Skírnir - 01.04.2016, Page 42
mann sem skálar við einhverja Gunnu og étur „graut, ýsu og lamba-
kjöt“. Þótt færa megi rök fyrir því að viss gróteska sé þegar til staðar
í ljóði Hannesar, sem yrkir um rotnandi lík í kistu, er sú gróteska
milduð með ljóðrænu sem Þórbergur hafnar í stað þess sem kalla má
skoplegt hversdagsraunsæi.
Í öðrum hluta kvæðisins ráfar hið liðna skáld um miðbæ Reykja-
víkur, hímir eitt við borð á Hressó og reynir að panta sér kaffi og
rjómatertu, án árangurs þar sem hann „[eigrar] um sínar vistarverur
ósýnilegur / og af engum manni heyrður“. Í þriðja hluta vafrar hinn
framliðni „um ókunn holt — og þó ekki ókunn“:
sokkinn niður í sælgæti fáfræðinnar:
ótta við dauðann,
tilgangsleysi lífsins,
öngþveiti aldarinnar,
ógnir stríðsfákanna,
vonzku Kreml,
vernd Natós. —
Ef til vill má sjá í þessari upptalningu á „sælgæti fáfræðinnar“ tilvísanir
til helstu yrkisefna atómskáldanna (að undanskilinni síðustu línunni).
Í síðustu fjórum hlutum kvæðisins reiðir Þórbergur hátt til
höggs þegar hann lætur skáldið hitta fyrir „verndara Vestursins“,
ráðherrann „Mister Forestall“ sem tekst „að tigsa hann með sér sem
hirðskáld þjóðhöfðingja hins „frjálsa heims“ sem þá eru að hleypa
af stokkunum marsinum mikla til Kreml“ eins og Þórbergur út -
skýrir í formálanum. Hér vísar Þórbergur til James Forrestal (1892–
1949) (en stafsetur nafn hans rangt) sem var yfirmaður bandaríska
sjóhersins á síðustu árum heimstyrjaldarinnar síðari og fyrsti varnar-
málaráðherra Bandaríkjanna, frá 17. september 1947 til 28. mars
1949. Forrestal var þekktur fyrir harða andstöðu sína gegn Sovét-
ríkjunum og andúð á kommúnisma. Eftir að hann lét af embætti
varnarmálaráðherra glímdi hann við geðræna erfiðleika og svipti sig
lífi — eða var myrtur — í maí 1949.9 Skáldið er að vonum undrandi
á að hitta fyrir mann þennan og á við hann orðaskipti:
42 soffía auður birgisdóttir skírnir
9 Um James Forrestal má lesa víða á veraldarvefnum og einnig hafa verið skrifaðar
bækur um líf hans og dauða, sjá t.d. Hoopes og Brinkley 1992.
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 12:59 Page 42