Skírnir - 01.04.2016, Page 44
manna í átt að Kreml þar sem höggva skal „niður hvern bolsa á
himni og jörð“.
Hliðstæðir heimar
„Þú skilur ekki lífsins lögmál enn,“ segir Mr. Forestall við skáldið
í fjórða hluta kvæðisins, eins og áður er getið, og bendir á að á milli
lífs og dauða séu „dimm[ar] dyr“. Í formálanum hnykkir Þórbergur
(1962: 6) líka á þeirri skoðun að skáldið fái „ekki umflúið það lög-
mál lífsins að vakna upp í „öðrum heimi““. Ef marka má kvæðið
eru heimarnir tveir hliðstæðir og um síðir tekst Mr. Forestall að
leiða skáldinu fyrir sjónir að „þetta sé hvorki dulblekking, deliríum
né draumur“ eins og Þórbergur skrifar einnig í formálanum. Í
skýringunum aftan við kvæðið skrifar Þórbergur líka:
Líf alls þorra manna eftir dauðann mun vera býsna áþekkt lengi vel og það
var hér í heimi, vitsmunirnir eru engu meiri, hugsunarhátturinn samur og
framfarir oft mjög hægfara, jafnvel erfiðari en hér. Og ill verk geta menn
haldið áfram að fremja þar allt að því í það óendanlega og sokkið dýpra og
dýpra. Þar nefna menn ýmsa staði sömu nöfnum og þeir hétu í „gamla land-
inu“. Þar eiga þeir sína Rómaborg og Aþenu og áreiðanlega öflugt Nató. Og
ekkert mælir móti því, að þar eigi fólk sínar verðlaunastofnanir, þar á meðal
stofnun, sem það kenni við Nóbel. (Þórbergur Þórðarson 1962: 28)
Í raun og veru má líta á formála Þórbergs og skýringar hans sem
hluta af kvæðabálkinum sjálfum því sami andi skops og paródíu er
víða á ferðinni í öllum þessum þremur hlutum kversins. Þótt Þór-
bergur hafi trúað á líf eftir dauðann og að við tæki annar heimur —
hann talar um „vor[an] stundlega tækifæraheim“ annars vegar og
„eilífðina“ hins vegar (Þórbergur Þórðarson 1962: 7) — þá er engu
að síður ljóst að hann beitir skopi við lýsingarnar á „eilífðinni“ í
þessu verki sínu, enda vafðist það aldrei fyrir honum að gera grín að
sjálfum sér og sínum áhugamálum. Vilji maður kynna sér hug-
myndir Þórbergs um lífið eftir líkamsdauðann er vænlegra að leita
í ýmis greinaskrif hans en í Marsinn til Kreml.11
44 soffía auður birgisdóttir skírnir
11 Pétur Pétursson guðfræðingur hefur skrifað allítarlega um þennan þátt í ævi og
skrifum Þórbergs. Sjá Pétur Pétursson 2010.
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 12:59 Page 44