Skírnir - 01.04.2015, Page 282
sjálfsævisögu íslenskrar alþýðu konu“ er jafnframt niðurstaða margra ára
greiningar Guðnýjar á síðari tíma handritaarfi á Íslandi og lykilatriði í
hennar verki.
Um æviferil Guðrúnar og síðari tíma flokkun textans styðst Brynja al -
farið við umfjöllun Guðnýjar, endursegir og umorðar, með tilvísunum hér
og þar, en víðast er eins og hún hafi komist að þessu öllu saman sjálf. Raunin
er sú að ekkert eiginlegt efnisatriði kemur frá Brynju sem ekki er í bók
Guðnýjar eða ritsmíðum sem þar er vísað til. Viðbætur Brynju felast í hug-
leiðingum út frá bókinni um hugsanlega viðtakendur textans á sínum tíma
sem „lokaðan áheyrendahóp“ (bls. 381, sbr. 388, 390, 401) og vangavelt um
um sviðsetningu endurminninga almennt (bls. 391). Spyrja má: Réttlætir
þetta sjónarhorn og fræðilegt framlag rými í ritrýndu riti eins og Skírni? Frá
okkar bæjardyrum séð verður að svara þessari spurningu neitandi.
Sá yfirvofandi skilningur lesenda að þarna birtist afrakstur rannsóknar-
vinnu Brynju Þorgeirsdóttur er styrktur þegar ritstjóri Skírnis, Páll Valsson,
kynnir hana í formála sem „athyglisverða“ grein „um sjálfsævisögu konu
frá 18. öld, þá elstu sem varðveitt er, og út kom á síðasta ári.“ Hann bætir
svo við: „Brynja setur þessa afar sérstöku sögu í samhengi og túlkar hana
á allt annan hátt en fyrri tíðar menn (karlar)“ (bls. 228). Síðar, á síðu Skírnis
á samskiptamiðlinum Facebook, bætir Páll um betur þegar hann skrifar:
Afmælisbarn dagsins, Brynja Þorgeirsdóttir, á stórmerka grein í nýjum
Skírni sem nefnist Upprisa Guðrúnar Ketilsdóttur. Þar fjallar hún um sjálfs-
ævisögu konu frá 18. öld sem eitt sinn var skilgreind sem „lítt merkilegur
brandari“, en Brynja álítur fágæta og verðmæta „heimild um hugarheim fá-
tækrar íslenskrar alþýðukonu á einu erfiðasta skeiði í þjóðar sög unni“.
Hér eru tekin af öll tvímæli um hvers eðlis þessi „rannsókn“ Brynju er og
hverju hún hefur fengið áorkað.
Við þetta bætist að Brynja gerir sér lítið fyrir og endurprentar útgáfu
Guðnýjar á textanum í heild sinni undir því yfirskini að þar séu villur og
ósamræmi að finna. Sem ritstjórar ritraðarinnar fullyrðum við að þeir fáu
„hnökrar“ sem Brynja tiltekur á fyrri útgáfum Guðnýjar á textanum séu
svo smávægilegir (og flestir reyndar umdeilanlegir) að þeir verðskuldi hvorki
harðorðar umsagnir Brynju né endurgerð hennar á textanum. Þarna er litið
framhjá þrotlausri og nákvæmri textavinnu Guðnýjar sem bar ólíkar gerðir
handritsins saman með það í huga að sýna uppskriftirnar í mismunandi ljósi.
Hér hefur heilli bók því verið þjappað niður í tímaritsgrein og um leið
birtist á spjöldum sögunnar nýr höfundur að verkinu! Við það er ekki hægt
að una þegar litið er til þess að endursögn textans er um það bil 90 prósent
282 athugasemdir og andmæli skírnir
Skírnir vor 2015.qxp_Layout 1 16.4.2015 15:47 Page 282