Skírnir - 01.04.2016, Page 45
45undarleg ósköp
„Þórbergur ræðst á Hannes Pétursson“
Það hefur varla verið notalegt fyrir ungt ljóðskáld að fá slíka send-
ingu í formi ljóðabálks frá Þórbergi Þórðarsyni og vakti tiltækið að
sönnu athygli dagblaða á hægri vængnum en vinstri blöðin þögðu
þunnu hljóði. Þann 17. desember 1962 birti Vísir frétt um útkomu
bókarinnar undir fyrirsögninni: „„Þegar gyðingablóðið spýtist
undan hnífnum.“ Þórbergur ræðst á Hannes Pétursson.“ Fyrir-
sögnin vísar til hendingar úr sjötta hluta Marsins til Kreml sem þar
er á þýsku: „Wenn das Judenblut von Messer spritzt / dann geht
uns nochmals so gut.“ Þórbergur útskýrir aftanmáls að hér sé um að
ræða línur „úr Horts-Wesselsöng þýzku nazistanna“ og þýðir þær
á íslensku. Vísir undrast hina „furðulegu árás Þórbergs“ sem „saki
Hannes um að vera samvizkulaust leiguþý, sem selji lífsskoðun sína
fyrir peninga“ og dregur blaðið þá ályktun að innihald bókarinnar
lýsi „betur en flest annað, hvernig hugsunarháttur kommúnista [sé]
í raun og veru“ („Þegar gyðingablóðið …“ 1962: 16).
Tveimur dögum síðar leitar Morgunblaðið álits Hannesar á
kvæði Þórbergs og bregst hann við af yfirvegun og segist telja sér það
til tekna „að hafa hitt Þórberg Þórðarson í hjartastað með tveimur
kvæðum úr bók [sinni] Í sumardölum“. Þá bætir hann við að það sé
„ekki oft, sem ljóðskáld nú á dögum fá svo skýlausa sönnun þess,
að kvæði þeirra hafa verið lesin“ og það „[kitli] hégómagirnd“ sína
„að hafa látið frá [sér] fara kvæði, sem gátu inspírerað jafn lofgró-
inn höfund og Þórberg, enda þótt Marsinn frá Kreml, hið nýja
framlag hans til eilífðarmálanna og heimskommúnismans, hefði
mátt betur takast“ („Draugatrú og kommúnismi“ 1962: 2). Hannes
slær einnig á létta strengi:
Þá er það og góð tilbreyting frá daglegu stappi og fjasi að fá, fyrir tilstilli
kvæðisins, að skreppa yfir landamærin, eins og það er kallað, flakka þar um
í fylgd stórmenna, skyggnast um allar gáttir og marsera síðan beinar brautir
til Kreml, sem er auðvitað mest um vert fyrir mann eins og mig, sem aldrei
hefur verið þátttakandi í neinni menningarsendinefnd austur þangað. Nú
þekki ég þetta þegar allt saman, þökk sé Þórbergi, og sé því enga ástæðu til
að lifa þetta allt upp aftur í framhaldslífinu, enda geri ég ekki ráð fyrir, að
mér standi það til boða. („Draugatrú og kommúnismi“ 1962: 2)
skírnir
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 12:59 Page 45