Skírnir - 01.04.2015, Side 116
Aþenubúar hrista þessa hrossaflugu þó af sér og drepa hana að
lokum. Athyglisvert er að skoða endalok Sesars í ljósi þessara fleygu
orð Sókratesar.32 Dánardægur sitt vinnur Sesar í flagi sem „var í af-
langri dæld þannig lagaðri, að minnt gat á hestnára“ (90). Í þetta
sinn ristir Sesar þó of djúpt og jörðin kippist við. Síðan segir: „Það
var líkast og þá er hross reynir að hrista af sér hestaflugu“ (91). Í
eldri þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar á Málsvörninni er orðið
„hestafluga“ einmitt notað fyrir gríska orðið „mýops“ (μύωψ) en,
eins og sjá má, nota Sigurður Nordal og Þorsteinn Gylfason
„broddfluga“ í þýðingu sinni.33 Orð Sókratesar eru svo vel þekkt í
vestrænni menningu að líkindin geti tæpast verið tilviljun, sérstak-
lega ef litið er til þess hve heimspekilegt verk Brimhenda er. Það
var að vísu samfélagið sem hristi Sókrates af sér en jörðin, náttúran,
sem varpar Sesari í öldufaðm. En þá er að minnast þess að það er hin
sama tryllta náttúra sem hefur gert Grýtbekkinga og Mýramenn
svo eirðarlausa og hviklynda. Svo ólíkur sem Sesar er Sókratesi,
stendur hann þó líkt og heimspekingurinn fyrir allt sem er andstætt
hviklyndi (sjá t.d. 71). Sókrates segist í Faídóni hafa tekið upp á því
að rækta skáldskapargáfuna við ævilokin (Platón 1990: 103). Skáldið
Gunnar Gunnarsson var frá fyrstu tíð heimspekilega þenkjandi en
undir loka ferilsins virðist hann hafa komist að þeirri niðurstöðu
að heimspekilegur áhugi hans kallaði á róttæka endurskoðun á
skáldsöguforminu. Með því að búa til nýja tegund af skáldsögu
116 róbert h. haraldsson skírnir
32 Í anda sögumanns Brimhendu er gaman að geta bent á að lesa má nafn Sesars út
úr nafni Sókratesar (í eignarfalli) með því einu að strika út stafina fimm sem fylgja
upphafstafnum.
33 Þýðing Sveinbjarnar er svona: „Það er því, Aþenumenn, aungvanveginn mín
vegna, eins og menn skyldu halda, að eg er nú að forsvara mig, heldur yðar vegna,
til þess þér vanrækið ekki syndsamlega þá gáfu, sem Guð hefir veitt yður, með
því að sakfella mig. Því ef þér drepið mig, munuð þér ekki auðveldlega finna
annan eins mann sem (þó yður þyki það hlæilega til orða tekið) settur er af Guði
á þessa borg, eins og á stóran og góðan hest, en sem (vegna stærðar) er þúng-
lamalegur og þarf að piprast upp af einhvörri hestaflugu. Allteins sýnist mér Guð
hafa sett mig í þessa borg, og þessvegna sit eg hjá yður alsstaðar allan daginn, og
læt ekki af að uppvekja, áminna og ávíta einn og sérhvörn yðar. Ekki munuð þér
auðveldlega finna annan slíkan mann, og ef þér vilduð mínum orðum fylgja
munduð þér þyrma mér.“ Þýðing Sveinbjarnar er varðveitt í Lbs. 290 8vo á hand-
ritadeild Landsbókasafns.
Skírnir vor 2015.qxp_Layout 1 16.4.2015 15:47 Page 116