Skírnir - 01.04.2016, Page 48
Það má telja nokkuð kyndugt að skáld á borð við Hannes
Pétursson, sem „er í ljóðum sínum aldrei langt frá þjóðlegri hefð“
heldur „leitar sátta milli þjóðlegrar hefðar og módernískra nýjunga,
bæði í bragarháttum, yrkisefnum og efnistökum“ (Hermann Stef -
áns son 2002), skuli lenda í þeirri stöðu að verða síðasti skotspónn
skopkvæða Þórbergs. Hvað varðar fagurfræði er Hannes mjög
óverðugur móttakandi þessarar ónotalegu sendingar frá Þórbergi. Í
áðurnefndu viðtali segist Hannes hafa leitað „nútímans innra með
[sér] án þess að þurfa að fleygja öllum kostum bragarins“ og að
hann hafi ekki getað skipað sér í lið með atómskáldunum, hann hafi
verið að leita að öðru en þeir:
Atómskáldin litu svo á að það yrði að leggja niður hefðbundinn brag, rétt
eins og nútíminn í ljóðagerð fælist í forminu einu saman. Það er ákaflega
grunnfærið að ætla svo, því margt af því sem heyrir til nýjungum í ljóðagerð
birtist í bundnum háttum. Svo margt í hefðbundnum brag er hægt að nota
og menn komast vart hjá því til lengdar að hagnýta sér það í einhverjum
mæli. Það sjónarmið að módernisminn hér á landi fælist í því að allir legðu
niður hefðbundinn brag, eins og hann væri ekki lengur til, ristir því grunnt.
Menningarpólitíkin var á annan veginn orðin þannig að með því að leggja
braglínuna og rím og stuðlasetningu til hliðar yrði ljóð nokkurn veginn
sjálfkrafa að nútímaskáldskap. Þetta var barnalegt sjónarmið. (KB 1999: 28)
Í þessu máli virðist sjónarmið Hannesar vera náskylt þeim sjónar -
miðum sem Þórbergur setur fram í „Bréfi til Kristins“. Enda finnur
Þórbergur, þegar hann byrjar að yrkja Marsinn til Kreml, að kvæð -
inu henti ekki ‚atómstíllinn‘ eins og fyrr var nefnt; að „gamla
formið“ henti því betur. Það má því sjá að atlaga Þórbergs að
Hannesi er miklu fremur pólitísk og hugmyndafræðileg en fagur -
fræðileg. Þá má minna á að annað og yngra skáld hefur einnig snúið
út úr ljóðlist Hannesar, reyndar skáld sem líka hefur leitast við að
tengja þjóðlega hefð og nútímann í beittum ádeilukvæðum. Í ljóði
sínu „Heimspekilegar vangaveltur um þjóðfélagsstöðu“ yrkir
Megas: „Gulir eru straumar þínir / hland mitt í skálinni“ (Megas
2012: 157) sem enduróma fræga ljóðlínu Hannesar: „Bláir eru dalir
þínir / byggð mín í norðrinu“ (Hannes Pétursson 1955). Í ljóðinu
„Inn í framtíðina“ yrkir Megas ennfremur:
48 soffía auður birgisdóttir skírnir
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 12:59 Page 48