Skírnir - 01.04.2015, Síða 103
103síðasta skáldsaga gunnars
(55, 75, 86, 87). Gunnar virðist beina ámóta tilmælum til lesanda
síns nánast á hverri síðu bókarinnar: „Lesandi — vaknaðu.“
(2) Lesandi er sífellt minntur á að hann er að lesa texta, að sög-
unni er miðlað í gegnum ritmál. Þetta er í reynd hin hliðin á þeim
atriðum sem nefnd eru í lið (1). Í sumum skáldsögum er textinn svo
tær og auðlæs að lesandinn veitir honum litla eftirtekt, gefi hann sig
sögunni á vald. Í Brimhendu er þessu öfugt farið. Því meiri athygli
sem lesandi veitir sögunni þeim mun meir eykst vitund hans um
sjálfan textann, tungumálið sem verkið er skrifað á, en einnig vit-
undin um hvernig tungumálið virkar almennt. Hann veltir fyrir sér
ólíkum aðferðum sem skáld geta farið til að fanga og afmarka til-
tekinn hluta veruleikans, samspili gamalla og nýrra orða o.s.frv.
(3) Brimhenda er eins og góður kveðskapur að því leyti að ný og
ný lög merkingar birtast lesanda við hvern lestur. Hvernig þessi lög
afhjúpast og í hvaða röð fer m.a. eftir þekkingu, forskilningi og
áhugasviði lesandans. Telja verður útilokað að þau birtist öll við
fyrsta lestur, sama hve fróður lesandi er, varkár og athugull. Það
kostaði mig t.d. nokkra lestra að sjá í hve ríkum mæli sagan kallast
á við íslenskar fornsögur og heiðna tíð. Fornyrði og myndmál vísa
í heiðna átt og margt fleira. Sesari er t.d. líkt við Orm Stórólfsson á
einum stað (49), en Orms þáttur Stórólfssonar varpar ljósi á skap-
gerð Sesars. Örlagafugl sögunnar er Þórshani, sem er Óðinshani, er
„hvergi sér rautt á“ (56), og höfuðskepnurnar birtast sem heiðin öfl.
(4) Skilji lesandinn Brimhendu, að hluta eða heild, hefur hann
fjárfest töluvert í sögunni. Verkið er sköpunarverk hans, að hluta,
svo mjög sem það virkjar athyglisgáfu hans og kveikir á skilnings-
ljósinu. Í fyrstu umsögninni um verkið sem ég hef fundið og birt-
ist í Morgunblaðinu 22. desember 1954 undir fyrirsögninni „Meistar -
leg sagnagerð Gunnars Gunnarssonar“ segir: „En einmitt vegna
þess hve lesandinn heillast af hinni stuttorðu frásögn, fer ekki hjá því
að hann sjálfur yrkir í eyðurnar, heldur áfram þar sem frásögninni
sleppir.“ Andstætt við höfund þessara ummæla, sýnist mér að vinna
lesandans sé ekki fólgin í því að halda áfram þar sem sögunni sleppir
og spinna út frá henni. Það sem lesandi þarf að gera er að kafa dýpra
og dýpra ofan í sjálfa söguna. Með því að virkja eigin hæfileika til
fulls, einkum athyglis- og skilningsgáfuna, fær lesandi sífellt meira
skírnir
Skírnir vor 2015.qxp_Layout 1 16.4.2015 15:47 Page 103