor 2015.qxp_Layout 1 16.4.2015 15:47 Page 98