Skírnir - 01.04.2015, Page 276
Þetta eru raunsæisleikir úr lífi sjómanna.26 En brátt kemur i ljós, að
O’Neill stefnir í aðrar áttir. Hann er líkt og Guttormur vel lesinn í
straumunum í Evrópu — frá Ibsen og Tjekhov til Maeterlincks. Og
brátt rísa svo lítil leikhús víða um Bandaríkin upp úr 1920 sem taka
fyrir verk frönsku impressíónistanna og þýsku expressíónistanna.27
Sjálfur fer O’Neill þá að þreifa fyrir sér með breytt tjáningarform.
Þetta gerist í leikritunum Emperor Jones (Jón keisari, 1920), The
Hairy Ape (Hærði apinn, 1921) og síðar The Great God Brown
(Brown mikli guð, 1926). Hærði apinn er með skýrum expressíón-
ískum og táknlegum einkennum; í síðastnefnda leikritinu notar
O’Neill til dæmis grímur til að tjá tvísýni sitt sem einnig er eitt
megin einkenni á skáldskap Guttorms. Grímurnar eru notaðar ekki
ólíkt því sem Brecht gerði síðar í Góðu sálinni frá Sezúan, og jafn-
vel til að villa á sér heimildir. Hjá O’Neill er það bragð nýtt í heimi
sem er táknaður með andstæðunum Dion(isos) Anthony — hinum
skapandi listamanni sem einnig þekkir til meinlæta heilags Antoní-
usar — og Brown — hinum sigurríka kapítalista. Þó að skáldið
Elmer Rice hafi ef til vill haft áhrif á leit O’Neills að nýjum leiðum,
er O’Neill þó sá fyrsti í Vesturheimi sem ritar leiki í þá veru sem hér
hafa verið til umfjöllunar — og eru settir á svið. En sú staðreynd
að nokkrir leikja Guttorms eru skrifaðir og á þrykk út gengnir
þegar á öðrum áratug aldarinnar gerir ráðgátuna um inntak, stíl og
tækni hans enn forvitnilegri. Þetta eru eins og áður segir Skugginn
(1917), Hinir höltu (1917), Hvar er sá vondi? (1918) og væntanlega
einnig Myrtur engill. Og þessi verk eru þrátt fyrir sameiginleg ein-
kenni býsna ólík að stíl og inntaki.
Hér skal því ekki haldið fram, að verk Guttorms séu á neinn hátt
sambærileg við ofangreind verk O’Neills að leikrænum áhrifamætti
eða andagift. Hins vegar verður varla fram hjá því gengið að íslenska
276 sveinn einarsson skírnir
26 Þetta litla leikhús, sem stofnað var í Massaschusetts og síðan flutt til New York,
og Theatre Guild sem stofnað var skömmu síðar, ollu vatnaskilum í bandarískri
leiklistarsögu; í Theatre Guild var reynt að stofna fastan leikflokk og starfsemi
með evrópsk repertoire-leikhús að fyrirmynd; í hinu tilvikinu var markmiðið að
efla bandaríska leikritun, kannski að írskri fyrirmynd Abbey-leikhússins, sem
haft hafði sýningar vestra.
27 Sjá t.d. Mottram 1995: 21–45, og Joseph Wood Krutch (1954) í inngangi að Nine
Plays by Eugene O´Neill. Sjá ennfremur Allardyce Nicoll 1961: 689–806.
Skírnir vor 2015.qxp_Layout 1 16.4.2015 15:47 Page 276