Skírnir - 01.04.2015, Page 102
henni hvergi nema ef vera skyldi í Brimhendu sjálfri. Athuganir
okkar hér að framan veita vísbendingar um svör við þessari spurn-
ingu. Í því samhengi má nefna sex atriði sérstaklega.
(1) Lesandi Brimhendu nær ekki að sökkva sér ofan í sögu-
heiminn og gleyma því að hann er að lesa skáldsögu. Höfundur
vinnur gegn því á ýmsan hátt. Fimm atriði hafa verið dregin fram
sérstaklega. Í fyrsta lagi er orðaforðinn svo fjölbreytilegur og
óvenjulegur að lesandi þarf iðulega að gera lestrarhlé, slá upp orðum
í orðabókum, eða reyna að fá botn í myndlíkingar og skáldamál.
Og stundum þarf hann að halda vöku sinni til að sjá að óvenjulegt
orð er notað sem þó líkist kunnuglegu orði. Í öðru lagi er upp-
bygging setninga oft svo snúin að lesandi þarf að staldra við og huga
að setningafræði eða málfræði. Í þriðja lagi hamlar slitróttur
söguþráður og brotakennd saga því að lesandi fái sökkt sér ofan í
söguna og gleymt stað og stund.22 Útúrdúrar eru margir og al-
mennar náttúrulýsingar og mannlífsmyndir hægja á framvindu sög-
unnar. Í fjórða lagi má nefna hve óvenjuleg persónusköpunin er.
Lesandi fær úr ákaflega litlu að moða af því tagi sem best tryggir
samúð með persónum. Sögumaður notar oft orðalag sem beinlínis
vinnur gegn slíkri samúð, jafnvel þegar hann lýsir fólki hvers hag
hann ber fyrir brjósti. Hann talar t.d. um karlfauskinn (60), karl ang-
ann (62), golþorskinn (72) og konuaumingjann (88). Hann lýsir
dauðdaga Karlamagnúsar, föður Sesars, á afar spaugilegan hátt (81),
segir að Margrét gamla hafi skrölt veturinn á enda (82) og kallar fá-
tækt fólk utansveitarhyski og fáráðlinga (88). Í fimmta lagi þarf les-
andi að halda vöku sinni andspænis spakmælum og spekiorðum sem
öðlast óvænta merkingu í samhengi sögunnar. — Sjálfur er Sesar
draumrækinn maður og oft utan við sig, t.d. þegar hann hlustar á
tónlist. Þá stríða vinir hans honum og segja: „Sesam — opnaðu! …“
102 róbert h. haraldsson skírnir
22 Hér vakna hugrenningatengsl við hugmyndir Viktors Shklovskíjs (1991) um
framandgervingu í skáldskap sem hann telur nauðsynlega til að rjúfa vélrænan,
sjálfvirkan lestur eða brjóta upp vélrænar skynjanir, sem aftur sé forsenda þess
að sjá hlutina eða sjá þá í nýju ljósi. Sumir af fyrstu lesendum Brimhendu lýsa
markmiðum Gunnars einmitt með svipuðu orðalagi og Shklovskíj. Hann virðist
á hinn bóginn vera að lýsa mjög almennum einkennum á skáldskap, sérstaklega
myndmáli. Ég held því fram að Gunnar sé hér að beita töluvert róttækari og sér-
tækari aðferðum en Shklovskíj gerir að umtalsefni.
Skírnir vor 2015.qxp_Layout 1 16.4.2015 15:47 Page 102