Skírnir - 01.04.2015, Page 202
um en stjórnlagaráð hélt tölu þeirra óbreyttri, þannig að ekki væri
gefið til kynna innra ósamræmi í frumvarpi sem miðaði að því að efla
löggjafarvaldið og dómsvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu.9
Eftir því sem vinnu stjórnlagaráðs vatt fram varð sumum fulltrú-
anna ljóst, e.t.v. sérstaklega þeim sem höfðu sambönd á Alþingi, að
stuðningur þingsins við nýja stjórnarskrá fór dvínandi. Þegar frum-
varpið var afhent forseta þingsins, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur,
við hátíðlega athöfn 29. júlí 2011, tóku mörg okkar eftir augljósu
áhugaleysi forsetans (meira um forseta þingsins síðar). Alþingi
hafnaði því að láta þýða frumvarpið á ensku og auðvelda þannig út-
lendingum að bregðast við því. Því urðu frjáls félagasamtök, Stjórn-
arskrárfélagið, til þess að fjármagna þýðingu þess.10 Eftir að Alþingi
hafði tekið við frumvarpinu var það sent til stjórnskipunar- og eftir-
litsnefndar þingsins, sem tók sér nokkra mánuði til að lesa það og
ræða. Næstum átta mánuðum síðar, 12. mars 2012, voru fyrrum
fulltrúar í stjórnlagaráði kallaðir saman með skömmum fyrirvara til
sérstaks fjögurra daga fundar. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bað
fyrir hönd þingsins um viðbrögð þeirra við nokkrum skriflegum
fyrirspurnum. Flestir fulltrúanna fyrrverandi, en þó ekki allir (21
af 25), sáu sér fært að mæta. Svör þeirra voru einróma sem fyrr. Eftir-
tektarverðasta fyrirspurnin var e.t.v. sú sem varðaði greinina um
náttúruauðlindir og kveður meðal annars á um að „Stjórnvöld geta
á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða
annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins
hóflegs tíma í senn.“ Alþingi vildi vita hvort orðalagið „gegn sann-
gjörnu gjaldi“ mætti koma í staðinn fyrir „gegn fullu gjaldi.“ Því
höfnuðu fulltrúarnir fyrrverandi kurteislega og ákveðið. Til þess
202 þorvaldur gylfason skírnir
9 Þessi ákvörðun sýnir, að viðhorf stjórnlagaráðs var ekki fjandsamlegt Alþingi. Ef
fyrir stjórnlagaráði hefði vakað að gera þingmönnum erfiðara fyrir gagnvart al-
menningi að standa gegn frumvarpinu, þá hefði það getað ákveðið að leggja til
fækkun þingsæta.
10 Alþingi hafnaði því einnig að kosta enska þýðingu á skýrslu rannsóknarnefndar
Alþingis (2010), þannig að útlend fórnarlömb hinna föllnu banka urðu að bera
kostnað af slíkum þýðingum. Aðeins lítill hluti skýrslunnar er aðgengilegur á
ensku á vef Alþingis.
Skírnir vor 2015.qxp_Layout 1 16.4.2015 15:47 Page 202